Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 13:41:00 (4586)

     Geir H. Haarde (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að þingmenn hagnýti sér þann rétt sem 46. gr. þingskapalaga veitir mönnum til þess að beiðast skýrslu af hendi ráðherra og ég mun að sjálfsögðu greiða því atkvæði að skýrslan verði lögð hér fram. En ég hlýt að gera athugasemdir við þá greinargerð eða rökstuðning sem fylgir þessari beiðni þar sem óskað er eftir að komi fram í skýrslunni ýmis atriði. Ég vek athygli m.a. á því að óskað er eftir að þessi skýrsla verði annaðhvort skrifleg eða munnleg. Í 46. gr. þingskapalaga er ekki gert ráð fyrir munnlegum skýrslum. Óskað eftir því að skýrslan verði lögð fram innan tiltekins tíma. Það er ekkert tímaákvæði í 46. gr. þingskapalaganna heldur er gert ráð fyrir því að forseti útbýti skýrslu þegar ráðherra hefur útbúið hana í hendur þingsins.
    Sömuleiðis er hér farið fram á hluti sem að mínum dómi eiga ekki erindi inn í skýrslur til Alþingis eins og að ráðherra rannsaki sannleiksgildi frétta eða veiti upplýsingar um yfirlýsingar tiltekinna aðila, aðstoðarmanns utanrrh., og kanni hvort skoðanir sem ráðherra hefur flutt séu hans persónulegu skoðanir og annað í þeim dúr. Ég tel að það sé óeðlilegt og geri athugasemd við það. Ég vil láta þetta koma hér fram þó að sjálfsögðu muni ég greiða því atkvæði að þessi skýrslubeiðni verði heimiluð.