Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 13:42:00 (4587)

     Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Ég tel þessar athugasemdir hv. 8. þm. Reykv. nokkuð sérkennilegar. Hér er auðvitað um það að ræða að á þessu þingi höfum við alþýðubandalagsmenn lagt fram tvær beiðnir um skýrslur, báðar í októbermánuði. Hvorug skýrslan hefur enn þá birst á borðum þingmanna þó að ráðuneytin hafi haft mjög langan tíma til þess að svara skýrslunum og gera grein fyrir málunum hér og jafnvel að taka þau til umræðu fyrir löngu.
    Nú er hins vegar beðið um skýrslu um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum með hliðsjón af þeim alvarlega vanda sem þar er við að stríða. Við töldum að það væri óhjákvæmilegt að óska eftir því að skýrslan bærist hið allra fyrsta. Þess vegna er talað um að við óskum eftir því að hún verði gefin innan tveggja vikna. Við höfum reynslu af því á undanförnum þingum að ef einungis er beðið um skriflega skýrslu, þá dregst það oft óhóflega lengi. Við viljum leggja það í vald ráðherra hvernig hann kemur með málið hingað inn. Ef hann kemur með munnlega skýrslu innan hálfs mánaðar, þá er það hans ákvörðun að gera það og þá verður málið rætt á þeim grundvelli. Ástæða þess að við orðum þetta með þessum hætti er með öðrum orðum sú að við viljum flýta og greiða fyrir meðferð málsins þannig að örugglega verði unnt fyrir páskahlé að taka til umræðu á hv. Alþingi þær brýnu ráðstafanir sem óhjákvæmilegt er að gera vegna hallarekstrar og yfirvofandi atvinnuleysis á mörgum svæðum í sjávarútveginum.