Seðlabanki Íslands

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 13:46:00 (4588)

     Halldór Ásgrímsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 567 er flutt brtt. frá minni hluta efh.- og viðskn. en skilað hafði verið sameiginlegu nál. í máli þessu þar sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar rituðu undir með fyrirvara. Sá fyrirvari sneri fyrst og fremst að hugmyndum viðskrh. um tengingu gengis íslensku krónunnar við ECU en hæstv. viðskrh. sagði m.a. í umræðum hér á Alþingi þann 16. mars: ,,Þetta er eingöngu hugsað til þess að þingið sé að gefa alveg skýrt umboð til þess að ákveða slíkar breytingar þótt þingið sé ekki þar með að ákveða þær.``
    Það er ljóst að við í stjórnarandstöðunni viljum ekki gefa hæstv. viðskrh. nokkurt slíkt umboð og viljum að það sé alveg skýrt að hann hefur það a.m.k. ekki af okkar hálfu, sérstaklega í ljósi þess hvernig hann hefur fjallað um þetta mál og í ljósi þess tímaramma sem hann hefur gefið í skyn í umræðum og á fréttamannafundum. Við teljum því nauðsynlegt, virðulegur forseti, að þetta mál gangi á ný til nefndar milli 2. og 3. umr. þannig að okkur gefist tækifæri til að skila frhnál. og gera þar skilmerkilega grein fyrir afstöðu okkar. Ef við hefðum mátt vita að hæstv. viðskrh. mundi túlka málið með þeim hætti sem hann hefur gert hefðum við að sjálfsögðu aldrei skilað nál. með meiri hlutanum. Við erum hins vegar sammála meginefni þessa frv. en teljum mjög mikilvægt að geta gert skilmerkilega grein fyrir okkar skoðunum í frhnál. Við munum, til þess að greiða fyrir því að málið geti nú náð fram að ganga, draga brtt. á þskj. 567 til baka til 3. umr. svo að málið geti fengið eðlilega þinglega meðferð og gengið áfram til 3. umr. Við gerum það í þeirri vissu að við fáum tækifæri til þess í efh.- og viðskn. að skila frhnál. Vil ég þar með draga þessa brtt. til baka til 3. umr., virðulegi forseti.