Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 14:06:00 (4589)


     Frsm. sjútvn. (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. til laga er um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands. Frv. um líkt efni eða um breytingu á þessum lögum hefur verið flutt á fjórum þingum. Þá náði heimildin ekki nema til fiskiskipa frá Færeyjum og Grænlandi, að þau væru undanþegin ákvæðum síðari liðar 1. mgr. og ákvæðum 2. mgr. þessarar greinar. Fyrst var frv. hreyft á 110. löggjafarþingi og var því vísað til nefndar í neðri deild og fékk það hægt andlát á því þingi. Árið eftir fluttu sömu menn frv. og fór það í gegnum þrjár umræður í neðri deild og komst til nefndar í efri deild. Og í þriðja sinn var reynt á 112. löggjafarþingi og þá fór frv. í gegnum þrjár umræður í neðri deild og var síðan vísað til ríkisstjórnarinnar á þskj. 1308 í efri deild. Þaðan kom ekkert. Það var aftur flutt á 113. löggjafarþingi og þá fór það í gegnum þrjár umræður í neðri deild og komst til sjútvn. í efri deild. Lengri varð saga þess ekki.
    Í fyrstu tvö skiptin var frv. flutt af einum þingmanni Framsfl. og einum þingmanni Alþfl. en á seinni tveimur þingunum voru fulltrúar frá öllum flokkum. Þeir voru sjö í þriðja sinn sem frv. var flutt og aftur sjö þegar það var flutt á síðasta þingi. Síðan gerist það að sjútvrh. í núv. ríkisstjórn tekur málið upp. Þetta frv. sem hér er til afgreiðslu er mun víðtækara en hin frumvörpin voru sem ég er búinn að lýsa hér stuttlega.
    Sjútvn. hefur fjallað um þetta mál og hún hefur fengið á fund til sín ráðuneytisstjóra í sjútvrn. og forstjóra Landhelgisgæslunnar, framkvæmdastjóra Landssambands ísl. útvegsmanna, framkvæmdastjóra Landssambands iðnaðarmanna og fulltrúa frá Hafrannsóknastofnun. Umsagnir bárust frá fjölmörgum aðilum sem til var leitað og meira að segja fleirum en til var leitað. Umsagnir þær sem bárust eru frá Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi ísl. fiskmjölsframleiðenda, Landhelgisgæslunni, Landssambandi iðnaðarmanna, Landssambandi smábátaeigenda, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Sambandi ísl. kaupskipaútgerðar, Sambandi málm- og skipasmiðja, Samtökum fiskvinnslustöðva, sjútvrn., Sjómannasambandi Íslands, Verkamannasambandi Íslands, Verslunarráði Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og Vinnuveitendasambandi Íslands. Enn fremur barst nefndinni umsögn utanrmn. en fram kom ósk um það frá formanni utanrmn., þegar málið var til 1. umr., að nefndin fengi frv. til umsagnar. Í umsögn um frv. frá utanrmn. er lögð á það áhersla að 2. mgr. 3. gr. frv. verði breytt í þá átt að erlendum veiðiskipum verði bannað að veiða úr sameiginlegum nytjastofnum sem ekki hefur verið samið um nýtingu á og að sjútvrh. verði heimilt að víkja frá banninu þegar sérstaklega stendur á.
    Í öðru lagi er lagt til að 4. gr. frv. kveði á um að erlend fiskiskip sem koma til íslenskrar hafnar tilkynni Landhelgisgæslu Íslands komu sína í stað hafnaryfirvalda eins og mælt var fyrir í ákvæðinu þegar frv. var lagt fram upphaflega. Það er nauðsynlegt vegna löggæsluþáttar skipakomunnar, bæði innlend og erlend skip þurfa eðli málsins samkvæmt ávallt að tilkynna viðkomandi hafnaryfirvöldum um komu til hafnar vegna bryggjupláss. Þetta var ábending frá landhelgisnefndinni, frá fulltrúum sem mættu á fund utanrmn. og síðar sjútvn. Að öðru leyti mælir utanrmn. með samþykki þessa frv. með þeim breytingum sem hún lagði til.
    Sjútvn. hefur farið mjög ítarlega yfir frv., rætt efni þess og gamla frv. eins og það lá fyrir. Á fundinum, þegar tekin var ákvörðun um að afgreiða þetta frv., kom fram ósk um að þess yrði getið í framsöguræðu varðandi 2. mgr. 3. gr. frv. að fram hefði komið að nefndinni hafi ekki þótt ástæða til að setja inn í 3. gr. frv. ákvæði þess efnis að leita skyldi álits utanrmn. Alþingis þegar ríkisstjórnin heimilaði löndunarrétt erlendra skipa úr sameiginlegum stofni. Ástæðan er sú að ríkisstjórnin skal bera meiri háttar utanríkismál undir utanrmn. skv. 24. gr. þingskapa og sjútvn. lítur svo á að samkvæmt venju og eðli málsins verði þessi mál borin undir utanrmn. án þess að sett verði um það sérstakt ákvæði í þetta lagafrv.
    Lagt er til að í 3. mgr. 3. gr. komi fram að erlendum veiðiskipum sé ávallt heimilt að koma til hafnar þurfi þau á neyðarþjónustu að halda. Erlendum veiðiskipum er þetta heimilt samkvæmt öðrum heimildum þótt þetta ákvæði komi ekki til en nefndin taldi rétt að það kæmi fram í frv. til áréttingar.
    Nefndin flytur á þskj. 556 brtt. við 3. gr. frv. Greinin orðist svo:
    ,,Erlendum veiðiskipum er heimilt að landa eigin afla og selja í íslenskum höfnum og sækja þangað alla þá þjónustu er varðar útgerð skipsins.
    Þetta er þó ekki heimilt þegar um er að ræða veiðar úr sameiginlegum nytjastofnum, sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar efnahagslögsögu, hafi íslensk stjórnvöld ekki gert samning um nýtingu viðkomandi stofns við stjórnvöld hlutaðeigandi ríkis. Sjútvrh. er þó heimilt að víkja frá ákvæði þessarar málsgreinar þegar sérstaklega stendur á.
    Erlendum veiðiskipum er ávallt heimilt að koma til hafnar þurfi þau á neyðarþjónustu að halda.``
    Eins og menn vita þá eru ekki samningar um veiðar úr fiskstofnum utan íslenskrar fiskveiðilögsögu nema að litlu leyti. Samningaumleitanir hafa ýmist staðið yfir að einhverju leyti og í einstaka tilfellum hafa verið gerðir samningar. Rétt þykir að hafa þetta ákvæði inni til að aðrar þjóðir líti ekki svo á að þær hafi fullan rétt að koma hingað og landa afla hvað sem líður samningum sem Íslendingar hafa vissulega áhuga á að gera. Það varð að samkomulagi í nefndinni að við hefðum þetta ákvæði inni til að sýna þeim þjóðum það að við lítum ekki svo á að það sé greiður aðgangur til löndunar ef þær sporna við eða sýna ekki nægilegan áhuga á að gera samninga um veiði á sameiginlegum nytjastofnum utan fiskveiðilögsögu okkar.
    Hin brtt. sem nefndin flytur er við 4. gr. og er svohljóðandi: ,,Erlent veiðiskip sem leitar hafnar á Íslandi skal tilkynna Landhelgisgæslu Íslands fyrirætlan sína við komu inn í íslenska efnahagslögsögu. Jafnframt skal tilkynna Landhelgisgæslunni hvaða veiðar skipið hefur stundað og á hvaða svæði og hvaða þjónustu skipið sækir til hafnar.
    Landhelgisgæslan skal tilkynna sjútvrn. um komu erlends fiskiskips sem ætla á að falli undir ákvæði 2. mgr. 3. gr.``
    Þetta mál er mjög viðkvæmt og um það hafa staðið töluverðar deilur. Flestar umsagnir sem bárust um frv. voru þess hvetjandi að það yrði samþykkt. Ég tel ekki ástæðu til að fara í þær umsagnir en ég vil leyfa mér að þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir að það var reynt að leita sátta í þessu máli og samræma sjónarmiðin og það tókst með þeim ágæta árangri að allir nefndarmenn í sjútvn. eru sammála um að mæla með samþykkt þessa frv. með þeim breytingum sem ég hef þegar lýst og jafnframt þeim skýringum sem fram komu hjá einstökum nefndarmönnum og nefndarmenn gerðu að sínum skýringum.
    Undir nefndarálitið rita Matthías Bjarnason, Árni R. Árnason, Guðmundur Hallvarðsson, Halldór Ásgrímsson, Hjálmar Jónsson, Jóhann Ársælsson, Stefán Guðmundsson, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson. Anna Ólafsdóttir Björnsson, fulltrúi Samtaka um kvennalista, sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti nefndarinnar.