Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 14:35:00 (4592)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim tveimur hv. þm. sem hér hafa talað, frummælanda og síðasta ræðumanni að sú samstaða er ánægjuleg sem tekist hefur um breytingar á frv. og vonandi horfir það til þess að þetta mál sem verið hefur deiluefni á undanförnum þingum verði nú farsællega til lykta leitt með samkomulagi. Enginn vafi er á því í mínum huga að þær breytingar sem hv. sjútvn. leggur til á frv. eru til bóta. Ég held að þar sé á ferðinni mjög farsæl lending í þessu sambandi, þ.e. annars vegar að breyta hinum löngu úreltu ákvæðum áratuga gamalla laga sem sett voru á sínum tíma við allt aðra réttarstöðu okkar Íslendinga gagnvart auðlindunum umhverfis landið. Það lafði í því að við hefðum þá þriggja mílna lögsögu þótt við værum illa fær til að gæta hennar á þeim tíma. En nú er sem betur fer öldin önnur og því er ekki sama ástæða fyrir Íslendinga til að óttast að erlendir flotar stundi hér miskunnarlausa rányrkju á miðunum nær landinu. Við þær aðstæður að 200 mílna landhelgi og auðlindalögsaga samkvæmt alþjóðarétti er í höfn og viðurkennd af öllum þá eru að sjálfsögðu ekki sömu ástæður til að verja íslenskar auðlindir og íslenska fiskstofna með þeirri fjarlægðarvörn sem á Íslandsmiðum var fólgin í því að heimila erlendum skipum ekki að landa hér eða sækja sér þjónustu.
    Engu að síður er það þó svo að eftir stendur nauðsyn þess að ná samningum við okkar næstu nágranna, jafnvel á alþjóðlegum grundvelli, um stofna sem eru að einhverju leyti sameiginlegir íslensku auðlindalögsögunni og lögsögu nágrannaríkja. Og það er einmitt í því skyni sem sjútvn. varð sammála um eftir nokkra umfjöllun að leggja til þær breytingar sem hér eru fluttar á þskj. 556. Eins og fram kom í máli frsm. er það í samræmi við afstöðu hæstv. utanrmn.
    Ég vil nota tækifærið til að leggja á það áherslu nú að í framhaldi af þessari lagasetningu verði af hálfu íslenskra stjórnvalda stóraukin áhersla lögð á það að ná samningum við okkar næstu nágranna og jafnframt á alþjóðlegum vettvangi eftir því sem samstarf um stofna sem eru veiðanlegir utan lögsögu einstakra ríkja gefur frekast möguleika til. --- Það er auðvitað, herra forseti, afar bagalegt að hæstv. sjútvrh. skuli ekki geta verið viðstaddur umræðuna en ég vona að þau skilaboð komist til hans sem hér eru flutt.
    Ég held að það sé mjög brýnt að láta ekki staðar numið við það eitt sem náðst hefur fram í þessum efnum og er því miður næsta fátæklegt. Má heita að samningar okkar við Norðmenn og Færeyinga um loðnu séu í raun einu umtalsverðu samningarnir af þessu tagi varðandi stofna sem eru sameiginlegir á okkar hafsvæðum og næstu nágranna. Eftir stendur að ná samningum, t.d. við Grænlendinga, um sameiginlega karfastofna og rækjustofn og um að framlengja samninga um nýtinu loðnustofnsins, ná samningum við Færeyinga auk Grænlendinga um þann hluta karfastofnsins sem talinn er sameiginlegur með þeim. Til þess getur komið að samningar Íslendinga og Norðmanna verði nauðsynlegir til að tryggja nýtingu á norsk-íslenska síldarstofninum sem við Íslendingar þurfum í öllum bænum að halda áfram að kalla því nafni. Fleiri stofnar geta þarna komið til sögunnar svo sem lítt rannsakaðar tegundir eins og hinn frægi langhali. Líklegt er að langhalastofninn við Ísland, sem vonandi fyrirfinnst, sé sameiginlegur með þeim stofni sem talinn er finnast á hafsvæðunum við Færeyjar og Bretlandseyjar. Fjölmargt fleira mætti þarna nefna, t.d. samskipti Íslendinga og Grænlendinga varðandi rækjuveiðar. En ég hygg að þessi upptalning dugi til að sýna mönnum og sanna að það verður að ganga í verkin og þrýsta á að samningar verði gerðir um alla helstu nytjastofnana sem eru sameiginlegir okkar miðum og næstu nágranna okkar. Ég vil jafnframt nefna að samningar þurfa, ef vel á að vera, einnig að takast varðandi veiðar á stofnum sem að einhverju leyti eru innan íslensku landhelginnar og að öðru leyti veiðanlegir utan landhelgi eða lögsögu einstakra ríkja.
    Nýleg dæmi frá Kanada færa okkur heim sanninn um það að oft á tíðum er því miður ekki nóg að einstakar þjóðir sýni ráðdeild og sæki hóflega í stofna innan sinnar lögsögu ef þannig háttar til að stofnarnir ganga út fyrir viðkomandi lögsögu og eru þar veiðanlegir. Reiði kanadískra sjómanna og kanadískra yfirvalda er skiljanleg en þeir hafa beitt ströngum aflatakmörkunum á ákveðnum stofnum á sínum miðum á undanförnum árum en standa nú frammi fyrir því að verksmiðjuflotar erlendra þjóða sækja upp að lögsögu Kanada og stunda þar jafnvel grimma rányrkju á tegundum sem ganga út fyrir mörkin. Sú hætta er því miður örugglega fyrir hendi varðandi ákveðna íslenska stofna. Nægir þar að nefna karfann og grálúðuna sem alls ekki er ólíklegt að gætu veiðst sunnan eða vestan við íslensku lögsöguna. Séu ekki fyrir hendi neinir samningar eða alþjóðlega viðurkenndir kvótar varðandi þessa stofna þá getur illa farið.
    Ég vil leggja sérstaka áherslu á þetta, herra forseti. Ég held að fá verkefni sem lúta að samskiptum okkar við önnur ríki og alþjóðlegri samvinnu séu mikilvægari en einmitt þessi. Að sjálfsögðu ber að taka fram til að öllu sé til haga haldið að að þessu hefur verið unnið á undanförnum árum. Mér er vel kunnugt um það. Íslendingar hafa ítrekað reynt að fá nágranna sína til samninga um þessi efni, ekki síst Grænlendinga en eftirtekjan af því hefur enn sem komið er því miður verið rýr. Með tilliti til þess held ég að hér hafi skynsamlega til tekist varðandi breytingar á 3. gr. frv. Það er í mínum huga lítill vafi á því að hér er í öllu falli varfærnari leið valin með hliðsjón af þeim rökum sem ég hef hér flutt en sú að samþykkja frv. óbreytt. Það er mín skoðun a.m.k. að réttarstaða og samningsstaða íslenskra stjórnvalda sé sterkari og einbeittari með því að snúa hlutunum á þann veg sem brtt. sjútvn. gerir ráð fyrir. Almenna reglan sé sú að löndun sé heimil en hins vegar sé löndun ekki heimil ef í hlut eiga stofnar, sameiginlegir stofnar, um hverja samningar hafa ekki náðst. Þá á að þrýsta á að slíkir samningar náist. Sú staðreynd að samningur jafngildir frjálsri löndun --- ég leyfi mér að leggja þá merkingu í þennan texta, öðruvísi held ég að hann verði ekki skilinn --- hlýtur auðvitað að vera einhver róttækasta aðgerðin til þess að þrýsta á stjórnvöld nágrannaríkjanna að gera við okkur slíka samninga, eigi þeir á annað borð einhverra hagsmuna að gæta í því að þessi þjónusta sé í boði hér á Íslandi.
    Reynslan hefur löngum fært okkur heim sanninn um það, jafnt nú á togara- og stórskipaöld sem fyrr, að miðin umhverfis Ísland og vestan við landið njóta mikillar fjarlægðarverndar ef skip sem þangað sækja hafa enga aðstöðu á Íslandi. Lítill vafi er á að skýringin á því hversu lítill hluti þess veiðikvóta sem ýmsir hafa keypt af Grænlendingum á undanförnum árum hefur náðst, t.d. þegar Þjóðverjar hafa keypt karfakvóta við Grænland, liggur í því hversu langt og erfitt er að sækja á þessi mið ef engin aðstaða eða fyrirgreiðsla er fyrir hendi á Íslandi.
    Herra forseti. Þegar þetta mál var til 1. umr. urðu hér allumfangsmiklar umræður, svo ekki sé nú fastara að orði kveðið, um stöðu íslenska skipasmíðaiðnaðarins. Ég held satt að segja að miklu meiri tími hafi farið í að ræða þá hlið mála en formlega séð efni frv. sjálfs sem lýtur að réttindum útlendinga til landanna hér og þjónustukaupa. Það var sum

sé spurningin um það hversu mikil viðskipti breytingar á þessum lögum mundu færa inn í íslenskan iðnað, til innlendrar skipasmíði og þjónustu við skip. Það hefði þess vegna verið ánægjulegt ef hæstv. iðnrh. hefði heiðrað okkur með nærveru sinni aftur við 2. umr. málsins. Oft kemur góður þá getið er. ( Gripið fram í: Hann hefur heyrt ræðu þingmannsins.) Það gleður þingmanninn sérlega, svo hæstv. iðnrh. sé svarað með sama hætti. Hefði þá verið við hæfi að hæstv. iðnrh. hefði upplýst okkur um hvað miðað hefur í málefnum íslenska skipasmíðaiðnaðarins frá því að þetta mál var hér til 1. umr. Mér eru ofarlega í huga þeir erfiðleikar sem Slippstöðin hf. á Akureyri á við að glíma þessa dagana. Ég veit að það stendur nákvæmlega þannig á að beðið er eftir svari frá hæstv. ríkisstjórn um þátttöku hæstv. ríkisstjórnar í lausn á vanda Slippstöðvarinnar hf. á Akureyri. Ég leyfi mér því að nota tækifærið, að gefnu tilefni vegna þeirrar miklu umræðu sem varð um málefni skipasmíða hér í tengslum við þetta frv. við 1. umr., og inna hæstv. iðnrh. eftir því hvað líði svörum til þeirra manna sem bíða átekta með málefni Slippstöðvarinnar hf. á Akureyri í höndunum, fyrst og fremst svörum hæstv. ríkisstjórnar. Megum við ekki treysta því í ljósi þess mikla áhuga sem sýndur var á málefnum skipasmíðaiðnaðarins, þeirrar dökku myndar sem dregin hefur verið upp af þróuninni á því sviði á undanförnum missirum og fagurra orða sem ýmsir, þar á meðal hæstv. ráðherra, létu falla um áhuga sinn á innlendri skipasmíði, að áhugi sé á að leggja nú skipasmíðaiðnaðinum lið? Þetta flaggskip íslenskra skipasmíða þarf að fá myndarlega úrlausn sinna mála hjá hæstv. ríkisstjórn sem er stærsti eigandi fyrirtækisins eða ríkið fyrir hönd umbjóðenda landsmanna í gegnum framkvæmdarvaldið. Það megi þá verða mönnum til hressingar samfara því að möguleikar opnast, sem vonandi verða einhverjir, og nýtast mönnum á grundvelli frv. þegar að lögum verður.
    Herra forseti. Ég fagna því sem sagt að þau sjónarmið urðu ofan á sem liggja til grundvallar nál. og brtt. hv. sjútvn. og sérstaklega fagna ég þeirri samstöðu sem um málið varð.
    Varðandi það sem hv. 4. þm. Austurl. nefndi áðan og er ekki að ófyrirsynju að bent sé á vegna þess að ákvæði 1. og 2. gr. frv. eru náttúrlega mjög ótvíræð og sláandi í samhengi við þá umræðu sem nú er upp hafin um eign útlendinga í innlendum sjávarútvegsfyrirtækjum, þá þarf ekki frekari orða við af minni hálfu en þeirra að vísa til ótvíræðra ákvæða 1. og 2. gr. frv. og lýsa yfir hjartanlegum stuðningi mínum við þau ákvæði. Ég er ákaflega ánægður með og sáttur við að einmitt í þessum lögum sem varða rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands komi inn svo afdráttarlaus ákvæði sem raun ber vitni. Þau bætast við þau ákvæði sem er að finna í lögum um fjárfestingar erlendra aðila. Þar er alveg skýrt að útlendingum er óheimilt að eiga í skipum sem stunda fiskveiðar og frumvinnslu sjávarafurða í landinu. Þessi glænýju lög, nr. 23/1991, ef ég man rétt, eru búin að vera í gildi í um ár og festast náttúrlega í sessi með vissum hætti þegar nýtt Alþingi samþykkir þau efnislega eða ítrekar með ákvæðum þessara tveggja greina frv. til laga um veiðar í efnahagslögsögu Íslands.
    Ég vona svo sannarlega að enginn brestur eða bilun sé í pólitískri samstöðu um þetta efni. Það væru stórtíðindi og váleg tíðindi og ekki nokkur ástæða til að láta það vefjast fyrir sér ef það hefur gerst gegnum eign erlendra félaga í hlutafélögum eða sjóðum sem síðan eiga aftur einhverja smávægilega hlutafjáreign í innlendum sjávarútvegsfyrirtækjum, að menn noti það sem tylliástæðu til að brjóta niður þessa vörn, þessa skjaldborg, utan um réttindi landsmanna til fiskveiða og fiskvinnslu. Það er með öllu ástæðulaust og óþarft vegna þess að færar eru fjölmargar leiðir til þess að setja reglur um og fara þannig með slík tilvik að það valdi engum vandkvæðum. Það er alsiða í viðskiptum af ýmsu tagi þar sem svipaðar takmarkandi reglur eru fyrir hendi. Þá eru ósköp einfaldlega mótaðar um það reglur hvernig farið er með aðstæður sem tímabundið geta komið upp af þessu tagi. Tímabundið getur skapast sú aðstaða að erlendur aðili eigi eignarhlut gegnum eignarhald á fyrirtækjum sem aftur eiga í fyrirtækjum eða dótturfyrirtækjum sem eiga í fyrirtækjum o.s.frv. Um það gilda þá ósköp einfaldar reglur, tiltekin tímamörk eða ákveðið hámark, sem lúta að því hvenær sá eignarhlutur annaðhvort stærðar vegna eða hefur staðið það lengi að hann telst falla undir ákvæði þeirra laga sem þarna eru takmarkandi í slíku tilviki. Þá eru jafnframt gjarnan sett um það ákvæði hvernig úr því er leyst, t.d. með því að gera þeim aðila á tilteknum tíma skylt að afsetja eða minnka hlut sinn eða ganga þannig frá honum að hann teljist ekki brjóta í bága við umrædd ákvæði. Þetta held ég að menn hljóti að þekkja, slík tilvik eru þekkt, t.d. þegar menn þurfa vegna uppstokkunar eða yfirtöku á fyrirtækjum að verja hagsmuni sína í gjaldþrotamálum eða öðru slíku og lenda kannski í því tímabundið að leysa til sín fyrirtæki eða yfirtaka eignarhlut. Auðvitað eru vel þekktar ýmsar leikreglur sem settar eru í slíkum tilvikum.
    Ég held þess vegna að svarið við þessari umræðu, sem upp hefur hafist og var til umfjöllunar skilst mér á einhverri ráðstefnu úti í bæ í morgun, sé að sjálfsögðu ekki að brjóta niður skjaldborgina utan um sjávarútveginn, veiðarnar og vinnsluna og einkarétt Íslendinga, íslenskra fyrirtækja, einstaklinga og lögaðila á því sviði heldur hitt að snúa sér að því að móta reglur um það hvernig farið skuli með þær aðstæður sem geta tímabundið komið upp eins og raun ber vitni. Það er ekki flókið mál að mínu viti og ekki stórkostlegt vandamál sem ekki er leysanlegt.
    Herra forseti. Ég ítreka það svo að það má náttúrlega ekki misskilja neitt hvaða afstöðu Alþingi Íslendinga hefur í þessum efnum þegar það afgreiðir frv. sem hér er til umfjöllunar. Í því felst mjög skýr ítrekun og samþykkt á þeirri stefnu sem mörkuð var og fest í sessi með miklu afdráttarlausari hætti en áður hafði viðgengist í lögunum um fjárfestingu erlendra aðila í íslensku atvinnulífi, lögum nr. 23/1991. Það get ég látið vera mín síðustu orð að það er mér sömuleiðis fagnaðarefni að þau ákvæði í frv., sem hér er til umræðu, eru alveg afdráttarlaus og eru ítrekun á því sem áður var fram komið.
    Herra forseti. Ég hef þessi orð mín ekki fleiri. Það væri fróðlegt, eins og ég lýsti hér áðan, ef hæstv. iðnrh. léti aftur til sín heyra um málefni skipasmíðaiðnaðarins þótt ég ætlist ekki til þess að jafnlangur tími fari í umræður um þau mál nú og við 1. umr. Það væri engu að síður fróðlegt og e.t.v. hafa menn unnið eitthvað úr hugsunum sínum í sambandi við það hversu mikil lyftistöng þær breytingar sem felast í frv. geta reynst íslenskum skipasmíðaiðnaði. Mér er kunnugt um að sums staðar er komin hreyfing á þá hluti og menn eru jafnvel í startholunum eða að undirbúa sig til þess að bjóða upp á þjónustu á þessu sviði. Gott ef menn hafa ekki slæðst til útlanda til að reyna að krækja sér í einhver viðskipti á grundvelli þeirra möguleika sem opnast með afgreiðslu frv.