Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 15:14:00 (4595)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Ekki er ætlun mín að skemma þessa helgistund með því að upphefja einhvern ágreining í málinu en því miður verð ég að segja við hv. þm. Össur Skarphéðinsson að hann hefur ekki alveg skilið viðhorf mín hárrétt í þessum efnum, þ.e. hann virðist ætla mér að vera bjartsýnni á það að mikil viðskipti fylgi nokkurn veginn sjálfkrafa og fyrirhafnarlaust í kjölfar þessara lagabreytinga til handa íslenskum skipasmíðaiðnaði. Ég er í hópi vissra efasemdarmanna í þeim efnum, þ.e. ég er ekki þeirrar skoðunar að flotar komi fyrirvaralaust og fyrirhafnarlaust siglandi til þess að kaupa hér þjónustu eða fara í viðgerðir í íslenskum skipasmíðastöðvum þó svo að við breytum lögunum. Ég held að því miður mundi sáralítið gerast af sjálfu sér í þessum efnum og menn þurfa að hafa fyrir því að nýta þá möguleika sem hins vegar opnast vonandi með þessum breytingum og ég er

reyndar í litlum vafa um að einhver þjónustuviðskipti munu fylgja í kjölfarið. Hins vegar er ég ekki bjartsýnn á það í fljótu bragði að við óbreytt starfsskilyrði íslensks skipasmíðaiðnaðar muni umfangsmikil viðgerðar- eða smíðaverkefni færast inn í landið þrátt fyrir þessa breytingu. Væntanlega verður talsvert um minni háttar viðgerðir sem borgar sig að ráðast í hér vegna þess að skipin eru stödd á miðum í nágrenni við landið. Greiðir það þar með götu slíks að þau geti landað. Ég óttast því miður að einhver umtalsverð og meiri háttar smíðaverkefni eða viðgerðir muni ekki koma sjálfkrafa hingað og allra síst að óbreyttum starfsskilyrðum í íslenskum skipasmíðaiðnaði. Fyrir því mun þurfa að hafa hér eftir sem hingað til og ég bendi á að tæplega er kunnugt um nein tilvik þar sem meiri háttar smíðaverkefni eða viðgerðarverkefni hafi tapast úr landi vegna gildandi laga því að fyrir slíku hafa jafnan verið veittar undanþágur.