Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 15:18:00 (4597)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Mikið er nú dásamlegt þegar menn ræða málin, þá eyðist jafnan allur óþarfur misskilningur. Svo er í þessu tilviki. Mér heyrist við vera bærilega sammála, ég og hv. 17. þm. Reykv. um almenn áhrif af þessum breytingum og þá stendur aðeins eftir eitt og það er þetta: Er íslenskum stjórnvöldum, og ég tala ekki um núverandi framkvæmdarvaldi, treystandi til þess að styðja þannig við bakið á íslenskum skipasmíðaiðnaði að honum nýtast þessir möguleikar? Einmitt á því sviði liggja aðaláhyggjur mínar með hliðsjón af þeim endemis aumingjaskap sem auðvitað hefur ríkt hjá íslenskum stjórnvöldum um árabil í þessum efnum, að horfa á íslenska skipasmíðaiðnaðinn koðna niður og verða að engu í höndunum á okkur þar sem áður var myndarleg þúsund manna atvinnugrein. Það vekur manni ekki miklar vonir um að menn hristi einmitt núna af sér slyðruorðið og styðji þá við bakið á íslenska skipasmíðaiðnaðinum eins og gert var á Írlandi og í Færeyjum og víðar þar sem menn hafa tekið á starfskjörum þessarar greinar af allt öðrum skilningi. Við gætum lært af t.d. Írum í fleiri efnum. Ég bendi á hvernig þeir hafa byggt upp heilmikinn iðnað í landi sínu í sambandi við þjónustu við millilendingu flugvéla einmitt með því að styðja við bakið á þeirri grein og skapa henni hagstæð samkeppnisskilyrði þannig að hún geti dregið til sín viðskipti á þessum sviðum.
    Þarna eru við kannski ósammála, ég og hv. þm., því hann glaptist til að styðja þessa ríkisstjórn enn sem komið er og ég hef því miður ekki mikla trú á að hún muni gera stórafrek í þessum efnum. Hæstv. núv. iðnrh. verður að horfast í augu við það að sennilega hefur enginn einn íslenskur iðnrh. mátt horfa upp á aðra eins afturför og niðurlægingu í íslenskum skipasmíðaiðnaði og einmitt hann.