Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 15:38:00 (4601)

     Guðmundur Hallvarðsson :
    Frú forseti. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við það frv. sem hér liggur fyrir og tek undir orð síðasta ræðumanns að fortakslaust sé tekið á um hvernig fara skuli með þannig að menn þurfi ekki að óttast að erlendir aðilar komi inn með þeim hætti sem ýmsir hafa rætt hér um. Hins vegar eru nokkur atriði, sem ég vildi koma inn á, og sem hv. þm., sem hafa talað á undan mér, hafa minnst á.
    En fyrst það sem ekki hefur verið rætt. Það er mál sem snýr að Landhelgisgæslunni eða þess 740.000 km 2 svæðis, sem Landhelgisgæslunni er ætlað að gæta, og ekki minnkar verksvið hennar þegar það mál, sem við ræðum nú, verður að lögum. Sú spurning hlýtur að vakna hvort Landhelgisgæslan sé í stakk búin til þess að hafa það eftirlit sem nauðsynlegt er. Í brtt. við 4. gr. segir: ,,Erlent veiðiskip sem leitar hafnar á Íslandi skal tilkynna Landhelgisgæslu Íslands fyrirætlan sína við komu inn í íslenska efnahagslögsögu. Jafnframt skal tilkynna Landhelgisgæslunni hvaða veiðar skipið hefur stundað og á hvaða svæði og hvaða þjónustu skipið sækir til hafnar.``
    Ég tel að til þess að okkur auðnist að gæta landhelginnar með þeim hætti sem við viljum og hafandi gert þá breytingu sem hér um ræðir þá krefst það meira starfs af Landhelgisgæslunni og vissulega verðum við að vera tilbúin til að mæta því.
    Það var athyglisvert að hlusta á 17. þm. Reykv. ræða um að landanir erlendra skipa hefðu vaxandi áhrif á atvinnulíf á suðvesturhorninu. Í viðtali í því gagnmerka blaði, Alþýðublaðinu, telur hann að þetta muni stórauka viðskiptalíf Hafnarfjarðarhafnar. Þá má líka lesa um það í blöðum að fulltrúar ríkisstyrktrar Hafnarfjarðarhafnar hafa nú þegar stigið á erlenda grund, eða nánar tiltekið í Cuxhaven, til að ræða við þýska aðila um það að skip

þeirra komi til löndunar í Hafnarfjarðarhöfn. En um hvað er verið að semja þar? Getur verið að nú séu fulltrúar hinna ýmsu hafna komnir í þær stellingar að þeir séu tilbúnir að semja í samkeppni við aðrar hafnir landsins um lægri hafnargjöld, um lægri aflagjöld og lægri en íslensk fiskiskip þurfa að greiða í dag? Er verið að hleypa af stokkunum meiri vanda en leystur er hvað þessar brtt. áhrærir?
    En vegna þess að rætt hefur verið um suðvesturhornið er augljóst mál að fleiri hafnir bæði á Vestfjörðum og á Norðurlandi horfa vissulega til þessarar sömu áttar og fulltrúar Hafnarfjarðarhafnar hafa gert. Líka má hugleiða hvort þessi lög gætu orðið til þess að kvótasala Grænlendinga til erlendra veiðiskipa mundi stóraukast vegna löndunar þeirra í íslenskum höfnum. Getur það orðið til þess að það hafi áhrif á fiskgengd við Ísland vegna mikillar ásóknar erlendra ísfisks- og verksmiðjutogara? Það er líka spurning hvort yfir höfuð náist nokkrir samningar við Grænlendinga um sameiginlega nýtingu veiðistofna við Grænland og Ísland eins og hér hefur komið fram.
    Það er athyglisvert hvað menn hafa talað mikið um að þetta frv. muni veita miklum innblæstri í skipasmíðaiðnaðinn. Í máli manna hefur líka komið fram að þeir hafi verulegar áhyggjur af skipasmíðaiðnaðinum á Akureyri og að þetta frv. muni væntanlega verða til þess að leysa þann vanda. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat þess að aumingjaskapur fyrrv. stjórnvalda hvað áhrærði íslenska skipasmíðaiðnaðinn væri einsdæmi og hjó hann þá nærri sjálfum sér. Rétt er að benda á að Stálsmiðjan í Reykjavík, sem nú á hið gamla fyrirtæki sem áður hét Slippfélagið í Reykjavík og var stofnað 1902, hefur um 130 manns í vinnu og ætla má að um 1.000 manns hafi atvinnu á vegum þessa fyrirtækis, þ.e. þjónustu í einni eða annarri mynd við þau skip sem þjónustu leita til Stálsmiðjunnar. Hún á í erfiðleikum jafnt sem Slippstöðin á Akureyri. Eðlilega þarf að líta til fleirri átta, hæstv. iðnrh., en eingöngu til Slippstöðvarinnar á Akureyri. Það kemur mér á óvart hve mjög menn kætast yfir þeirri ásýnd og þeim innblæstri sem menn fá vegna skipaiðnaðarins er þetta frv. verður að lögum en benda má á að í dag eru um 1.500--2.000 ársverk unnin erlendis vegna íslenska fiskiskipaflotans. Maður spyr sjálfan sig að því hvort ekki væri eðlilegt að beina viðskiptum íslenska fiskiskipaflotans til þeirra fyrirtækja sem eru nú þegar í skipasmíðaiðnaði innan lands áður en menn fara að horfa svo mjög til þess að löndun erlendra veiðiskipa muni bjarga því sem bjarga þarf í íslenskum skipasmíðaiðnaði.
    Ég vil aðeins að lokum, frú forseti, endurtaka það sem ég sagði hér í upphafi. Þetta var mjög tímabært að þessum lögum yrði breytt og ég vona að það náist jafngóð samstaða um þetta mál í þinginu og gerðist í sjútvn.