Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 15:46:00 (4602)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki alveg nákvæmlega rétt með farið hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að ég hafi tekið suðvesturhornið út úr vegna þess að ég sagði: ,,suðvesturhornið og öðrum stöðum á landinu``. Ég er alveg sannfærður um að það eru ekki bara staðir hér á suðvesturhorninu sem munu hljóta nokkurn ábata af löndunum erlendra skipa hér, það verða fleiri staðir þegar fram í sækir. En af því að þingmaðurinn nefndi sérstaklega Hafnarfjörð, þá er það svo að Hafnarfjörður virðist hafa haft mest frumkvæði ásamt öðrum stöðum á Suðurnesjum eins og Keflavík til að komast í viðskipti hjá togurum sem eru að veiða þorsk við Grænland. Til þessa hafa togararnir siglt fram hjá Íslandi til Færeyja og jafnvel til Bretlands. Það er skammt síðan að fregnir voru um það að gerður hefði verið samningur um sölu þorsks við fyrirtæki sem starfrækir átta togara og flesta þeirra við Grænland.
    Ég tók sérstaklega fram í máli mínu áðan að við þyrftum að gjalda varhug við að auðvelda Þjóðverjum að veiða karfa við Grænland vegna þess að það getur leitt til ofnýtingar á stofnum sem við erum sjálf að veiða úr. Það tók ég sérstaklega fram, virðulegur þingmaður. Ég tel þess vegna ekki að þetta löndunarleyfi sem væntanlega mun koma með frv., þegar það verður að lögum, auki ásókn í veiði við Grænland. Ég vil líka að fram komi að Þjóðverjar hafa um nokkurra ára bil keypt veiðiheimildir á karfa við Grænland, Evrópubandalagið hefur keypt og greitt það fyrir Þjóðverja. Þeir hafa hins vegar ekki notað veiðiheimildirnar. Getgátur eru uppi um það að þetta sé í rauninni ekkert annað en farvegur sem Evrópubandalagið hefur fundið til þess að koma svolitlum peningum til Grænlendinga. Þetta vildi ég að kæmi fram og ég ítreka að ég get ekki með nokkru móti séð að þetta frv., yrði það að lögum eins og allir hér virðast vona, mundi leiða til þess að meiri ásókn yrði á mið við Grænland sem gæti leitt til þess að fiskgengd mundi minnka hér við Ísland. Ég sé engin rök fyrir því.