Norður-Atlantshafsþingið 1991

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 16:04:00 (4606)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 6. þm. Reykn. fyrir ræðuna sem hann flutti þegar hann kynnti skýrslu Íslandsdeildar Norður-Atlantshafsþingsins fyrir árið 1991. Ég tel að hún hafi verið tímabær hér í sölum Alþingis þegar fjallað er um starfsemi Atlantshafsbandalagsins og afstöðu stjórnmálaflokka til þess. Ég tel að Íslandsdeild Norður-Atlantshafsþingsins fjalli um málefni sem nú eru mjög ofarlega á baugi og þróun Atlantshafsþingsins muni mótast af þeim breytingum sem eru að verða í Evrópu og verða á Atlantshafsbandalaginu sem sjást m.a. í því að þátttakendum í fundum á vegum Atlantshafsbandalagsins fjölgar má segja næstum því dag frá degi. Nú er efnt til funda í höfuðstöðvum bandalagsins, ekki aðeins með aðildarríkjunum 16 heldur einnig með ríkjum frá Mið- og Austur-Evrópu og frá Sovétríkjunum fyrrverandi. Ég held að þetta muni setja mjög svip sinn á Norður-Atlantshafsþingið þegar fram líða stundir og sú spurning vaknar í mínum huga hvort þessi samtök þingmanna muni ekki taka við af ýmsum öðrum samtökum þingmanna sem áður hafa starfað eða ætlunin er að koma á fót eins og t.d. svokölluðu RÖSE-þingi sem kemur fyrst saman til fundar nú í Búdapest í sumar. Ég held að það eigi að stefna að því að þessi þingmannasamkunda Norður-Atlantshafsþingið verði virkari samstarfsvettvangur Evrópuþjóða og ríkjanna í Norður-Ameríku og þar geti menn komið saman og rætt þau málefni sem þingið fjallar um en það eru m.a. varnar- og öryggismál, stjórnmál, efnahagsmál og félagsmál, vísinda- og tæknimál, eins og kemur fram í skýrslunni. Þetta þing ætti að starfa við hliðina á Evrópuráðsþinginu þar sem tekist er á við önnur málefni og þessi tvö þing ættu í raun og veru að geta starfað hlið við hlið og átt með sér náið samstarf.
    Hér vék hv. 5. þm. Vestf. að því sem hann kallaði kaldastríðshugsunarhátt og ásakaði hv. 6. þm. Reykn. um það að vera haldinn slíkum hugsunarhætti. Sjálfur hef ég sætt ákúrum frá þingmönnum Alþb. fyrir að láta stjórnast af slíkum hugmyndum, en ég verð að segja að ég kippi mér ekki upp við ásakanir af því tagi frá þingmönnum Alþb. Ég held að ef það er einhver flokkur og einhverjir þingmenn hér sem eru í fjötrum kalda stríðsins þá séu það hv. þm. Alþb. sem kemur m.a. fram í því að þeir treysta sér ekki til að taka þátt í Íslandsdeild Norður-Atlantshafsþingsins og hafa ekki treyst sér til að taka þátt í þessu samstarfi þingmanna og virðast ekki gera það enn og útmála þetta þingmannasamstarf sem samstarf um málefni sem þeir geta alls ekki lagt lið. Þar með eru þeir enn í viðjum kalda stríðsins og sýna það hér í verki að þeir treysta sér ekki til þess að laga sig að þeim breytingum sem orðið hafa í Evrópu og á alþjóðavettvangi eftir hrun Sovétríkjanna. Öll fyrrverandi þátttökuríki í Varsjárbandalaginu hafa viljað taka upp samstarf við Atlantshafsbandalagið og óskað eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu. Stofnað hefur verið til samstarfs við þessi ríki með margvíslegum hætti. Meira að segja Boris Jeltsín, forseti Rússlands, hefur lýst því yfir að það sé langtímamarkmið sitt og rússnesku ríkisstjórnarinnar að

Rússland verði aðili að Atlantshafsbandalaginu.
    Hér stöndum við enn í mars 1992 og hlýðum á fulltrúa Alþb. á Íslandi tala eins og engar breytingar hafi orðið í Evrópu og Atlantshafsbandalagið sé fulltrúi úreltra sjónarmiða. Enn hafna fulltrúar Alþb. þátttöku í þessum þingmannasamtökum þannig að ég held að ef einhver aðili hér á Alþingi sé haldinn vandræðum vegna kalda stríðsins eða þess ástands sem ríkti í heiminum áður en Sovétríkin hrundu og kommúnisminn leið undir lok þá sé það Alþb. Þingmönnum þess ferst síst af öllu að saka aðra þingmenn um að geta ekki lagað sig að breytingum þegar Alþb. og þingmenn þess eru ekki einu sinni reiðubúnir til að laga sig að þessum staðreyndum sem við stöndum öll frammi fyrir og tala enn eins og Atlantshafsbandalagið sé eitthvert ágreiningsefni í stjórnmálum í Evrópu. Þvert á móti er það að koma í ljós að Atlantshafsbandalagið er sá aðili í Evrópu sem flest hin nýfrjálsu ríki og ríkin, sem losnað af undan kommúnismanum, vilja taka upp samstarf við og Atlantshafsbandalagsþjóðirnar hafa frekar orðið að sporna við þátttökunni en að kalla á að þessi ríki gangi inn í bandalagið. Þetta tel ég nauðsynlegt að komi fram og sé aðeins staðfesting á því að Alþb. er fast í skoðun sinni og hefur ekki treyst sér til að gera upp við fortíðina eins og við öll vitum og réttilega kom fram í ágætri ræðu hv. 6. þm. Reykn. í upphafi þessarar umræðu að innan Alþb. treysta menn sér ekki til að gera upp við fortíð flokksins og út á við þá treystir Alþb. sér ekki til að breyta um stefnu þrátt fyrir að Sovétríkin hafi hrunið og öll ríki í Evrópu sækist eftir aðild. Þingmenn hvarvetna í Evrópu sækjast eftir þátttöku í Norður-Atlantshafsþinginu en við sitjum enn og hlustum á gömlu ræður alþýðubandalagsþingmannanna um það að ekki komi til álita að taka þátt í slíku samstarfi. Ef það eru einhverjir hv. þm. sem eru í gamla tímanum þá eru það þingmenn Alþb.