Norður-Atlantshafsþingið 1991

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 16:11:00 (4607)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég kann mikið vel við þessar ræður hv. 3. þm. Reykv. og þá framsöguræðu sem hv. 6. þm. Reykn. flutti fyrir nokkru síðan þegar hann mælti fyrir þessari skýrslu á þskj. 443. Mér finnst þetta heimilislegt og eins og maður sé kominn aðeins aftur og nær bernskuskeiði sínu þegar maður heyrir þessa hv. þm. tala með þessum hætti. Ég náði svona í vissan keim af alvöru kaldastríðsumræðu þegar ég kom inn á Alþingi fyrir allmörgum árum síðan, 1983. Þá voru til umræðu m.a. allmiklar sviptingar í vígbúnaðaruppbyggingu hér á Íslandi sem sú ríkisstjórn, sem sat að völdum á árunum 1983--1987, beitti sér fyrir. Það er örugglega ráðstöfun fjármuna sem þessir tveir nefndu ræðumenn eru hreyknir af og þeir telja betur komna í þeim vígtólum sem nú gapa upp í loftið en t.d. í einhverja friðsamlega uppbyggingu í þróunaraðstoð eða annað því um líkt sem hugsanlega hefði mátt finna stað fyrir viðlíka fjármuni og farið hefur í vígbúnaðarkapphlaupið á undanförnum áratugum.
    Ég talaði dálítið gegn þessum kaldastríðssjónarmiðum á þessum árum og fannst ekki endilega víst að takmörkuðum fjármunum og kröftum mannkyns væri best varið í vígbúnaðarkapphlaup. Þá voru einmitt fluttar yfir mér mjög svipaðar ræður eða í sama anda og við höfum fengið að heyra, eitt sýnishorn af í dag og annað gefur að líta í þingtíðindunum frá 27. febr. sl.
    Hv. 3. þm. Reykv. er hv. 6. þm. Reykn. ákaflega þakklátur fyrir ræðuna sem hann flutti og fór um hana fögrum orðum. Það verður auðvitað að vera smekkur hv. þm. og segir allt sem segja þarf fyrir mitt leyti um þann smekk. Sömuleiðis fór hv. 3. þm. Reykv. fögrum orðum um NATO og þetta viðhengi hernaðarbandalagsins NATO sem mun vera þingmannaklúbburinn sem --- fyrirgefðu, hæstv. forseti, þetta er víst óvirðulegt orð þó það hafi verið notað af ýmsum, þetta orð ,,klúbbur`` og ég ætla ekki að gera þau mistök að nota óviðurkvæmilegt orðbragð hér, en þingmannahópurinn sem sagt og þingmannasamstarfið er einhvers konar viðhengi ef ég man rétt við hernaðarbandalagið NATO.
    Það er sömuleiðis mál hv. 3. þm. Reykv. að líta á NATO sem nánast guðlega stofnun og guðlega samkundu sem sé svo fögur og dyggðum prýdd að þangað vilji allir og ég gat ekki betur skilið en hv. 3. þm. Reykv. ætti sér þá fögru framtíðarsýn að NATO og

þingmannaviðhengi þess gæti tekið við helst öllum verkum á alþjóðavettvangi og það væri eiginlega óþarfi að vera að setja upp stofnanir og samstarf eins og RÖSE því það væri mikið betra að NATO sæi um þetta. Auðvitað má þá velta því fyrir sér hvort ekki megi stíga skrefið til fulls og NATO taki við af Sameinuðu þjóðunum og allir verði þar í einingu andans. Það er nokkuð til í þeirri hugsun að menn kæmu á þeirri skipan að allar þjóðir heimsins væru í einu og sama hernaðarbandalaginu. Það væri ekki svo galið. Ég hef stundum hugleitt það. En það er forsenda að þjóðirnar séu það allar, a.m.k. allar sem eitthvað mega sín.
    Reynslan af því að hafa sumar þjóðir í einu hernaðarbandalagi og aðrar í öðru er ekki góð. Hún leiddi til einhvers háskalegasta vígbúnaðarkapphlaups mannkynssögunnar og reyndar óumdeilanlega þess háskalegasta. Á spjöldum sögunnar gefur að líta að oftar en einu sinni á þessum tíma --- þrisvar var niðurstaða bandarískrar sagnfræðiráðstefnu --- var heimurinn hársbreidd frá tortímingu. Ég heyrði lærðan bandarískan sagnfræðing halda fram þeirri niðurstöðu á sagnfræðiráðstefnu sem haldin var um þessi efni að ekki sjaldnar en þrisvar sinnum, samkvæmt niðurstöðu manna sem hefðu kannað þessa hluti, hefði heimurinn á tímum kalda stríðsins, þegar tortímingarvígbúnaðarkapphlaupið stóð sem hæst, verið hársbreidd frá gereyðingarstríði. Ég get ekki tekið undir það að reynslan af því að reyna að tryggja öryggi og frið í heiminum með hernaðarbandalögum sem standa grá fyrir járnum hvort andspænis öðru sé góð. Þess vegna er það að ég get ekki tekið undir með og deili ekki skoðunum með hv. 3. þm. Reykv. að eitt af því mikilvægasta í nútímanum og til næstu ára litið sé að finna nýjan tilgang fyrir NATO.
    Nú er það þannig að NATO hefur tapað sínum helsta óvini þar sem eru Sovétríkin sálugu sem þjónuðu sem óvinur NATO margþættum tilgangi á sinni tíð. Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem fylgst hafa með fréttum undanfarin ár að á vettvangi NATO hefur staðið yfir mikil dauðaleit að óvini. Það fer vel á því að nota það orð, dauðaleit. Það hefur sem sagt verið til umræðu á þingum þar hvaða nýja hlutverk og hvaða nýju óvinir gætu gert það að verkum að NATO gæti haldið ,,funktionum`` sínum nokkurn veginn óbreyttum. Þar hafa komið til umfjöllunar hugmyndir um að gera einhvern hluta a.m.k. af herjum NATO að einhvers konar alþjóðlegri alþjóðaherdeild eða alþjóðlegri lögreglu sem væri ekki bundin af því hefðbundna svæði sem NATO hefur fram að þessu talið til starfsvettvangs síns. Nú veit ég ekki örlög þeirra hugmynda og umræðu innan NATO en hér eru mér fróðari menn sem kunna kannski að greina frá því. En það er ekki aðalatriðið að menn hafi verið í bollaleggingum og í dauðaleit að tilgangi og nýjum óvinum heldur hitt að mér er þetta til marks um að menn hafi ekkert vitkast þarna í þessum klúbbi. Í staðinn fyrir að nota tækifærið og leggja sjálfa sig niður í kjölfar þess að Varsjárbandalagið leið undir lok og taka til við að gæta friðarins með öðrum og friðsamlegri hætti og öðrum ráðstöfunum svo sem þeim að efla RÖSE-vettvanginn og beina í auknum mæli friðar- og öryggisgæslu í heiminum inn á vettvang Sameinuðu þjóðanna. Nei, þá þráast menn við í þessum uppdagaða klúbbi sem fjarað hefur undan og leggja fé og krafta í að leita sér að nýjum tilgangi.
    Ég hef fylgst með því af nokkurri athygli hvernig umræður um aðgerðir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um gæslu öryggis hafa þróast á undanförnum árum. Ég átti þess m.a. kost að sitja allsherjarþing Sameinðu þjóðanna á síðasta hausti og einbeitti þá kröftunum mjög að því að fylgjast með umræðum í þeirri nefnd þingsins sem fjallar um afvopnunarmál. Ég verð að segja alveg eins og er að það var ákaflega athyglisverð reynsla og að mörgu leyti skemmtileg og jákvæð vegna þess að verulega áhugaverðir hlutir hafa verið að gerast og umtalsverðar breytingar hafa átt sér stað á hlutverki Sameinuðu þjóðanna í þessum efnum. Menn hafa fylgst með því að í vaxandi mæli eru Sameinuðu þjóðirnar að taka virkan þátt í lausn deilumála með því að senda öryggissveitir, með því að blanda sér beinlínis pólitískt í viðfangsefni eins og gíslamálin. Sameinuðu þjóðirnar hafa á undanförnum árum náð ótvíræðum árangri í mörgum slíkum tilvikum, mun meiri en var á tímum kalda stríðsins enda var það auðvitað svo að fyrir Sameinuðu þjóðunum fór eins og fleirum á þeim tímum að þær voru meira og minna lamaðar vegna þeirrar blokkaskiptingar sem kalda stríðið leiddi af sér inn á vettvang Sameinuðu þjóðanna. Hins vegar binda nú mjög margir vonir við að þessu sé að ljúka og alþjóðleg stofnun eins og Sameinuðu þjóðirnar geti í auknum mæli axlað verkefni á þessu sviði og leyst þau með farsælli hætti en aðrir geta. Það er einlægt mín sannfæring. Ég tel t.d. þær viðræður mjög áhugaverðar sem standa nú yfir undir forustu Sameinuðu þjóðanna varðandi það að endurnýja t.d. samninginn um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna, varðandi það að koma á samningi um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn, varðandi það að koma á samningum um efnavopn og eyðingu þeirra og koma á samningum um lífræn efnavopn eða slíkt. Allt er þetta mjög áhugavert og af hinu góða.
    Eitt af því sem er á dagskrá og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er mjög áhugavert. Það er að koma á fyrsta alþjóðlega samningnum sem þá yrði um eftirlit með vopnasölu. Ég segi alveg eins og er, herra forseti, að við þessa framtíð bind ég vonir og á hana veðja ég en ekki NATO. Það er ósköp einfaldlega vegna þess að ég óttast að sá klúbbur --- ég ætla ekki að útiloka það sem hér er fullyrt að hann kunni að vera að breyta um eðli að einhverju leyti og breytist m.a. með þátttöku nýrra aðila. Það er vel að hann þróist eitthvað í jákvæðari átt --- muni draga með sér inn í framtíðina of miklar og óæskilegar leifar af fortíðinni, þ.e. þeim hugsunarhætti sem hefur auðvitað gegnsýrt þessa stofnun um áratugaskeið, hugsunarhætti ógnarjafnvægisins og fælingarinnar sálugu. Ég verð að segja líka að mér finnst nokkuð bera á því að þeir þátttakendur af Íslands hálfu sem sækja inn á þennan vettvang hafi ekki losað sig frá þessu heldur. Ég vil þess vegna taka af öll tvímæli um það vegna orða hv. 3. þm. Reykv. að ég hef ekki áhuga á því að starfa í þessum samtökum. Ég vil miklu frekar beina kröftum mínum í annan farveg, t.d. þann að fylgjast með störfum Sameinuðu þjóðanna í þessum efnum, leggja áherslu á að Ísland taki fullan þátt í störfum RÖSE og á öðrum slíkum vettvangi þar sem menn eru ekki fatlaðir af fortíð sinni á sama hátt og menn eru auðvitað haltir á vettvangi NATO.
    Þess vegna er það þannig að við erum ekki sammála um þessa hluti, hv. 3. þm. Reykv. og ég og e.t.v. ekki hv. 6. þm. Reykn. heldur, og það er þá bara í góðu lagi. Þeir mega hafa sína skoðun á ágæti þessa vettvangs. Það er mér að meinalausu. Mér finnst að vísu að þeir ættu að sýna mér og öðrum, t.d. flokksbræðrum mínum, þá virðingu að sætta sig við það að menn séu ekki að öllu leyti sammála í þessum efnum. Ég held að það sé alveg ástæðulaust af hv. 3. þm. Reykv. að væna t.d. mig og þann sem talaði hér á undan mér, hv. 5. þm. Vestf., um að geta ekki haft fullkomlega nútímaleg sjónarmið í þessum efnum. Ég bið þá hv. 3. þm. Reykv. að benda mér á það hvað það er í mínum málflutningi sem bendir til þess að ég standi fyrir einhverri sérstakri forneskju á þessu sviði. Er það einhver sérstök forneskja að hafa þá skoðun að það sé vænlegra t.d. að beina þessum viðfangsefnum inn á vettvang Sameinuðu þjóðanna og efla tök þeirra í þessum málum? Er það einhver sérstök forneskja að fylgjast með því sem þar er efst á baugi í sambandi við viðleitni til að ná nýjum og víðtækum samningum á sviði afvopnunarmála og öryggisgæslu í heiminum og að ná utan um svið sem hafa staðið út undan í alþjóðlegum samningum? Ég held ekki. Ég er reyndar alveg ófeiminn við að lenda í rökræðum við hv. 3. þm. Reykv. um hvort sé forneskjulegra, þau sjónarmið sem ég hef hér lýst annars vegar og hins vegar það að starfa í aðdáendaklúbbi NATO með óbreyttu hugarfari eins og ekkert hafi breyst. Við skulum bara leyfa öðrum að dæma um það en umgangast sjónarmið hins af virðingu án einhverra fúkyrða.
    Þá er ég kominn að því sem ég ætla að ljúka máli mínu með, þ.e. að nefna í fáeinum orðum, því að meira verðskuldar það ekki, hina sérkennilegu framsöguræðu hv. 6. þm. Reykn. sem hann flutti hér fyrr á þinginu fyrir þessari skýrslu. Ég geri í sjálfu sér engar athugasemdir við fyrri hluta þeirrar ræðu þar sem hv. þm. og frsm. er að fara yfir starfsemi þessa vettvangs. Það er mér óviðkomandi sem betur fer en síðan gerast þau tíðindi að allt í einu blandast inn í framsöguræðu hv. þm. það sem ég hlýt að taka fyrir persónuleg sjónarmið hans og skoðanir og furðulegar útlistanir á sögunni, gersamlega órökstuddar ásakanir og söguskýringar sem falla dauðar og ómerkar. Þær eru órökstuddar, óréttmætar og rangar að mínu mati. Ég vísa þar í ýmislegt sem hann segir aftarlega í sinni

ræðu varðandi tengsl þessara mála við íslensk stjórnmál fyrr og nú.
    Ég átel þá framsetningu máls hv. 6. þm. Reykn. að blanda inn í framsöguræðu fyrir skýrslu af þessu tagi þar sem hann talar fyrir hóp þingmanna því sem ég tek fyrir hans persónulegu sjónarmið þó að það sé hvergi afmarkað í ræðunni hvenær hinni formlegu og hlutlægu skýrslu og framsöguræðu hv. þm. fyrir henni lýkur og hvenær kemur að söguskýringum hv. 6. þm. Reykn. Það verður ekki ráðið af lestri á útskrift af ræðu hans hvað er á ferðinni í hverju tilviki, hvað eru hans persónulegu sjónarmið og hvenær hann talar fyrir hönd Íslandsdeildar NATO-þingsins. Nema ræða hv. þm. hafi verið borin upp og samþykkt með atkvæðum á fundi í Íslandsdeildinni áður en hún var flutt. Sé svo eru það auðvitað tíðindi sem við þurfum að fá hingað inn í þingið. Það verður ekki ráðið af framsögunni. Þvert á móti gef ég mér það, sem vonandi er, að hér séu á ferðinni persónuleg sjónarmið hv. 6. þm. Reykn. og þá er það auðvitað verst fyrir hann.