Norður-Atlantshafsþingið 1991

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 16:38:00 (4609)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er margt áhugavert í hugrenningum hv. 2. þm. Vestf. Ég er honum þó ekki að öllu leyti sammála. Það er alveg rétt sem hann bendir á að auðvitað er víða efnahagslegt bolmagn til að byggja upp mikla heri og það á við um hina gömlu Evrópu. Það er laukrétt að ef hlutirnir þróast þar með óhagstæðum hætti í stað þeirrar afvopnunar sem nú er þar í gangi og í stað þíðu í samskiptum kæmi versnandi andrúmsloft og vígbúnaðaruppbygging, ég tala ekki um ef hún væri stjórnlítil eða í óæskilegum höndum, og það væri alvöruhlutur. En það er auðvitað ekkert tryggt í þeim efnum frekar en annað og Evrópa er ekki ein á báti í þeim efnum.
    Ég vil síðan gera athugasemd varðandi stöðu Sameinuðu þjóðanna í þessum efnum. Ég er ekki að öllu leyti sammála hv. 2. þm. Vestf. um máttleysi eða getuleysi Sameinuðu þjóðanna til áhrifa. Ég bendi á að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur allmikil völd í þeim tilvikum þegar um alþjóðlega samninga t.d. um eftirlit með vígbúnaði eða annað slíkt er að ræða. Og menn hafa auðvitað fyrir sér dæmin um ályktanir öryggisráðsins sem síðan hefur verið framfylgt. Ég þarf ekki að segja meira um það.
    Vissulega er það ekki svo að Sameinuðu þjóðirnar eða öryggisráðið sé í öllum tilvikum áhrifalaust og máttlaust. Varðandi innanríkisdeilur er rétt að Sameinuðu þjóðunum er ekki ætlað sérstaklega að hlutast til um slík mál. Þó er það þannig að hafi menn undirgengist alþjóðlega samninga og fullgilt þá um tiltekna hluti þá er heimild samkvæmt alþjóðalögum að beita ýmsum ráðstöfunum til að knýja menn til að framfylgja þeim og beita þá refsingum sem ekki gera það. Þetta veit hv. þm. auðvitað. Og ég er þeirrar skoðunar að almennt séu friðsamlegar aðferðir við lausn deilumála viðskiptalegs og pólitísks eðlis miklu farsælli leið en vopnaíhlutun því að það er nú svo, því miður, að vopnin leiða af sér átök sem enda oftast þannig að þau eru notuð þar sem þau hlaðast upp.