Norður-Atlantshafsþingið 1991

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 16:42:00 (4611)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Svarið er já. Ég tel að það hefði verið hægt og ég er ekki búinn að sjá, þó svo það hefði tekið tíma og reynt á þolrifin og jafnvel kostað hörmungar, að þær hefðu endilega orðið meiri en þær sem Persaflóastríði leiddi af sér. Hundruð þúsunda fallinna, hungur og sjúkdómar sem leidd hafa verið yfir þetta svæði. Og síðan er ástandið ekki betra en raun ber vitni hjá hinni frelsuðu þjóð sem er engin þjóð og býr í Kúvæt að þar er núna borið fé á menn til þess að ástunda fjölkvæni og útlendingar eru ofsóttir og réttarfar í landinu er verra að flestra mati en það var fyrir innrásina.
    En eitt er það svo til viðbótar sem ég held að menn verði að hugleiða áður en þeir hverfa á vit vopnavaldsins í þessum efnum. Og það er, hv. þm., hver á að taka ákvörðunina um að beita vopnunum. Og það er nú það vandasama við þetta allt saman sem gerir það að verkum að þegar til kastanna kemur þá held ég að best sé að hafa þau völd svo langt sem þau ná og þau hljóta eðli málsins samkvæmt að verða ákaflega takmörkuð í höndum einhverrar alþjóðlegrar stofnunar í þeim skilningi að þar séu allar þjóðir. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það ætti í raun og veru að vera skylduaðild sjálfstæðra þjóða að slíkum samtökum, enda ætluðu þau sér fullgilda þátttöku í samfélagi þjóðanna og þar væri því valdi fyrir komið sem að mínu mati ætti þó fyrst og fremst að vera viðskiptalegs og pólitísks eðlis sem notað væri til að leysa deilumál og ævinlega væri til þrautar reynt að gera það með friðsamlegum hætti. Síðan má ekki gleyma því að í tækninni búa ýmsir möguleikar og m.a. þeir að gæta öryggisins með allt öðrum hætti en áður hefur verið mögulegt. Þar á meðal eru menn að bollaleggja í sambandi við hinn væntanlega samning um eftirlit með vopnaviðskiptum að taka ekki síst tæknina þar í sína þjónustu.