Norður-Atlantshafsþingið 1991

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 16:44:00 (4612)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Mér fannst út af fyrir sig það lýsa mikilli trú að svara þeirri spurningu játandi sem ég beindi til hv. þm. Steingríms Sigfússonar. En minnugur þess að mesti friðflytjandi allra tíma var líflátinn í Austurlöndum þá hef ég ekki haft of mikla trú á þeim möguleika að fara alltaf samningaleiðina að þeim sem þar búa og þó tel ég þá kannski ekkert verri en hugsunarhátt nýlenduveldanna eins og hann hefur löngum verið.
    En ég vil minna á það að Saddam Hussein tók Kúvæt fyrst og fremst til þess að fá meiri peninga til þess að fjármagna stríðið við Íran, ekki vegna þess að hann ætlaði að taka Kúvæt og svo væri þetta allt búið, heldur vantaði hann bara meiri peninga til að skjóta á Íran. Og það getur enginn svarað því hversu mikið bál ófriðar hefði mátt kveikja hefði hann haft þá fjármuni alla undir höndum sem þetta ríki hafði í olíuauð þannig að þar greinir okkur verulega á hvort betra hefði verið að lama þó ekki nema í bili sjáanlega kraft hans til þess að berjast. Og ég er ekki viss um að ástandið hafi neitt versnað hjá almenningi í Kúvæt þó að fé sé borið á karlmenn að stunda þar fjölkvæni. Það var nú einu sinni svo að það var fjárskorturinn sem sennilega hefur mest komið í veg fyrir að þeir næðu sér í fleiri konur. En auðvitað má vel vera að hv. þm. sé um þetta fróðari en ég.