Norður-Atlantshafsþingið 1991

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 16:46:00 (4613)

     Karl Steinar Guðnason :
    Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að skýrsla um Norður-Atlantshafsþingið skyldi vekja þessar umræður og það var mjög eðlilegt að fulltrúar Alþb. væru viðkvæmir fyrir þeim sögulegu staðreyndum sem ég rakti í ræðu minni sem fylgdi skýrslunni sem liggur fyrir sem þskj. Ekkert mál seinni tíma hefur vakið eins mikil átök með íslensku þjóðinni og innganga Íslands í Atlantshafsbandalagið. Ekkert mál hefur verið eins mikið rætt eða skipt mönnum í flokka eða hópa eins og afstaðan til Atlantshafsbandalagsins og varnarmála, til þess hvort við ættum að taka þátt í vestrænum vörnum eða ekki.
    Staðreyndin er að þegar sú ákvörðun var tekin að ganga inn í Atlantshafsbandalagið þá var hér stjórnmálaflokkur, og er reyndar enn lifandi eða arftaki hans, sem hlýddi skipunum að austan, tók við skipunum þaðan og skipti um skoðun eftir því hvað herrunum í Kreml sýndist hverju sinni. Og það er staðreynd en ekki hugmyndir einstakra þingmanna að bandamenn okkar óttuðust að það lið sem þar var saman komið aðstoðaði árásarheri austantjaldsmanna við að brjóta niður varnir þar sem innrás yrði gerð, t.d. hér á Íslandi. Það hefur komið fram í sögulegum heimildum að margir óttuðust þetta mjög, Íslendingar gerðu það líka og mjög eðlilegt að það sé rifjað upp. Þeir sem beittu sér fyrir því að Íslendingar tækju þátt í vörnum Vesturlanda voru rægðir, beittir illmælgi og álygum og það er mjög eðlilegt að menn rifji þetta upp. Það er mjög eðlilegt að því sé haldið til haga nú þegar tekist hefur að koma kommúnismanum fyrir kattarnef, sem var helsti ógnvaldur Vesturlanda. Á sínum tíma óð kommúnisminn yfir þjóðir Austur-Evrópu og það var fullyrt og fullvissa fyrir því að ef Atlantshafsbandalagið hefði ekki verið stofnað til varnar þá hefðu Sovétveldin ráðist á fleiri ríki eða efnt til byltinga eins og gert var t.d. í Tékkóslóvakíu. Þetta er hluti af sögu Íslands, sagan um Atlantshafsbandalagið, deilurnar um það og það er mjög eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvernig var í pottinn búið hjá þeim flokki, hjá þeim einstaklingum sem hvað harðast gengu fram í því að reyna að veikja varnir okkar Íslendinga.
    Staðreyndin er líka sú að tilvist Atlantshafsbandalagsins hefur gert það að verkum að kalda stríðinu er lokið. Það er fyrst og fremst þess vegna og ófriður hefur ekki átt sér stað í Evrópu fyrr en núna með innanlandsstyrjöld í Júgóslavíu sem er í framhaldi af hruni kommúnismans. En ófriður hefur ekki átt sér stað vegna kommúnismans í Austur-Evrópu eða annars staðar í Evrópu eftir að Atlantshafsbandalagið var stofnað. Og það er eins og austantjaldsmenn, sem sækja þing Norður-Atlantshafsbandalagsins, segja nú að Atlantshafsbandalagið hefur reynst friðarbandalag fyrst og fremst, það hefur verið bandalag til þess að tryggja friðinn, nokkuð sem við vissum alveg um hér en þeim varð það ljóst þegar þeir sáu hversu mikil áhrif það hafði á að brjóta niður þetta skelfingarkerfi sem átti svo marga formælendur hér á Íslandi.
    Það er líka ástæða til þess að minnast á að slagorðið ,,Ísland úr NATO --- herinn burt`` var mjög algengt. Það heyrist ekki lengur. Menn eru hættir að segja þetta, meira að segja Alþb., sem helst kyrjaði þennan söng, því mig grunar að forustumenn þess hafi séð að sér og sjái að það tekur enginn mark á þessu lengur og enginn vilji stuðla að þessu lengur.
    Ég tel ástæðulaust að vera að svara einhverjum köpuryrðum fulltrúa forneskjunnar en legg á það áherslu að við, sem höfum stutt vestrænar varnir, sjáum ástæðu til að minna á hver málflutningur þessara manna var, sem hvað verst létu í garð NATO, í garð Atlantshafsbandalagsins, í garð okkar sem vildum stuðla að því að Vesturlönd stæðu saman gegn því skelfingarkerfi sem ríkti í Austur-Evrópu og við teljum að það sé ástæða til að halda því áfram þangað til Alþb. hefur beðist afsökunar á sinni fortíð. Hún er ljót í þessum efnum, mjög ljót, og Íslendingar eiga það skilið að sú afsökunarbeiðni komi.
    Reyndar er það svo að skoðanabræður alþýðubandalagsmanna á Ítalíu og Frakklandi hafa tekið mjög virkan þátt í starfi Þingmannasamtaka Atlantshafsbandalagsins seinni árin, alveg frá því upp úr 1970 og breytingar hafa orðið miklar í Evrópu hjá þeim flokkum. Þeir hafa kallað það Evrópukommúnisma eða hvað sem það heitir. En hér á Íslandi

virðist vera um mjög einangrað fyrirbrigði að ræða sem heitir Alþýðubandalag sem ekki vill taka þátt í því að ræða hvernig hagsmunum landsins sé best borgið í varnarmálum og sem aftur gefur þeirri hugsun rúm að enn séu þeir við sama heygarðshornið, enn sama forneskjan, enn það að trúa á að allt sem komi að vestan sé vont, allt sem komi að austan, hversu ljótt og magnað sem það er, sé rétt og gott og fallegt.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég vil þó segja að ég fagna því að umræður hafi orðið um skýrsluna og ég skil vel viðkvæmni alþýðubandalagsmanna, sérstaklega 5. þm. Vestf., sem virðist lifa mjög góðu lífi í hugsunarhætti þeirra sem tóku við skipunum að austan.