Norður-Atlantshafsþingið 1991

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 17:14:00 (4617)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það að við Íslendingar höfum tekið þátt í samstarfi vestrænna þjóða hefur orðið til þess að Íslendingar eru ríkari í dag á margan hátt og eigum betur ofan í okkur og á en annars hefði orðið. Ég tel það afar mikilvægt að menn séu bærilega samkvæmir sjálfum sér í þessum málflutningi. Ég er ekki að ætlast til þess að einstakir aðilar hafni því að vinna í þjónustu slíkra stöðva og blanda

því saman við stjórnmálaskoðanir. Ég vil ekki að orð mín séu skilin með þeim hætti. Ég er hins vegar að benda á að það gætir oft mikillar tvöfeldni í afstöðunni til vestrænnar samvinnu. Menn vilja gjarnan njóta ávaxta þessarar samvinnu en eru síðan tilbúnir til að berjast gegn henni og vinna að því að hún sé lögð niður. Ég ætla að vona að svo verði aldrei en mér finnst að oft mætti gæta meira samræmis í málflutningi aðila og mig undrar að ekki skuli vera hægt að verða sammála um það, hvað sem líður fortíðinni, að þetta samstarf hafi orðið til gagns. Ég hef engan áhuga fyrir því að velta mönnum upp úr fortíðinni í þessu sambandi. Aðalatriðið er, hvað sem gerst hefur í þessum efnum og þrátt fyrir allt, sú mikla samstaða sem hefur ríkt í íslenskum stjórnmálum um þessi mál í gegnum tíðina frá upphafi og sá mikli meiri hluti sem hefur verið fyrir þessu samstarfi þrátt fyrir einhverja andstöðu. Við því er ekkert að gera. Þannig hlaut það alltaf að verða. Hins vegar hljóta menn að viðurkenna staðreyndir í dag.