Útvarpslög

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 18:16:00 (4631)

     Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á útvarpslögum, nr. 68/1985, á þskj. 554, 345. mál. Flm. auk þeirrar sem hér stendur eru hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og Össur Skarphéðinsson.
    Þetta frv. felur í sér, verði það samþykkt, að Menningarsjóður útvarpsstöðva verði lagður niður og er með ákvæði til bráðabirgða um að eignir sjóðsins, séu þær einhverjar, renni til Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
    Útvarpslögin tóku gildi 1. jan. 1986 en í þeim lögum er fyrst kveðið á um sjóðinn. Reglugerð um hann er síðan samþykkt 11. febr. sama ár, en stjórn ekki skipuð fyrr en í nóvember það ár. Í umræðum á Alþingi um frv. til útvarpslaga og Menningarsjóð útvarpsstöðva árið 1985 kom skýrt fram að tilgangurinn með Menningarsjóði útvarpsstöðva væri tvíþættur. Í fyrsta lagi að létta af Ríkisútvarpinu kostnaði sem það hefði af rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þ.e. 25% af rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar umfram tekjur, sbr. 11. gr. laga nr. 36/1982. Í öðru lagi að veita fjárframlög til eflingar innlendri dagskrárgerð sem verða mætti til menningarauka og fræðslu. Það átti sem sagt að hvetja nýjar stöðvar, sem þá voru að fá starfsleyfi, til að flytja menningarefni.
    Í 11. gr. útvarpslaga, nr. 68/1985, segir, með leyfi forseta: ,,Tekjur Menningarsjóðs útvarpsstöðva eru sérstakt gjald, menningarsjóðsgjald, sem skal vera 10% og leggjast á allar auglýsingar í útvarpi.`` --- Með útvarpi er átt við bæði útvarp og sjónvarp.

    ,,Af gjaldi þessu skal greiðast hlutur Ríkisútvarpsins af kostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands, . . .  áður en til úthlutunar á styrkjum til útvarpsstöðva kemur.``
    Í reglugerð um sjóðinn frá 1986 er kveðið á um að framlög úr sjóðnum skulu aðeins veitt útvarpsstöðvum. Framlög megi veita til dagskrárgerðar viðkomandi útvarpsstöðvar sjálfrar og vegna kaupa útvarpsstöðvar á efni til flutnings frá öðrum innlendum aðilum sem annast dagskrárgerð.
    Þann 9. apríl 1991 var gerð breyting á reglugerðinni þar sem hlutverk sjóðsins er skilgreint að nýju og er nú heimilt að veita íslenskum útvarpsstöðvum eða íslenskum framleiðendum dagskrárefnis framlög til eflingar innlendri dagskrárgerð, þeirrar er megi verða til menningarauka og fræðslu. Nú eru það ekki útvarpsstöðvarnar einar heldur einnig framleiðendur efnis sem fá úthlutanir, þ.e. þeir sem útvarpsstöðvarnar e.t.v. keyptu efnið af. Opnar þessi reglugerð fyrir styrki til framleiðenda innlends menningarefnis, þ.e. styrki til kvikmyndagerðarmanna.
    Ekki eru settar fram neinar kröfur um að efni sem kvikmyndagerðarmenn framleiða fyrir styrk úr menningarsjóðnum hafi tryggingu fyrir því að verða sent út á einhverri útvarpsstöð. Ef útvarpsstöðvarnar vilja síðan kaupa þetta efni kvikmyndaframleiðanda, efni sem gert er fyrir fé úr menningarsjóðnum, þurfa þær að kaupa það á fullu verði, efni sem framleitt er fyrir auglýsingatekjur útvarpsstöðvanna --- eða skattinn á auglýsingatekjurnar, fyrir þá sem kjósa að kalla hann svo --- og tvíborga síðan efnið með auglýsingafénu. Ég nefni sem dæmi kvikmyndafyrirtæki sem fær úthlutun, t.d. 3 millj. til að vinna ákveðið menningarefni. Sjónvarpið eða Stöð 2 hafa áhuga á að sýna þáttinn og þurfa þá að kaupa sýningarréttinn á fullu verði og borga t.d. 3 millj. fyrir þáttinn í stað þess, eins og var áður, að sjónvarpið eða Stöð 2 fékk úthlutunina úr sjóðnum og lét síðan kvikmyndafyrirtækið vinna myndina fyrir féð sem það fékk úthlutað úr sjóðnum.
    Um þetta eru engar reglur eins og málum er nú háttað og á reyndar eftir að koma í ljós hvernig það verður.
    Reyndar er það mál ýmissa lögfróðra manna að líkast til eigi reglugerðin frá 1991 ekki stoð í lögum þar sem úthlutun til kvikmyndagerðarmanna stangast á við ákvæðið um að úthluta styrkjum til útvarpsstöðva eftir að hlutur ríkisútvarpsins af rekstrarkostnaði sinfóníunnar hefur verið greiddur, en það mál er nú til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis.
    Sé yfirlit yfir greiðslur og styrki úr sjóðnum undanfarið skoðað, er ljóst að hann hefur ekki náð því hlutverki sem honum var upphaflega ætlað. Greiðslur Ríkisútvarpsins hafa staðið undir megintekjustofnum sjóðsins og þar með hluta sjóðsins á kostnaði við rekstur sinfóníunnar.
    Ríkisendurskoðun sendi frá sér skýrslu um sjóðinn í júní 1988 og er með miklar efasemdir um ágæti hans. Í skýrslunni kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisútvarpið leggur til um 74,5% af menningarsjóðsgjaldinu 1988 en fær 56% styrkja. Íslenska útvarpsfélagið leggur til 13,4% en fær 27,8% styrkja. Íslenska sjónvarpsfélagið leggur til 11,3% en fær 15,4% styrkja.`` Hlutfallsskipting styrkja miðað við ráðstöfunarfé sjóðsins eftir að sinfónían hefur fengið sinn hlut er óeðlileg. Þetta er óeðlilegt hlutfall miðað við að þessi fyrirtæki eiga í mjög harðri samkeppni.
    Það hefur verið tregða í greiðslum í sjóðinn. Ekki hefur verið ljóst hvað beri að túlka sem auglýsingu og hvað séu í raun auglýsingatekjur, svo sem óbeinar auglýsingar eins og kostun á dagskrárefni, merki fyrirtækja í horni yfir kostun og í hléum. Hafa sumir neitað að greiða tíundina af slíkum auglýsingum til sjóðsins.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir enn fremur: ,,Ljóst er að sú fyrirætlan með lögum um Menningarsjóð útvarpsstöðva að létta af Ríkisútvarpinu hluta af rekstarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur ekki náð tilgangi sínum þau tvö ár sem sjóðurinn hefur starfað. Ríkisendurskoðun telur rétt að fram fari endurskoðun á tilverurétti sjóðsins.``
    Hefði Ríkisútvarpið haldið áfram að greiða sinn hlut í rekstri sinfóníunnar og haldið eftir afgangi af tekjustofni sjóðsins, þ.e. tíundinni til dagskrárgerðar og haldið núverandi auglýsingaverði, hefði það haft mun meira fé til ráðstöfunar til menningarefnis en fyrir tilkomu sjóðsins. Skoði menn töfluna sem fylgir frv. kemur berlega í ljós að frá upphafi hefur Ríkisútvarpið greitt rúmar 337 millj. til sjóðsins en aðeins fengið 110 millj. úr honum til dagskrárgerðar.
    Samkvæmt upplýsingum ríkisbókhalds hafa verið greiddar 135 millj. til sinfóníunnar frá upphafi úr sjóðnum. Hér eru 92 millj. á milli sem höfðu getað nýst dável til menningarlegrar dagskrár hjá stofnuninni.
    Á þessu sést einnig að með tilkomu sjóðsins hefur ekki verið létt gjöldum af Ríkisútvarpinu eins og upprunalega var ætlunin heldur aukast þau í raun.
    Það má líka koma hér fram að fjárhagsáætlun fyrir árið 1992 er gert ráð fyrir að kostnaður við sjóðinn, laun og rekstrarkostnaður, verði um 4 millj. kr. Hægt væri að gera dágott menningarlegt efni fyrir þá fjárhæð í stað þess að eyða henni í rekstur á sjóðnum. Þetta er 4,7% af rekstrarfé sjóðsins en áætlað er að 56,5% fari til sinfóníunnar í ár og 38,8% í menningarlega dagskrárgerð.
    Hugmyndin að menningarsjóðnum var mjög góð og þörf á þeim tíma sem hún var sett fram, en hvernig málin hafa æxlast síðan hefur orðið til þess að hann hefur ekki náð tilgangi sínum. Erfitt er að sjá hvaða rök eru fyrir því að láta Menningarsjóð útvarpsstöðva færa fé frá Ríkisútvarpinu til Sinfóníuhljómsveitarinnar þegar uppruni er óbreyttur. Það var heldur ekki ætlun löggjafans, hugmyndin var að dreifa kostnaðinum á allar útvarpsstöðvar í landinu. Ekki verður séð að tilkoma sjóðsins hafi orðið til þess að efla innlenda dagskrárgerð umfram það sem samkeppni stöðvanna leiðir af sér. Stöðvarnar, útvarps- og sjónvarpsstöðvarnar, leggja metnað í að halda úti menningarlegri dagskrárgerð, en yfirleitt vantar fé. Ég veit t.d. að útvarpsstjóri Íslenska útvarpsfélagsins er þeirrar skoðunar að Stöð 2 og Bylgjan mundu verja 30 millj. kr. meira í íslenska dagskrárgerð á þessu ári ef menningarsjóðurinn væri ekki til staðar. Ég veit líka að Ríkisútvarpið greiddi 102 millj. kr. í sjóðinn á undanförnum tveimur árum umfram greiðslur eða styrki úr honum.
    Svo ég vitni aftur í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 1988 þá leggur Ríkisendurskoðun til að lög og reglur um sjóðinn verði endurskoðuð eða sjóðurinn lagður niður.
    Frá því að þessi skýrsla var gerð hafa litlar sem engar breytingar orðið á sjóðnum nema til hins verra, sbr. reglugerðarbreytinguna í júní 1991. Ég tel því að niðurstaða Ríkisendurskoðunar sé enn í fullu gildi.
    Þetta mál hefur margoft verið rætt í útvarpsráði, bæði því sem sat á síðasta kjörtímabili og því sem nú situr og eru ráðsmenn yfirleitt þeirrar skoðunar að sjóðurinn eigi ekki tilverurétt enda er það vantraust á Ríkisútvarpið sem menningarstofnun og það ágæta fólk sem þar starfar að tíund af auglýsingatekjum skuli vera færð til úthlutunar nefndar úti í bæ. Útvarpsstöðvum veitir ekki af öllum sínum auglýsingatekjum í dagskrána. Því hefur verið haldið fram að 10% skatturinn til menningarsjóðsins sé ekki peningar útvarpsstöðvanna. Hann er það e.t.v. ekki strangt til tekið, en hann er 10% sem koma ofan á auglýsingaverðið. Útvarpsstöðvar starfa á frjálsum markaði og eru í samkeppni við aðra fjölmiðla sem ekki þurfa að greiða þennan skatt. Hækki útvarpsstöðvarnar auglýsingaverðið munu auglýsendur einfaldlega snúa sér annað og þær verða af auglýsingunum. Verði sjóðurinn lagður niður kæmi tíundin sem áður fór til menningarsjóðsins beint til hverrar stöðvar.
    Eins og ég hef sagt hafa bæði Ríkisútvarpið og aðrar útvarpsstöðvar mikla þörf fyrir allt það fé sem nýta má til vandaðrar innlendrar dagskrár og tel ég því ráðstöfun tekna menningarsjóðsins best komna í höndum útvarpsstöðvanna sjálfra.
    Varðandi Sinfóníuhljómsveitina vil ég að það komi fram ef menn telja eðlilegt að útvarpsstöðvar standi undir hluta af kostnaði við rekstur hennar að hægt er að gera það á einfaldari hátt með fyrirliggjandi álagningarkerfi ríkisins eins og Ríkisendurskoðun hefur reyndar bent á í skýrslu. Gjald til sinfóníunnar má leggja á á sama hátt og önnur opinber gjöld. Stofn til álagningar gæti eftir sem áður verið auglýsingatekjur. Annars tel ég óeðlilegt að skattleggja útvarpsstöðvar til reksturs sinfóníuhljómsveitar. Hlutur útvarpsstöðvanna ætti að koma beint úr ríkissjóði.
    Útvarpsstöðvarnar mundu síðan greiða hljómsveitinni fyrir flutning í útvarpi og upptökur á tónleikum og útsendingarrétt og ég efast ekki um að a.m.k. Ríkisútvarpið væri fúst til að gera slíkan samning við hljómsveitina.
    Í grein í Morgunblaðinu í vikunni eru framkvæmdastjóri og fjármálastjóri Ríkisútvarpsins á þessari skoðun og telja eðlilegt að Ríkisútvarpið hefði frjálsan samningsrétt við Sinfóníuhljómsveitina. Með slíkum samningi væri kominn drjúgur hlutur þess kostnaðar sem menningarsjóðurinn greiðir nú af reksti hljómsveitarinnar. Kæmi einnig til samningur við aðrar stöðvar ætti framlagið úr ríkissjóði ekki að þurfa að vera hátt.
    Ég hef hér í máli mínu sýnt fram á með ýmsum rökum að með Menningarsjóði útvarpsstöðva hefur ekki tekist að ná þeim tilgangi sem í upphafi var stefnt að þegar hann var stofnaður. Hann hefur hvorki létt af Ríkisútvarpinu kostnaði þess af sinfóníunni né aukið menningarefni umfram það sem samkeppni leiðir af sér.
    Þegar ég sat á þingi árið 1987 bar ég upp fyrirspurn til þáv. menntmrh. Sverris Hermannssonar varðandi menningarsjóðinn. Þá lýsti hann því yfir að hann hygðist leggja sjóðinn niður. Ekki varð af því. Nú er flokksbróðir hans og núv. hæstv. menntmrh. ekki hér í húsinu en ég vona að hann sé sama sinnis og ég vona að hann láti verða að því að leggja sjóðinn niður en svæfi ekki málið eða fresti því með því að vísa til endurskoðunar útvarpslaganna.
    Ég man ekki betur en útvarpslögin hafi verið í endurskoðun alveg frá því að núgildandi lög komu til framkvæmda og því getur liðið á löngu þar til ný útvarpslög líta dagsins ljós. Því bið ég þingmenn að sjá svo til að þetta frv. verði að lögum um leið og ég legg til, virðulegi forseti, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.