Útvarpslög

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 18:48:00 (4633)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Menningarmál eru ekki oft á dagskrá þingsins og er sannarlega tími til kominn að ræða stofnanir eins og Ríkisútvarpið, hlutverk þess og stöðu. Hv. síðasti ræðumaður komst svo að orði að með þessu frv. væri verið taka bút af útvarpslögunum og nema á brott. Það kann að vera svo brýnt að taka fyrir einstaka hluta útvarpslaganna sem og annarra laga að það megi ekki bíða því að meðan það dregst að útvarpslögin séu endurskoðuð rennur sífellt fé frá Ríkisútvarpinu til Menningarsjóðs útvarpsstöðva. Það sem mér finnst vera mergurinn málsins er að Ríkisútvarpið ber skarðan hlut frá borði þegar rýnt er í reytur sjóðsins.
    Hugmyndin um Menningarsjóð útvarpsstöðva var góð í upphafi. Að hluta til var reynt að leysa þann vanda hvernig ætti að reka Sinfóníuhljómsveit Íslands og þar var einnig hugmyndin að efla innlenda dagskrárgerð. Ég á ekki von á því að menn hafi búist við að Ríkisútvarpið fengi jafnlítið úr þessum sjóði og raun ber vitni. Því er ekki að furða að þeir sem starfa við Ríkisútvarpið og eru þar í forsvari séu býsna óánægðir með það hvernig sjóðurinn hefur reynst.
    Eins og hefur komið fram þá virðist sem sú reglugerð sem unnið er nú eftir sé ekki í samræmi við lögin. M.a. hefur Ríkisendurskoðun gefið frá sér það álit að sjóðurinn hafi færst mjög frá upphaflegu hlutverki sínu og leggur til að lögum um hann verði breytt. Það var ekki hlutverk sjóðsins að styrkja almenna kvikmyndagerð eða dagskrárgerð kvikmyndagerðarmanna eins og þeir virðast halda af þeim skrifum sem hafa átt sér stað í blöðum að undanförnu. En það eru einkum þeir sem risið hafa upp þessum sjóði til varnar. Ég held að þeir talsmenn útvarpsstöðvanna sem ég hef heyrt ræða þetta mál séu allir á þeirri skoðun að þessu eigi að breyta. Ég vil taka undir það sem fram kom í máli flm. að sú aðferð sem er notuð, að safna peningum í sjóð og deila svo út til ákveðinna verkefna, er að mínu mati heldur leiðinleg og óþörf miðstýring. Því miður virðist tilhneigingin vera sú að fara þessa leið, samanber þá breytingu sem átti sér stað á síðustu fjárlögum þar sem ýmsum upphæðum sem varið hafði verið til menningarmála, leiklistarstarfsemi, var safnað saman í einn sjóð í stað þess að t.d. Alþýðuleikhúsið var áður með ákveðna fjárveitingu og gat þar með áður ráðið því til hvers það fé var notað. En hér úthlutar ákveðin nefnd styrkjum til verkefna. Þetta tíðkast svo sem á ýmsum stöðum eins og þegar verið er að styrkja

vísindaverkefni og fleira slíkt en það á ekki alls staðar við.
    Vandamálið í því máli sem er til umræðu er auðvitað hvað eigi að gera varðandi Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég fæ ekki betur séð en ýmsar leiðir séu færar til þess að styrkja stöðu Sinfóníuhljómsveitarinnar sem ég vil ekki á nokkurn hátt rýra. Standa mætti að rekstri hennar í aukinni samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Þar hafa sveitarfélögin mörg hver verið heldur treg. Síðan má auðvitað hugsa sér að Sinfóníuhljómsveitin sé bara ósköp einfaldlega á fjárlögum eins og aðrar menningarstofnanir en jafnframt sé leitað leiða til þess að auka sértekjur hennar eins og er nú afar vinsælt hjá ríkisstjórninni. Miklar skyldur hvíla á Sinfóníuhljómsveitinni gagnvart uppeldisstarfi í landinu og tónleikaflutningi þannig að ég tel ekki óeðlilegt að hún fái 100% stuðning ríkisvaldsins.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Ég er einn af flm. og ég er þar af leiðandi fylgjandi því sem hér er lagt til. Það þarf ekki að taka það fram. Ég tel afar brýnt að þetta mál verði skoðað nú þegar til þess að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins fyrst og fremst, enda eins og ég nefndi áður þá ber það skarðan hlut frá borði. Þar sem ég á sæti í menntmn. hef ég tækifæri til þess að fylgja þessu máli eftir.