Útvarpslög

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 18:55:00 (4634)

     Svavar Gestsson :
    Herra forseti. Lengi hefur verið talsverð umræða um Menningarsjóð útvarpsstöðva og út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt við það að ítarleg umræða sé um það mál, en nauðsynlegt er að ræða það dálítið. Ekki er hægt að taka á þessu máli með léttvægum hætti eins og mér finnst satt að segja stundum gert þegar verið er að fjalla um menningarsjóðinn.
    Í fyrsta lagi er rétt að rifja upp að sjóðurinn var pólitísk samkomulagslausn þáv. stjórnarflokka sem stóðu að afgreiðslu útvarpslaganna 1985, Framsfl. og Sjálfstfl. Framsfl. lagði mjög mikla áherslu á þetta atriði. Fyrst og fremst var það vegna þess að verið var að opna fyrir starfrækslu nýrra útvarpsstöðva sem menn töldu að yrðu efnalitlar, hefðu takmarkaða fjármuni, yrðu að lifa af auglýsingum en ekki áskriftargjöldum eins og áður hafði verið talað um. Þegar áskriftargjaldahugmyndin datt út fóru menn að ræða möguleikana á því að stofna sjóð til þess að styrkja menningarlega dagskrá þessara nýju stöðva. Menn voru ekki síst með þær í huga, það er ekki hægt að neita því. Niðurstaðan af því hefur náttúrlega því miður orðið sú að ekki hefur alltaf farið mjög mikið fyrir menningarlegri dagskrá í þessum nýju útvarpsstöðvum, svo ég kveði nú ekki fastar að orði um þær. Sú popptónlistarsíbylja sem þar gengur daginn út og daginn inn á kannski lítið skylt við þau metnaðarfullu markmið sem menn höfðu þegar lögin um menningarsjóðinn voru sett á sínum tíma.
    Það breytir hins vegar ekki því að sú grunnhugsun sem er í menningarsjóðsákvæðum útvarpslaganna á út af fyrir sig rétt á sér þó að í raun og veru hafi menn aftur og aftur gefist upp við að framkvæma hana almennilega. Mín niðurstaða í málinu er sú að það eigi að bæta menningarsjóðinn og styrkja. Við þurfum að eiga menningarsjóð sem hefur tiltölulega mjög víðtæk verkefni, bæði til framleiðslu á dagskrá og einnig til útgáfustarfsemi, metnaðarmikillar útgáfustarfsemi með margvíslegum hætti. Nauðsyn þess sést kannski best þegar fólk er núna einmitt um þessar mundir að fjalla sérstaklega um menningarsjóð og menntamálaráð og stöðu þeirra stofnana.
    Ég hef satt að segja heldur ekki heyrt nein frambærileg rök fyrir því að það sé nauðsynlegt að leggja Menningarsjóð útvarpsstöðva niður, að það leysi einhvern vanda. Ég er þó tilbúinn til að taka þátt í því að leggja sjóðinn niður ef menn sannfæra mig um það með rökum að það sé í raun skynsamlegt vegna þess að ég tel að þetta sé ekkert heilagt fyrirbrigði, mjög langt frá því. Ég tók þátt í því sjálfur, ég hygg að það hafi verið veturinn 1990, að flytja stjfrv. til útvarpslaga þar sem ég gekk til samkomulags við þáv. stjórnarflokka, Alþfl. og Framsfl., um það að fella ákvæðin um menningarsjóð niður. Það var gert þá og ég get ekki neitað því að mér var það tiltölulega nauðugur kostur að ganga að því samkomulagi eins og að því var staðið á sínum tíma. Það sem í raun og veru réð úrslitum um það var að við tókum jafnframt ákvörðun um að flytja brtt. við lögin um Sinfóníuhljómsveit Íslands sem gerði ráð fyrir að hún fengi auknar tekjur úr ríkissjóði með beinum hætti en að þrátt fyrir þessa niðurfellingu yrði engu að síður skipulagstengsl á milli Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Það held ég að sé mjög mikilvægt atriði og ég tek fyllilega undir það sem fram kom hér í máli hv. 5. þm. Norðurl. v. að ég held að við eigum að stuðla að skipulagstengslum á milli Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Ríkisútvarpsins þannig að báðir aðilar finni að þeir eigi skyldur við hinn. Og ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir þá sem vilja flytja mál Ríkisútvarpsins að þeir muni eftir því að Ríkisútvarpið er nú einu sinni bæði faðir og móðir Sinfóníuhljómsveitarinnar og í rauninni væri mikið skynsamlegra að þessu leytinu til að ganga lengra og segja: Við skulum skoða með hvaða hætti hægt er að tengja menningarlegt framlag þessara menningarstofnana ríkisins, þ.e. Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Ríkisútvarpsins og Þjóðleikhússins, sem hér var einnig nefnt áðan, betur saman en nú er gert. Það tel ég vera betra en að fella lagaákvæðin niður eins og hér er gerð tillaga um. Ég get sagt fyrir mitt leyti og tek það fram að ég er ekkert að tala fyrir minn flokk í þeim efnum. Ég veit ekki hvaða skoðun menn hafa þar á þessu máli.
    Ég get ekki stutt þetta frv. eins og það lítur út. Mér finnst það yfirborðskennt og mér finnst ekki hægt að flytja frv. um að strika út Menningarsjóð útvarpsstöðva án þess að flytja um leið frv. um að taka á málefnum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ég get ekki tekið þátt í því og ég segi þetta af biturri reynslu. Segjum nú að þetta frv. yrði samþykkt á þessu þingi. Halda menn þá að það sé gefið mál að Sinfóníuhljómsveitin fengi þessa peninga á næsta ári úr ríkissjóði? Mitt svar er nei. Sinfóníuhljómsveit Íslands er svo veik að hún hefur mörg undanfarin ár reynt að styrkja sig t.d. með því að fjölga hljóðfæraleikurum og annað þess háttar og þó að það hafi komið ágæt hugmynd fram á Alþingi fyrir nokkrum árum um að hver hljóðfæraleikari reyndi að spila á a.m.k. þrjú hljóðfæri í sparnaðarskyni þá hefur Alþingi fátt annað gott lagt til hljómsveitarinnar og staðreyndin er sú að Sinfóníuhljómsveitin er alveg á mörkum þess að geta staðið undir þeim tónlistarlega metnaði sem hún á að byggja starf sitt á og þarf að smita út til landsins alls og þjóðarinnar allrar. Og það gerir sinfónían auðvitað ekki ef hún yrði vængstýfð með þeim hætti að kippa af henni 20--30 millj. kr. eða hvað það nú er sem menn eru að tala um, sem eru kannski 15--20 stöðugildi. Hvað mundi núv. ríkisstjórn segja við Sinfóníuhljómsveitina þá? Hún mundi segja: Farið út á hinn almenna markað og reynið að selja ykkur og einkavæða enn þá frekar en gert hefur verið. Við núverandi aðstæður treysti mér því alls ekki til að standa að því að styðja frv. af þessu tagi. Og þá er ég ekkert að drepa málinu á dreif. Ég segi þetta hreint út.
    Ég teldi út af fyrir sig langeðlilegast að þetta yrði athugað í tengslum við endurskoðun útvarpslaga. Ég verð hins vegar að segja það að ég tel að endurskoðun útvarpslaga sé nú eitt vandamálið út af fyrir sig. Það er ekki einfalt mál að koma hingað með endurskoðun útvarpslaga og tala ég af biturri reynslu. Ég kom með frv. um endurskoðuð útvarpslög í heild vorið 1990 og niðurstaðan varð sú að menn voru ekki tilbúnir til þess að afgreiða það. Ég tel að það hafi aðallega verið eitt atriði sem menn þoldu ekki í þáv. stjórnarflokkum og ekki stjórnarandstöðunni heldur, a.m.k. ekki í Sjálfstfl., og það var að ég lagði til að leggja niður útvarpsráð vegna þess að ég var þeirrar skoðunar að það eigi ekki að hafa hlutina þannig að pólitískir flokkar séu að ráða því hvernig dagskrármálum eða ýmsum öðrum slíkum atriðum er skipað hjá Ríkisútvarpinu. Ég fann það þá að það var eins og þessi klúbbur, sem lengi hefur verið, ágætra manna, karla og kvenna sem verið hafa í útvarpsráði og hér eru tveir menn ekki langt frá mér sem hafa einhvern tíma verið þar og eru kannski enn þá, mátti ekki heyra þetta nefnt. Og það versta við þessa andstöðu sem var ekki síst í Framsfl. --- svo ég rifji upp viss atriði sem ég hafði nú reyndar hugsað mér að geyma til ævisögu minnar sem kemur út á næstu öld --- en það var ekki síst þannig í Framsfl. að þessi andstaða var neðanjarðar. Menn þorðu aldrei að standa upp og segja: Lengi lifi útvarpsráð, heldur reyndu menn að ýta þessu frv. frá sér með alveg ótrúlegustu æfingum út og suður, aðallega út af þessu. Þetta er auðvitað alveg eins t.d. með aðra stofnun sem heitir þjóðleikhúsráð. Það er auðvitað fullkomlega fráleitt að flokkarnir

séu að kássast í því að tilnefna fulltrúa í þjóðleikhúsráð. Það er mín skoðun og hefur lengi verið. Ég tel að menningarlegar stofnanir eigi að vera sjálfstæðar stofnanir, þær eigi að hafa tiltekinn peningaskammt frá ríkinu eða afnotagjöldum eða hverju sem er og svo punktur. Svo á ríkið og þingið sérstaklega ekki að vera að blanda sér í málið í smáatriðum. Það á að hætta því. Það er afar vitlaust kerfi.
    Það sem hv. flm. segir að sé aðalatriðið í þessum tillögum er það að ef þessi 10% auglýsingaskattur verði afnuminn þá muni framlögin eiginlega hækka um leið til dagskrárgerðarinnar. En ég verð að segja hv. þm. að þetta er misskilningur. Í fyrsta lagi vegna þess að það er ekki tryggt að þessir peningar kæmu til Ríkisútvarpsins, nettó á ég við, vegna þess að þetta mundi að einhverju leyti hafa í för með sér lækkað verð á auglýsingum, það er ljóst. Í öðru lagi er það þannig að ef Ríkisútvarpið fengi stórauknar tekjur af auglýsingum, eitthvað upp í þessi 10%, kannski 7% eða 8%, hvað gerist þá? Þá hækkar afnotagjaldið einfaldlega minna. Þá er einfaldlega haldið í við Ríkisútvarpið þeim megin af vísitöluástæðum, eins og það hét hér fyrr á öldinni, verðlagsástæðum. Þetta er svona. Og þetta er veruleiki sem þeir, sem hafa unnið hjá Ríkisútvarpinu eða verið í útvarpsráði, verða að gera sér grein fyrir.
    Þeir fjármunir, sem hér er verið að tala um, eru reyndar líka svo litlir þegar upp er staðið. Staðreyndin er sú að þegar við komum að þessum málum í september 1988 var launaskuld Ríkisútvarpsins hjá ríkissjóði 350 millj. kr. sem íhaldið skildi eftir sig af stjórnvisku sinni, 350 millj. kr. Og hvað var gert? Afnotagjaldið var hækkað og niðurstaðan varð sú að Ríkisútvarpið hefur núna frá árinu 1988 og allt til þessa dags verið með í rauntekjur á annað hundrað millj. kr. meira á ári en það hafði á næstu árum þarna á undan út af þessum hækkunum. Þannig er það mikið meira atriði fyrir Ríkisútvarpið að menn reki skynsamlega afnotagjaldapólitík og haldi þannig á þessum málum. Það væri mikið nær, virðulegi forseti, að gera tillögu um að leggja þetta menningarsjóðs-, útvarps- og auglýsingagjald á alla, Moggann líka, því að ein rökin eru þau að þetta veikir samkeppnisaðstöðu útvarpsstöðva á auglýsingamarkaði þar sem aðrir fjölmiðlar bera ekki slíkan skatt. Þetta er alveg rétt. En svarið er að mínu mati ekki það að lúffa. Svarið er að leggja á auglýsingaskatt á auglýsingar í öllum fjölmiðlum í landinu, láta þá fjármuni renna í myndarlegan menningarsjóð sem styður framleiðslu á svona efni, útvarpsefni, sjónvarpsefni og stöðvarnar líka og meiri háttar dýrar útgáfur sem menn eru að basla við í stórum stíl að koma frá sér við afskaplega erfiðar aðstæður og eru að setja á hausinn alls konar prýðileg útgáfufyrirtæki. Þess vegna finnst mér að í þessu frv., eins og það lítur út, felist undanhald. Menn eiga ekki að gefast upp í þessu efni heldur eiga þeir að leggja þennan auglýsingaskatt á Morgunblaðið líka. Þá fer að verða til sjóður sem getur borgað eitthvað fyrir menningarlega starfsemi í þessu landi og þá er líka jafnréttið komið sem flm. eru að biðja um. Þá er jafnréttið komið en að er bara tekið aðeins öðruvísi og miklu skynsamlegra að fara svona í það frá almennu menningarlegu sjónarmiði.
    Ein ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs, virðulegi forseti, var sú að ég heyrði að vitnað í alveg makalausa greinargerð frá nokkrum lögfræðingum um að tiltekin reglugerð væri ólögleg og ég fór og las þessa greinargerð. Hv. 5. þm. Norðurl. v. var svo vinsamlegur að leyfa mér að kíkja í þetta plagg. Og hvað er það sem þeir segja í þessari greinargerð? Jú, þeir vitna náttúrlega í útvarpslögin --- og í hvað vitna þeir? Þeir vitna í 11. gr., 2. mgr. Þar segir:
    ,,Af gjaldi þessu skal greiðast hlutur Ríkisútvarpsins af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sbr. lög nr. 36/1982, áður en til úthlutunar á styrkjum til útvarpsstöðva kemur.``
    Þetta er tilvitnunin. Og þetta er eina tilvitnunin. Þessir miklu lögspekingar sem skrifa þessa greinargerð, kannski fyrir Ríkisútvarpið eða ég veit ekki fyrir hverja, Jón Steinar Gunnlaugsson og Baldur Guðlaugsson, geysilega fínir pappírar í lögmannastétt, sleppa því að vitna í tilgangsgrein laganna um Menningarsjóð útvarpsstöðva þar sem undirstaðan undir sjóðnum er ákveðin eins og hv. 2. þm. Vestf. veit og er einn af höfundum þessa merka máls. En í 10. gr. stendur, með leyfi forseta:

    ,,Hlutverk Menningarsjóðs útvarpsstöðva er að veita framlög til eflingar innlendri dagskrárgerð, þeirri er verða má til menningarauka og fræðslu.``
    Á þessu lagaákvæði er reglugerðin byggð sem er gefin út af mér 9. apríl 1991, undirrituð ásamt mér af Árna Gunnarssyni, skrifstofustjóra í menntmrn. þannig að ég tel að það sé auðvitað hafið yfir allan vafa að þessi reglugerð styðst við lög. Mér finnst Ríkisútvarpið leggjast fyrir lítið, þessi mikla tveggja milljarða stofnun, að reyna að sækjast eftir þessum smáaurum með svona lagalegum æfingum. Ríkisútvarpið er svo stór og menningarleg stofnun að það þarf ekki að vera í æfingum af þessu tagi. Það væru frekar þessar litlu stöðvar sem þyrftu að skoða svona hluti en Ríkisútvarpið. Það er fyrir neðan virðingu Ríkisútvarpsins að vera að reyna að sækja peninga með þeim hætti sem hér er gert.
    Ég sé að hv. 18. þm. Reykv., sem er að fara á sinfóníutónleika, er að verða nokkuð ókyrr og það er ég farinn að verða líka því að ég á að vera mættur þarna sömuleiðis. En ég held nú samt áfram og spyr hv. flm.: Hafa þeir gert sér grein fyrir því að samkvæmt þessu frv. sem þeir flytja er verið að höggva á lagaleg tengsl Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Ríkisútvarpsins? Hafa þeir gert sér grein fyrir því? Það er ekki bara verið að leggja niður menningarsjóðinn heldur er verið að fella úr gildi einu greinina í útvarpslögunum sem kveður á um þessi tengsl, því að í 11. gr., síðustu mgr. segir:
    ,,Sinfóníuhljómsveitinni er rétt að gera samning við Ríkisútvarpið um réttindi þess varðandi flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar gegn eðlilegu gjaldi og sé í samningunum miðað við þá hefð og venjur sem í þeim efnum hafa mótast á undanförnum árum.``
    Það er alveg augljóst mál að ef þetta frv. yrði samþykkt þá væru menn í raun og veru að höggva á hin einu skipulagslegu tengsl sem um er að ræða milli sinfóníunnar og útvarpsins þannig að ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér finnst þetta ekki mjög gott frv. eins og menn hafa kannski heyrt. Og í grg. frv. eru svo röksemdir sem er óskaplega skrýtið að fá frá félagshyggjufólki. Það er allt í lagi að fá svona frá íhaldinu en þegar stendur hér: ,,Þá eru útvarpsstöðvarnar að tvígreiða fyrir efnið af auglýsingatekjum sínum, fyrst með styrknum úr Menningarsjóðnum og síðan aftur þegar þær kaupa efnið af framleiðanda.`` Auðvitað er það þannig hjá lítilli þjóð að hún verður að taka sig saman um tiltekin verkefni eins og t.d. að framleiða sjónvarpsefni, útvarpsefni o.s.frv. og leggja kannski á einhverja skatta og mynda einhverja sjóði í því skyni. Þá getur auðvitað farið svo að menn tvíborgi og þríborgi einhverja hluti. En aðalatriðið er þó það að hérna eru menn að ná tilteknum markmiðum.
    Ég viðurkenni það að lokum, virðulegi forseti, ég tel að framkvæmdin að því er varðar þennan sjóð hafi ekki tekist nógu vel. Ég tel einnig, virðulegi forseti, að það sé nauðsynlegt að það komi fram að frammistaðan við að rukka stöðvarnar um þetta gjald hefur ekki verið nægilega góð. Á mínum tíma í ráðuneytinu fyrir fáeinum missirum ákvað ég að gerðar yrðu ráðstafanir til að sækja þessa fjármuni með lögum og að stöðvunum yrði lokað ef þær borguðu ekki og að þetta yrði gert á grundvelli og með svipuðum hætti og gildir um almenna innheimtu opinberra gjalda, m.a. virðisaukaskatt og söluskatt. Ég veit ekki hvernig eftirmaður minn hefur fylgt þessu eftir, en auðvitað á að ganga þannig fram í þessum málum að allir sitji við sama borð og menn borgi þetta undanbragðalaust svo lengi sem þetta er í lögum.
    Þetta vildi ég segja, virðulegi forseti, og ætla ég að láta máli mínu lokið að sinni en ég verð að láta þá von mína í ljós að frv. í óbreyttum búningi verði ekki afgreitt á yfirstandandi þingi.