Lyfjatæknaskóli Íslands

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 13:52:00 (4639)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegur forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til að láta það koma fram að ég styð frv. Ég tel að full rök séu fyrir því að flytja Lyfjatæknaskólann yfir í menntmrn. nú og þó fyrr hefði verið. Fyrir því eru aðallega fagleg rök, þ.e. þau sömu og eiga við sérskólana yfirleitt eins og þeir hafa þróast og skóla á vegum atvinnuveganna eða atvinnuvegaráðuneytanna. Ástæðan er auðvitað fyrst og fremst sú að með þeirri skipan, að vera með skóla inni í fagráðuneytunum, er hætta á að þeir lokist af og það myndist þar einstigi og blindgötur. Aðalrökin fyrir að flytja skóla yfir í menntmrn. yfirleitt hafa verið þau að með því sé hægt að tryggja að skólarnir séu hluti af almennu samfelldu og opnu skólakerfi, hvort sem það er á framhaldsskóla- eða háskólastigi. Þess vegna hafa menn fyrst og fremst af faglegum ástæðum en ekki fjárhagslegum verið sammála um að það væri eðlilegt að skólar heyrðu undir menntmrn. Og þess vegna hafa menn á undanförnum árum verið að flytja margvíslega skóla þangað eins og Þroskaþjálfaskólann, Lyfjatæknaskólann nú og fleiri slíka skóla. Ég held að menn verði að átta sig á afleiðingunum ef það er ekki gert. Segjum að það yrði horfið að þeirri stefnu að flytja alla skólana yfir til viðkomandi fagráðuneyta þannig að Hjúkrunarskólinn t.d. og námsbraut í hjúkrunarfræðum jafnvel líka færu til heilbrrn., að bændaskólarnir yrðu áfram hjá landbrn., að Fiskvinnsluskólinn og stýrimannaskólarnir flyttust til sjútvrn. o.s.frv. Hvaða afleiðingar hefði það í för með sér? Þær afleiðingar að menntmrn. yrði ráðuneyti latínuskólanna, ráðuneyti

bóknámsskólanna smátt og smátt í mjög þröngum skilningi, sem verður til þess að þilið, stálþilið, sem stundum hefur verið talað um á milli skóla annars vegar og annars atvinnulífs hins vegar verður enn þá erfiðara að brjóta niður.
    Þess vegna eru fyrir því bæði almenn þjóðfélagsleg, fagleg og efnahagsleg rök að fella þetta allt undir sama ráðuneytið án þess að ég sé að segja að neitt sé á móti því að ræða málið af og til vegna þess að það er ekki sjálfgefinn hlutur heldur eiga menn alltaf að spyrja sig þeirrar spurningar: Er það rétt eða rangt?
    Ég hef komist að þessum niðurstöðum af almennum faglegum skólapólitískum ástæðum. Hitt er svo rétt, sem kom t.d. fram hér í ágætum athugasemdum hv. 10. þm. Reykv., að auðvitað er hætta á því að með þessum móti verði heildarskólakerfið í landinu of miðstýrt ef ekki gerist annað um leið, þ.e. að fræðsluumdæmin á grunnskólastigi verði sjálfstæðari og að hver framhaldsskóli verði sjálfstæðari sem menntaeining en hann er núna. Þarna er afar vandratað meðalhófið og full ástæða til að hafa í huga þá miðstýringarhættu sem hv. 10. þm. Reykv. nefndi hér áðan. En ég held að menn þurfi að átta sig á því að fyrir því liggja almenn fagleg skólapólitísk rök að menn hafa viljað færa þessa þætti saman.
    Ég segi það líka, virðulegur forseti, af reynslu að ég efast um að skólum sé betur borgið í fagráðuneytum. Ég efast t.d. um að lyfjatæknanám og Þroskaþjálfaskóli séu betur komnir í heilbrrn. með fullri virðingu fyrir því. Ég þekki það ráðuneyti dálítið, ég var þar um skeið. Því miður var það svo að þessar stofnanir sem eru utan við hið almenna starfssvið ráðuneytisins fengu ekki sömu umhirðu og ráðherrann eða embættismennirnir hefðu viljað. Aftur á móti falla þessir skólar, eins og þessir tveir, að hinu almenna starfi í menntmrn. Hitt er líka rétt að hætta er á því að inn í menntmrn. veljist starfsmenn sem eru af hinum bóklegu sviðum fyrst og fremst og er þess vegna erfitt að fá þá til þess að sinna hinum verklegu þáttum eins og þarf að gera.
    Mér finnst aðalgallinn við frv. vera sá að ekki liggur enn þá fyrir hvað á að verða um ljósmæðranámið. Við fengum í nefndinni ekki miklar upplýsingar um það og þær hafa ekki legið fyrir. Þær lágu ekki fyrir á síðasta löggjafarþingi eða næstsíðasta þegar um málið var fjallað. Og ég held að það sé ástæða til að nota tækifærið fyrst hæstv. menntmrh. er hér viðstaddur og inna eftir því hvort hann hefur sérstaklega fjallað um það mál. Ég er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegast að ljósmæðranámið verði rekið í beinum starfstengslum við námsbraut í hjúkrunarfræðum við Háskóla Íslands. En þar hefur ekki verið unnin nauðsynleg skipulagsvinna að mínu mati. Það væri því fróðlegt að vita hvort eitthvað nýtt hefur gerst í því af því að við erum svo heppin að hafa hæstv. menntmrh. hér viðstaddan umræðuna.
    Ég vil hins vegar segja í sambandi við lyfjatæknanámið að ég er nokkurn veginn sannfærður um að það er betra fyrir lyfjatæknanámið og getur gert það enn þá virkara ef það er sett inn í tvo til þrjá framhaldsskóla en ekki miklu fleiri. Rætt hefur verið um að bjóða upp á lyfjatæknanámið t.d. í Ármúlaskólanum eða Menntaskólanum við Hamrahlíð eða í báðum skólunum. Ég er nokkuð viss um að með því móti yrði mögulegt að kalla fleira ungt fólk inn í það nám en nú er þar sem skólinn er tiltölulega einangraður og tiltölulega fáir sem vita af honum. Ég held að skólinn mundi opnast fyrir allmörgum einstaklingum á framhaldsskólastigi ef hann flyst til með þessum hætti. Þetta yrði hluti af framhaldsskóla með tilteknum hætti samkvæmt námsskrá sem yrði gefin út á grundvelli samstarfssamninga við viðkomandi lyfjastofnanir. Ég er nokkuð sannfærður um að ef eðlilega yrði staðið að þessu af hálfu menntmrn. yrði það lyfjatæknanáminu til góðs að tengjast öðru framhaldsskólanámi. Því unga fólki sem færi í þetta nám á komandi árum mundi fjölga. Þess vegna styð ég frv. með tiltölulega góðri samvisku sem þarf út af fyrir sig ekkert að koma á óvart vegna þess að ég stóð að flutningi svipaðra frv. síðustu tvö ár.
    Ástæðan til þess --- út af orðum hv. 10. þm. Reykv. --- að málið fékkst ekki afgreitt. Satt að segja þekki ég ekki hin efnislegu rök fyrir því, ég verð að viðurkenna það. Ég veit ekki af hverju það var ekki afgreitt á tveimur síðustu þingum. Ég hygg þó að ástæðan hafi verið sú að menn hafi ekki talið sig hafa nægilegan tíma til að setja sig inn í málin í einstökum atriðum. Ég man ekki betur en að á síðasta þingi hafi málið lent í undandrætti og menn hafi ýtt því dálítið til hliðar í meðferð þingnefndarinnar sem mig minnir að hafi verið háttvirt heilbr.- og trn. efri deildar án þess að ég geri lítið úr efri deild því hún var, eins og allir vita, einhver allra merkilegasta deild þingsins frá því að sögur hófust. Ég held að menn hafi kannski ekki lagt mjög ítarlega vinnu í málið án þess að ég sé að gera lítið úr starfi nefndarinnar og því hafi það ekki verið efnislegur dómur sem fólst í afstöðu nefndarinnar. Ég hef a.m.k. aldrei heyrt það fyrr en hv. 10. þm. Reykv. ýjaði að þeim möguleika hér áðan.
    En eins og ég sagði, virðulegur forseti, þá stend ég að frv., ásamt öðrum þingmönnum.