Lyfjatæknaskóli Íslands

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 14:06:00 (4642)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara hér í langar og miklar rökræður um menntun í landinu og hvernig henni skuli almennt fyrir komið. Enda var það ekki markmiðið með því sem ég sagði hér áðan. Markmiðið var öðru fremur að reyna að vekja menn til umhugsunar um hvort stefna, þótt mörkuð hafi verið af ráðuneytum einhvern tímann á fyrri árum, sé endilega sjálfgefin og sjálfsögð þótt um hana sé sæmileg sátt á þingi og í samfélaginu. Mér finnst að maður hljóti alltaf að taka slíka hluti til endurskoðunar og skoða þá gagnrýnum augum en ekki að hafa þá fyrir satt eins og er býsna algengt.
    Hv. 9. þm. Reykv., fyrrv. menntmrh., taldi að faglegar ástæður væru fyrir þessum flutningi menntunar til í menntrmn. og faglegar ástæður gerðu það að verkum að hann styddi þetta mál. Það eru auðvitað að mörgu leyti góð og gild rök sem hann færði hér. Ein voru þau rök, sem ég get ekki alveg fallist á, að hætta væri á að menntun lokaðist inni í fagráðuneytunum og að nemendur lentu á blindgötum í sérnámi ef það væri inni í fagráðuneytum. Ég held að vel megi koma í veg fyrir slíkt með mati, með samræmdu mati, þannig að menn fái bara ákveðið mat og síðan prjóni þeir alltaf við það. Menntun er að verða svo fjölbreytt í okkar samfélagi að við hljótum alltaf að þurfa --- ja, hugsanlega að fara eitthvað til baka ef við viljum mennta okkur á nýjum sviðum eða prjóna við það sem við höfum fyrir. Þetta er sífelldum breytingum undirorpið. Ég get ekki séð að það eitt að hafa námið inni í fagráðuneytum skapi þessar blindgötur eða loki menntunina inni. Það má koma í veg fyrir það með ýmsum aðferðum.
    Hv. 9. þm. Reykv. sagði: Afleiðingin af því að menntun væri í fagráðuneytunum yrði sú að menntmrn. yrði í raun og veru ráðuneyti latínuskólanna gömlu og það kæmi upp stálþil milli fagmenntunar eða verkmenntunar og svokallaðrar, ef við getum sagt sem svo, æðri menntunar. Þetta kann vel að vera rétt en ég að held megi draga það í efa að þessi samþætting sem hefur verið rekin í samfélaginu á nánast öllum sviðum og hefur þótt af hinu góða á undanförnum árum, skili sér alltaf til hagsbóta fyrir það sem samþætta á hinu ,,normala`` ef við getum sagt sem svo, það á að samþætta verkmenntunina bókmenntuninni. Markmiðið er að styrkja verkmenntunina með því að samþætta hana bókmenntunum. Ég er ekki viss um að það sé verkmenntuninni til hagsbóta og ég er ekki viss um að það þurfi endilega að skila sér í betri fagmenntun og í því að fleiri sæki í verknám eins og væntanlega hefur verið meiningin.
    Hæstv. menntmrh. skildi víst fæst af því sem ég sagði hér áðan og ætla ég ekkert að elta ólar við það. Ég hélt að það hefði ekki verið svo flókið sem ég hafði hér fram að færa. Ég var öðru fremur að reyna að varpa fram hugmyndum til umhugsunar og segja frá mínum efasemdum. Ég var ekki með neinar fullyrðingar um að gæði verkmenntunar færu minnkandi vegna þess að hún hefði farið inn í ráðuneytið. Ég sagði að þetta væri eitt af því sem mætti skoða. Ég óttast að þetta hafi hugsanlega leitt til of mikils sparnaðar í menntakerfinu og er eitt af því sem við verðum að skoða. Ég var ekki að fullyrða það en ég varpa þessu hér fram til umhugsunar.