Lyfjatæknaskóli Íslands

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 14:22:00 (4646)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla út af fyrir sig ekki að gera mikið mál úr því hvernig blómin blómstra í jurtagarði Kvennalistans. En það kemur mér satt að segja dálítið undarlega fyrir sjónir í flokki, í þessu tilviki Kvennalistinn sem hefur m.a. látið sig varða hin mjúku mál og undir þau hef ég talið að fræðslumálin féllu, skuli ekki vera talað skýrar en raun ber vitni hér. Ég hélt að það hlyti að vera kappsmál þeirra, sem hefðu borið hin mjúku mál eða mjúku gildi fyrir brjósti, að reyna að koma þeim málum þannig fram í sambandi við Alþingi og stefnumörkun að það lægi nokkurn veginn skýrt fyrir hvert verið væri að halda. Ég sé ekki annað en þarna sé talað í austur og vestur í sambandi við þessi efni miðað við þau mál sem hafa verið til umræðu og varða nákvæmlega þetta, hvernig við högum uppbyggingu í stjórnkerfi okkar og Stjórnarráðinu að því er varðar fræðslumálin almennt séð. Það er nú svo að mér sýnast fleiri mál vera komin á nokkra dreif hjá þeim ágæta flokki, sem einn fulltrúi var hér að mæla fyrir, en ég ætla ekki að gera það að umræðuefni hér.