Lyfjatæknaskóli Íslands

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 14:49:00 (4653)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að margt mjög athyglisvert hafi komið fram í ræðu hv. 9. þm. Reykn. sem mér finnst ástæða til að taka undir að mörgu leyti. Ég vil benda á að það er einmitt í þessum námskeiðum, sem hv. þm. nefndi, sem frelsið og atvinnulífið fær að njóta sín. Þar geta menn ráðið því sjálfir hvernig þeir skipuleggja námskeiðin og selt þau dýrum dómum á okurverði og fólk fær sáralítið út úr þeim.
    Það sem skiptir hins vegar máli er ekki síður það sem fram kom hjá hv. þm. að til þess að ná eðlilegum starfstengslum milli skólanna og atvinnulífsins þarf að skipuleggja með virkum hætti starfs- og námsráðgjöf. Það verkefni er hafið. Ráðnir hafa verið til starfa í grunnskólunum nokkrir námsráðgjafar í fyrsta sinn og þeir hafa verið að störfum áfram. Hins vegar hefur núv. ríkisstjórn því miður tekið um það ákvörðun að fella úr gildi þá áfangamörkun sem fólst í grunnskólalögunum varðandi ráðningu náms- og starfsráðgjafa. Ég held að virk náms- og starfsráðgjöf sé lykill að betri grunnskóla og framhaldsskóla, betri tengslum á milli þessara skóla og betri tengslum á milli skólanna almennt og atvinnulífsins.