Staða kjarasamninga

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 15:32:00 (4660)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tjáði hv. málshefjanda það að ég teldi að umræður hér og nú um þessi atriði væru ekki í þágu þeirra kjaraviðræðna sem standa yfir og eru á afskaplega viðkvæmu stigi, eins og það er kallað. Það má lesa það út úr orðum þeirra sem mest brennur á í þessum viðræðum að þar geti dregið til úrslita á næstu sólarhringum.
    Ríkisstjórnin hefur auðvitað fylgst náið með samningaviðræðunum og átt fjölmarga fundi með helstu talsmönnum og hefur fjallað um öll þau atriði sem frá báðum aðilum eða öllum aðilum hafa komið. Það er ljóst og hefur verið sagt áður að ríkisstjórnin vill og mun koma inn í þessa samningagerð á allra síðustu stundu þegar ljóst er að til samninga dregur. Við höfum hins vegar sagt og leggjum á það mikla áherslu að við viljum ekki taka þann þátt í þessum viðræðum sem leiðir til að þær grundvallarforsendur, sem við teljum að verði að vera fyrir hendi í landinu, séu grundvallarforsendur kjarasamninga, grundvallarforsendur stöðugs gengis, stöðugleika, vaxtalækkunar og þar með skjóls fyrir atvinnulífið, raskist. En með þessum fyrirvörum höfum við sagt að við séum og höfum verið að skoða mjög ítarlega þá þætti sem aðilar vinnumarkaðarins hafa beint til ríkisstjórnarinnar. Ég veit að hv. málshefjandi skilur af sinni löngu reynslu og miklu þekkingu að ég get ekki hér og nú fjallað efnislega um þessa þætti, en vil aðeins taka þetta fram.