Staða kjarasamninga

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 15:46:00 (4667)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. forsrh. að samningamálin eru á viðkvæmu stigi og að sjálfsögðu ber ekki að ræða um þau þannig opinberlega að á nokkurn máta verði spillt fyrir. Ég vil hins vegar láta koma fram að ég ræddi við samningamenn áður en ég bað um þessar utandagskrárumræður og var fullviss um að ekki væri nema gott ef fram kæmi sá vilji Alþingis að það væri reiðubúið til þess að taka á þessum málum með hæstv. ríkisstjórn með því að samþykkja t.d. tillögur í heilbrigðismálum eins og hefur verið lagt til af samningamönnum og reyndar á fleiri sviðum. Þetta hefur komið hér mjög skýrt fram.
    Ég get einnig tekið undir það með hæstv. forsrh. að mikilvægt er að halda stöðugleikanum. Verðbólgan má ekki fara af stað á ný. Sömuleiðis er mikilvægt að vextir lækki og reyndar tel ég það vera forsendu fyrir því að samningar um launaliðinn megi takast eins og ég sagði áðan. Þar hygg ég að ríkisstjórnin hafi gefið grænt ljós og segi nú þvert ofan í fyrri yfirlýsingar að unnt sé að lækka vexti með handafli. Ég hef skilið hæstv. forsrh. svo að hann hyggist beita því ef það megi stuðla að kjarasamningum og því vil ég fagna. Ég harma hins vegar að forsrh. hefur á engan máta tekið undir þær kröfur og óskir launþega að lagfæringar verði gerðar á ýmsum þeim atriðum sem vega hvað harðast að velferðarkerfinu.
    Því miður er ekki tækifæri á þeim skamma tíma sem hér er til að fara yfir þær óskir sem þar hafa komið fram. Ég ætla aðeins að nefna örfá dæmi. T.d. er farið fram á það við heilbrigðisþjónustu að læknisheimsóknir til sérfræðinga, heilsugæslu og heimilislækna verði án gjaldtöku fyrir börn. Ekki er þar farið fram á mikið. Sömuleiðis er farið fram á það að gjaldtaka verði felld niður af heimsókn til heilsugæslustöðva eða til heimilislæknis. Ég hygg að flestir geti samþykkt að hér er um forvarnastarf að ræða. Ég hygg að þetta dæmi eitt sýni að þarna er hægt að bæta verulega um frá því sem hæstv. heilbrrh. og ríkisstjórn hafa ákveðið í þessum málum. Hámarksgreiðsla verði ákveðin fyrir fjölskyldur vegna læknis- og lyfjakostnaðar. Þetta er ekki nema sanngirnismál. Er ekki sanngjarnt að hámarkskostnaður, sem nú er ákveðinn vegna læknisaðstoðar, nái einnig til lyfjakostnaðar? Þannig gæti ég rakið þessa liði sem ég hef farið yfir alla nokkuð ítarlega og komist að þeirri niðurstöðu að það er rétt að vilji er það sem þarf. Ef hæstv. forsrh. er í raun reiðubúinn að setjast niður með samningamönnum og fara yfir þessa liði er ég viss um að það má finna þær lausnir sem greiða fyrir samningum og þeir megi þá takast sem allra fyrst. Það er fyrst og fremst þetta sem ég vil leggja áherslu á. Viljinn er til hjá okkur í stjórnarandstöðunni að standa að slíkum breytingum. Ég vona að hann sé einnig hjá hæstv. ríkisstjórn.