Staða kjarasamninga

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 15:50:00 (4668)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir málefnalegar umræður um þessi atriði hér og nú. Menn átta

sig bersýnilega mjög vel á því að ekki er hægt að fara út í efnislegar umræður um þessa þætti á þessu stigi. Það er sjálfsagt alveg rétt sem fleiri en einn hafa sagt hér að vilji er allt sem þarf ef vilji er mikilvægur. Það er ekki vilji eins aðila, það er vilji allra sem þarf að koma til, viljinn til samninga. Ég tel að hér hafi komið mjög skýrt fram glöggur skilningur á því meðal þingmanna sem hér hafa rætt málið. Það er afskaplega mikilvægt að samningar náist í þessari lotu þannig að traustur grundvöllur megi skapast fyrir atvinnulífið í landinu. Menn sjái hvar þeir standi og geti því lagt á ráð um frekari framvindu í atvinnulífinu þannig að skapa megi skilyrði til þess að atvinnuleysi verði ekki jafnmikið og við mörg höfum óttast. Ég vil fullvissa hv. þm., sem hér hafa talað, um að orð þeirra allra eru mikils metin og sá góði hugur sem þeir setja fram er auðvitað mikils metinn á þessari stundu og ég vil fullyrða að ríkisstjórnin mun gera sitt ýtrasta til þess að mega stuðla að því að kjarasamningarnir fái farsæla niðurstöðu. Ég ítreka þó að auðvitað þarf að gæta þess að þær grundvallarforsendur gengisstöðugleika sem við viljum skapa, skilyrði fyrir vaxtalækkun og aðrir þættir, sem ég hef áður nefnt, haldist.