Staða kjarasamninga

107. fundur
Mánudaginn 23. mars 1992, kl. 15:51:00 (4669)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Enginn ágreiningur er um það í þingsalnum að varðveita ber stöðugleikann og tryggja þann mikla árangur sem hefur náðst í baráttunni gegn verðbólgunni. En það er alveg ljóst, hæstv. forsrh., að öll samtök launafólks hafa sagt að til þess að það sé hægt þarf að breyta ýmsum þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnarmeirihlutinn tók hér á Alþingi. Mér finnst mjög leitt að hæstv. forsrh. hefur í hvorugri ræðu sinni hér í dag lýst sig reiðubúinn til þess að breyta þessum atriðum. Ef hæstv. ríkisstjórn lýsir ekki vilja sínum í dag, í kvöld eða í síðasta lagi á morgun til þess að gera slíkar breytingar, er veruleg hætta á því að upp úr samningaviðræðunum slitni. Ætlar hæstv. ríkisstjórn að verða til þess með einstrengingshætti sínum að slitni upp úr samningunum?
    Eins og hefur komið fram byrjuðum við á því strax í desemberbyrjun að hvetja ríkisstjórnina til viðræðna við verkalýðshreyfinguna og samtök launafólks um þessi atriði. Í umræðum um fjárlög 12. des. hvöttum við ríkisstjórnina til þess að taka upp viðræður við samtök launafólks. 21. des. gerðum við það sama. Aftur 21. jan. og síðan 22. jan. í afgreiðslunni á frv. sem kennt hefur verið við bandorminn. Við höfum þess vegna hér í senn fjóra mánuði hvatt ríkisstjórnina til þess að fara í viðræður við samtök launafólks vegna þess að okkur var ljóst að ekki yrði hægt að koma á þessum samningum nema ríkisstjórnin sýndi opinn hug og raunverulegan vilja til þess að breyta þeirri skerðingu á hagsmunum launafólks í velferðarmálum sem ríkisstjórnarliðið stefndi að.
    Mér hefur verið tjáð, virðulegi forseti, og ég skal ljúka máli mínu, að hugmyndir ríkisstjórnarinnar í þessum efnum snerta upphæðir sem kannski nema 20, 30 eða 40 millj. Ef ríkisstjórnin er virkilega á þeim nótum að ætla sér ekki stærri hlut í því að koma kjarasamningum í höfn er ríkisstjórnin að steypa þessu þjóðfélagi út í óvissu, jafnvel kjaraátök og koma í veg fyrir að íslenska þjóðin geti treyst þennan stöðugleika í sessi. Það væri vondur verknaður, virðulegi forseti.