Launakjör sýslumanna

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 13:34:00 (4670)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn minni til hæstv. fjmrh. um samning sem mun hafa verið gerður í janúarmánuði um launakjör sýslumanna. Eins og við vitum er verið að gera breytingu á dómstólaskipun og réttarfari í landinu og eftir þá breytingu verða sýslumenn venjulegir opinberir starfsmenn og láta af öllum störfum dómara. Þess vegna var kannski að mörgu leyti eðlilegt að gera þyrfti nýjan samning um starfskjör sýslumanna. En ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort það sé rétt sem mér hefur verið tjáð að sá kjarasamningur sem gerður var við sýslumenn nú í janúarmánuði feli í sér að launakjör sýslumanna, mánaðarlaun sýslumanna, föst laun og yfirvinna, verði á bilinu 280--400 þús. kr.? Sýslumenn yrðu þá hæstlaunuðu starfsmenn íslenska ríkisins með mun hærri laun en hæstaréttardómarar, forsrh. og forseti lýðveldisins? Það er satt að segja mjög undarlegt að á sama tíma og opinberum starfsmönnum er neitað um eina einustu breytingum á launakjörum og samninganefnd ríkisins gefur það út fyrir hönd ríkisstjórnar og fjmrh. að ekki eigi að semja um eina einustu krónu í kjarabætur fyrir aðra starfsmenn ríkisins, ekki þetta ár og varla næsta ár, að þá hafi e.t.v. verið gerður kjarasamningur við sýslumenn sem feli það í sér að auk föstu launanna geti þeir verið með 30 eða 40 til 100 yfirvinnutíma á mánuði. Það sé tengt innheimtuhlutfalli á þann veg að þeir sem standa sig lakast í innheimtunni geti verið með um 250--270 þús. kr. í mánaðarlaun en þeir sem standa sig best í innheimtunni með 400 þús. kr. á mánuði. Ekki er um að ræða prósentur af innheimtu eða innkomu eins og áður, heldur venjuleg launakjör, föst laun og yfirvinnu, eins og hjá öðrum opinberum starfsmönnum.
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort það sé virkilega rétt að á sama tíma og bremsa er sett á allar breytingar hjá opinberum starfsmönnum er gerður svo fáheyrður samningur um launakjör sýslumanna.