Launakjör sýslumanna

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 13:37:00 (4671)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég get því miður ekki svarað fyrirspurninni svo vel sé án þess að leita mér upplýsinga í ráðuneytinu. Reyndar þá hvort tveggja í fjmrn. og dómsmrn. Mér er þó eins og öllum öðrum kunnugt um að gerðar hafa verið breytingar á sýslumannsembættinu í tengslum við þær breytingar sem gerðar eru vegna dómstólaskipunar og tekur gildi um mitt þetta ár. Ég kannast við að í fjmrn. hafi a.m.k. verið hugmyndir um, ef ekki samningur, þar sem gerð er grein fyrir því með hvaða hætti sýslumenn fá ábót á venjuleg launakjör eftir því hvernig þeir standa sig í innheimtu. Ég skal afla þeirra upplýsinga og gefa þinginu þær, það er alveg sjálfsagt. Hitt er svo annað mál að meginreglan við þær breytingar sem nú eru að eiga sér stað er sú að sýslumenn lækki í launum. Ástæðan er auðvitað sú að þessi breyting verður, þ.e. sýslumenn hætta að vera dómarar og verða fyrst og fremst lögreglustjórar og innheimtumenn ríkissjóðs en ekki eins og áður einnig æðstu menn dómstóla á hverjum stað. Þessi breyting hefur leitt til þess að sýslumenn hafa verið að lækka í launum. Ég hygg að hv. 8. þm. Reykn. kannist við að á undanförnum árum eða frá því að lög tóku að breytast um þessi mál hafa æðstu embættismenn þjóðarinnar á þessu sviði, bæði tollstjórar, sýslumenn og aðrir fremur verið að lækka í launum en hækka. En eins og ég segi þá hef ég þessar upplýsingar ekki hjá mér en skal afla þeirra eins fljótt og auðið er og koma þeim til skila.