Samkomulag milli Borgarspítala og Landakotsspítala um heilbrigðisþjónustu

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 13:43:00 (4674)

     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Mig langar einnig að beina fyrirspurn til hæstv. fjmrh. Í fjölmiðlum undanfarna daga, m.a. í Morgunblaðinu 21. mars sl., er gerð grein fyrir nýju samkomulagi milli Borgarspítala og Landakotsspítala um heilbrigðisþjónustu, m.a. um að Borgarspítali taki að sér allar bráðavaktir Landakotsspítala og að Landakot sérhæfi sig í biðlistaaðgerðum og að fjármunum af óskiptum lið ráðuneyta verði varið til að kosta þennan samning. Gert er ráð fyrir að 200 millj. kr. fari í reksturskostnað til Borgarspítalans og 100 millj. kr. til framkvæmda á þessu sama sjúkrahúsi. Síðan fari aðeins 45 millj. til Landakots til að taka við auknum kostnaði vegna biðlistaaðgerðanna sem sá spítali á að taka við. Í viðtali í Morgunblaðinu 21. mars sl. segir framkvæmdastjóri Landakotsspítala m.a. ,,Þetta leggst afleitlega í okkur því reksturinn hefur dregist mikið saman. Nú vantar okkur möguleika á að sinna þeim verkefnum sem fyrir hendi eru. Þó bráðavaktirnar hætti hjá okkur er það aðeins óhjákvæmileg afleiðing af þeim niðurskurði sem við höfum þurft að taka á okkur.`` Hann segir þar með að þessar 45 millj. dugi þeim engan veginn til að taka við þessari þjónustu.
    Árni Sigfússon, formaður stjórnar Sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar, þar með talið Borgarspítalans, segir þetta hins vegar vera eðlilegt framhald af þeim viðræðum sem staðið hafi yfir um leiðir til hagræðingar í rekstri sjúkrahúsanna í Reykjavík.
    Nú vil ég skjóta því inn í að í viðræðum um hagræðingu á rekstri sjúkrahúsanna í Reykjavík hefur ekkert verið rætt við forsvarsmenn stærsta sjúkrahússins, þ.e. Landspítala, um það hvernig þessu væri skynsamlegast varið.
    Ég vil leyfa mér að fullyrða að peningunum er óskynsamlega varið með þessum hætti. 200 millj. kr. í aukinn rekstrarkostnað á Borgarspítalanum væri betur skipt á milli Landspítala og Borgarspítala, jafnvel mætti komast af með minni upphæð, 50--100 millj., við skulum segja 75 millj. kr. á hvort sjúkrahús og spara þá þegar 50 af þessum 200 og hundrað millj. til fjárfestingar á meðan fjöldi sjúkrarúma er ónotaður hér í höfuðborginni hlýtur að vera óskynsamlegt, enn þá óskynsamlegra heldur en hitt, þ.e. tillagan um rekstrarfjárveitinguna.
    Það lítur út fyrir að 130--150 rúm verði ónotuð á ríkisspítölunum á komandi sumri vegna sparnaðaraðgerða og lokana sem fyrirhugaðar eru. Skynsamlegra hefði verið að verja einhverjum fjármunum í að nýta þau rúm betur svo og að gera Landakotsspítala betur hæfan til að sinna bráðaþjónustunni heldur en hafa þann hátt á sem hér er hugsaður.
    Ég beini fyrirspurninni til hæstv. fjmrh. vegna þess að hann ráðstafar þeim fjármunum, skv. 6. gr., lið 6.22 í fjárlögunum, sem eru til ráðstöfunar í tengslum við rekstrarsparnaðinn en ekki heilbrrh. Mér finnst og óttast reyndar að hann muni að einhverju leyti vera ánetjaður hagsmunabaráttu einhverra einstaklinga í þessu máli. Fyrirspurninni er því beint til hæstv. fjmrh.: Mun hann samþykkja þessa ráðstöfun eða beita sér gegn henni og leita skynsamlegri leiða til ráðstöfunar á þessum mikilvægu upphæðum?