Rekstur heimilis fyrir vegalaus börn

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 13:53:00 (4677)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. forsrh. Um síðustu helgi fór fram myndarleg söfnun í þágu vegalausra barna hér á landi. Og ég legg fyrir hæstv. forsrh. tvær spurningar: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til þess að koma til móts við þann sterka vilja sem kom fram hjá þjóðinni um síðustu helgi í söfnuninni fyrir vegalaus börn? Er ríkið reiðubúið til þess að kosta rekstur þess meðferðarheimilis sem keypt yrði en yrði jafnvel rekið á ábyrgð samtakanna Barnaheill?
    Eins og kom fram í umræðum um málefni vegalausra barna fyrir nokkru þegar ég bar fram fyrirspurn til hæstv. félmrh., er talið að vegalaus börn á Íslandi séu liðlega 20 talsins. Samtökin Barnaheill vilja stofna heimili fyrir fimm börn til að byrja með fyrir þá fjármuni sem safnast hafa. Talið er að kostnaður við rekstur slíks heimilis yrði 12 millj. kr. ári ef tekið yrði upp vaktavinnufyrirkomulag.
    Segja má að þau börn sem hér um ræðir greinist aðallega í þrjá hópa. Í fyrsta lagi er um að ræða vegalaus börn sem ekki eiga við sérstök heilbrigðis- eða fötlunarvandamál að stríða. Í öðru lagi er um að ræða vegalaus börn sem greinst hafa þannig að þau eigi við geðræna erfiðleika að stríða en eru ekki talin geðveik í venjulegum skilningi. Í þriðja lagi er um að ræða börn sem ekki eru talin geðveik en eru engu að síður hættuleg sjálfum sér og umhverfi sínu.
    Fyrsti hópurinn, vegalaus börn, þarf á skammtímavistun að halda, eins og það er kallað, þó það sé ekki ýkjaskammur tími eða 2--3 ár í mesta lagi uns gengið hefur verið frá fósturheimili fyrir þau eða gengið hefur verið úr skugga um að óhætt sé fyrir þau og

æskilegt að fara heim til sín aftur. Annar hópurinn þarf á sérstakri vistun að halda, ýmist innan laganna um þjónustu við fatlaða eða á vegum heilbrigðiskerfisins, á barna- og unglingageðdeildum eða á sérstökum heimilum undir umsjón sérfræðinga. Það er umhugsunarvert, virðulegi forseti, að sömu dagana og þjóðin leggur fram 32 millj. kr. til heimilis fyrir vegalaus börn, er verið að taka ákvörðun um það að loka legudeild barna- og unglingageðdeildarinnar þar sem núna eru fimm börn. Við þetta tækifæri lýsi ég því yfir að hér með öllu um fráleita og siðlausa ráðstöfun að ræða og ég skora á ríkisstjórnina að reka þá ákvörðun til baka.
    Þriðji hópurinn sem hér um ræðir og ég nefndi áðan, eru einstaklingar sem geta verið hættulegir sjálfum sér eða öðrum. Þessi hópur þarf á varanlegri vistun að halda. Fyrsti hópurinn sem ég nefndi áðan, fær úrlausn að einhverju leyti með átaki Barnaheilla þegar 32 millj. kr. frá 7.000 aðilum í landinu söfnuðust. Þess ber að geta að verkalýðsfélög láglaunafólks í landinu voru þar ekki síst rausnarleg. Hefur ríkisstjórnin fjallað um málið? Hvað hyggst ríkisstjórnin gera í málinu, hæstv. forsrh.?