Safnahúsið við Hverfisgötu

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 14:01:00 (4681)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Áður en ég svara fyrirspurninni beint, vil ég nota tækifærið, fyrst á þetta mál var minnst, að koma að því með öðrum hætti. Eftir að sú ákvörðun hafði verið tekin sem hv. 10. þm. Reykv. nefndi, var rætt um það í fjölmiðlum að hugmyndirnar væru þær að forsrn. ætlaði sér að fara inn í þetta hús. Ég segi fyrir mína parta að ég tel að forsrn. eigi að vera í því húsi sem það er. Það er búið að vera þar síðan 1904, ef við tökum ráðherra Íslands með og landshöfðingjaembættið þar á undan. Af sögulegum ástæðum og öðrum ástæðum líka finnst mér að forsætisráðherraembættið eigi að vera kyrrt í því húsi. Þetta er mitt viðhorf.
    Varðandi spurninguna hins vegar finnst mér eðlilegt að taka málið upp innan ríkisstjórnarinnar og ræða það við menntmrh. með hvaða hætti þessi nefnd verður skipuð. Ég vil gjarnan taka þau viðhorf, sem þingmaðurinn kynnti, upp á þeim vettvangi og vonast til að geta svarað því hið fyrsta.