Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 14:25:00 (4693)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði grein fyrir atkvæði sínu. Reyndar var það á leiðinni í sætið sem hann gerði það, en ber samkvæmt þingsköpum að gera grein fyrir því í ræðustól hafi hann beðið um orðið til þess. Hins vegar er honum ekki ætlað að taka upp efnislega umræðu um það hvernig aðrir rökstyðja sitt mál. Ég rökstuddi afstöðu mína með því að vísa til bréfs Verslunarráðsins. Þar eru fullnægjandi rök fyrir þessum efnum. En ég verð aftur á móti að óska hv. þm. til hamingju með það hvað hann hefur lært af þorskastríðinu við Breta. Hann telur að vinnubrögð nýlenduveldisins að beita löndunarbanni sé sú hin rétta framtíðarstefna sem Íslendingar eigi að nota gagnvart grannþjóðum okkar Grænlendingum og Færeyingum og ég óska honum til hamingju með þá nýlendustefnu.