Kaup á fiski sem veiddur er við Kanada

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 14:34:00 (4697)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Málið snýst fyrst og fremst um viðskipti milli tveggja fyrirtækja. Hitt er svo rétt að mikil ofveiði fer fram innan lögsögu Kanada. Kanadamenn áætla að á árunum 1986--1990 hafi Evrópubandalagið veitt fimm sinnum meira en þeim kvótum nemur sem út voru gefnir. Ekki hefur náðst samkomulag um stjórn á þessum veiðum.
    Hinn 25. febr. sl. skrifaði sjávarútvegsráðherra Kanada mér bréf og óskaði eftir stuðningi á undirbúningsfundi undir umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna við þá viðleitni Kanada að styrkja þau ákvæði hafréttarsáttmálans sem fjallar um sameiginlega stjórnun á veiðum utan við lögsögu einstakra ríkja. Ég svaraði þessu bréfi mjög afdráttarlaust að við mundum styðja slíka viðleitni og það hefur sendinefnd okkar á undirbúningsráðstefnunni gert. Ég tel að í þessu efni eigum við sameiginlegra hagsmuna að gæta með Kanadamönnum og fleiri þjóðum.
    Það álitaefni sem hér er uppi snýr hins vegar ekki að löggjöf um rétt til fiskveiða í landhelgi Íslands. Þetta álitaefni lýtur að því hvort við eigum að beita viðskiptaþvingunum til þess að knýja fram friðunaraðgerðir á öðrum hafsvæðum. Við höfum jafnan lýst okkur andstæða slíkum viðskiptaþvingunum. Til að mynda höfum við mótmælt mjög harðlega þegar Bandaríkjamenn hafa beitt löggjöf af þessu tagi gegn vísindaveiðum og veiðum okkar á hval og ég tel að við hljótum að fylgja því sjónarmiði eftir. Eigi að koma fram banni í þeim tilgangi að styrkja sjónarmið Kanada þá hljótum við að hafa það í huga hvort við einir áorkum einhverju í þessu efni og líka að átta okkur á því að slíkt bann yrði annaðhvort að byggjast á nýrri löggjöf um viðskiptabann eða með því að beita heimildum í gildandi lögum um innflutnings- og gjaldeyrisviðskipti.