Kaup á fiski sem veiddur er við Kanada

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 14:44:00 (4702)

     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands tekur fortakslaust á því að engum séu heimilar veiðar í 200 mílna efnahagslögsögu Íslands nema Íslendingum sjálfum. Það er ítrekað í tveimur fyrstu greinum frv. Þetta frv. er lagt hér fyrir Alþingi eftir að þessi mál hafa verið rædd í mörg ár. Það næst samkomulag um afgreiðslu málsins í utanrmn. og síðar í sjútvn. með þeim breytingum sem lagðar eru fram og hafa nú verið samþykktar með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða. Eigum við að beita viðskiptaþvingunum einhverjar þjóðir sem veiða á fjarlægum miðum? Hvað hafa Kanadamenn gert sjálfir? Hafa þeir ekki hleypt inn í efnahagslögsögu sína erlendum flota á undanförnum árum? Við Íslendingar stóðum í baráttu. Ekki var tekið undir það þá af fjölmörgum þjóðum og við viljum auðvitað standa að því að úthafsfloti veiði ekki og skemmi fiskimið annarra þjóða. En við höfum verið að brjóta þetta blað núna til þess að gera þessa breytingu. Við þurfum á aukinni framleiðslu að halda. Við þurfum á því að halda að fá meiri fisk á sama tíma og við erum að skera niður fiskveiðar ár eftir ár. Ég lít svo á að búið sé að ná samkomulagi um þetta mál í þessum nefndum. Ég hef ekkert á móti því að málið verði rætt í sjútvn. Ég hef ekkert á móti því að málið verði rætt í sjútvn. en ég vil láta bæði málshefjanda og fleiri vita það að ég er ekkert kominn til með að vilja tefja framgang þessa frv. Til þess var það flutt. Það var flutt í þeirri meiningu að reyna að ná sem víðtækastri samstöðu um það og fá það lögfest á þessu þingi.