Kaup á fiski sem veiddur er við Kanada

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 14:49:00 (4704)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu sem ég held að sé mjög tímabær vegna þess að maður hefur orðið mjög var við það undanfarna daga að almenningi í landinu varð mjög illt við þessar fréttir og taldi að með þessu værum við Íslendingar hugsanlega að svíkja granna okkar á Nýfundnalandi.
    Það hefur stungið mig dálítið í umræðunni að mér finnst margir þingmenn tala þannig að sjálfsagt og eðlilegt sé að Íslendingar styðji aðrar þjóðir eins og Kanadamenn og íbúana á Nýfundnalandi í þessu tilviki en það megi bara ekkert kosta. Við erum ekki

tilbúin til þess að fórna neinu í þessum stuðningi. Stuðningurinn skal vera í orði en ekki í verki. Mér finnst þetta skjóta dálítið skökku við því að Íslendingar eru í mörgum sínum málum, ekki síst í fiskveiðimálum, ef svo má segja eins og landafjandar um allar jarðir að leita eftir stuðningi við lífshagsmuni okkar og við teljum að við eigum siðferðilegan rétt á stuðningi, siðferðilegan rétt á samstöðu. En samstaða getur ekki bara verið á annan veginn. Það er spurningin um að gefa og þiggja. Þótt Íslendingar séu kannski ekki stórir og menn vísi í það að við séum það smáir að það vegi ósköp lítið það sem við gerum í þessum málum þá er styrkur smáþjóða alltaf siðferðilegur. Það er ekki spurningin um magnið heldur er það spurningin um siðferðilegan styrk smáþjóða. Því miður finnst mér eins og Íslendingar hafi á alþjóðavettvangi oft og tíðum skort þennan siðferðilega styrk.
    Þetta ætla ég að hafa mitt innlegg í umræðuna. Ég fagna því að þetta mál skuli eiga að taka upp bæði í sjútvn. og utanrmn. og við fáum vonandi tækifæri þar til að skoða þessi mál nánar.