Stjórnarráð Íslands

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 15:40:00 (4710)

     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Ég tel að það sé ýmislegt að athuga við þetta frv. Ég er ekki alfarið á móti því að sameina iðnrn. og viðskrn. en ég tel eðlilegt að þá verði verkefnum ráðuneytanna öðruvísi skipað en nú er gert. Jafnframt tel ég mjög brýnt að endurskoða stjórnarráðslögin og setja ný þar sem tekið væri tillit til galla sem komið hafa fram og hugað að því sem betur mætti fara í starfsemi Stjórnarráðsins. Með frv. er einungis eitt atriði tekið út úr og það er smáskammtalækning sem mér finnst óheppileg. Ég hefði frekar kosið að sjá þá skipulagsbreytingu sem hér er lagt til að gerð verði sem lið í heildarendurskoðun á starfsemi Stjórnarráðsins.
    Það hefur gengið sorglega illa að samræma sjónarmið manna um breytingar á Stjórnarráðinu. Þar vil ég taka fram að það er ekki fyrst og fremst við þingmenn að sakast því þeir hafa verið tiltölulega opnir fyrir hugmyndum til breytinga. Fyrst og fremst er við ráðherra á hverjum tíma að sakast, ráðuneytisstjóra og starfsmenn ráðuneytanna. Þeir hafa gjarnan viljað vaka yfir sínu, ekki láta neitt af hendi og fremur bæta við sig verkefnum. Skoðuð hafa verið fjöldamörg tilbrigði um skiptingu verkefna ráðuneytanna og uppstokkun ráðuneyta. Samin hafa verið frv. til laga um breytingar á stjórnarráðslögum, t.d. var lagt fyrir 112. löggjafarþing heildstætt frv. um Stjórnarráð Íslands. Það var allvel undirbúið. Þó fundu menn ýmislegt sem þeir töldu að betur mætti fara í frv. Nefnd var sett í málið á sínum tíma og ég hafði þá ánægju að vera formaður hennar. Mig langar til að lesa hér hluta af skipunarbréfinu, með leyfi forseta:
    ,,Ákveðið hefur verið að skipa nefnd þingmanna til þess að yfirfara og endursemja frv. til laga um Stjórnarráð Íslands sem lagt var fram á 112. löggjafarþingi 1989--1990 en varð ekki útrætt. Áhersla er lögð á að í frv. verði staða einstakra ráðuneyta Stjórnarráðsins í heild styrkt í stjórnkerfinu með því að sameina ráðuneyti og fækka þeim. Jafnframt verði stuðlað að hagræðingu og sparnaði í stjórnsýslu ríkisins, m.a. með því að færa til og sameina skylduverkefni ráðuneyta.
    Um markmið breytinga vísast að öðru leyti til athugasemda við fyrra frv. Skal nefndin í störfum sínum kynna sér undirbúningsvinnu vegna fyrra frv. og fara yfir umsagnir sem borist hafa um málið.
    Ásamt yður eiga sæti í nefndinni þingmennirnir Eiður Guðnason, Margrét Frímannsdóttir, Guðmundur Ágústsson, Ólafur G. Einarsson, Birgir Ísl. Gunnarsson og Danfríður Skarphéðinsdóttir.``
    Þessi nefnd starfaði allmikið og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir ágætt samstarf. Því miður náðist ekki endanleg niðurstaða sem allir gátu sætt sig við. En við vorum komin alllangt á leið þegar kosningar dundu yfir og þar af leiðandi flosnaði þetta nefndarstarf upp. Skoðaðir voru fjöldamargir möguleikar á samsetningu ráðuneyta og verkaskiptingu þeirra og mig langar til, úr því þetta mál er hér til umræðu, að kynna þá tilhögun sem að mínu mati naut víðtækasts stuðnings í nefndinni og ég hygg að hefði orðið stofn að endanlegu frv. ef okkur hefði tekist að koma því frá okkur.
    Þá er það í fyrsta lagi að ráðuneytin yrðu tíu í staðinn fyrir fjórtán; Hagstofa Íslands yrði felld niður sem sjálfstætt ráðuneyti og gert ráð fyrir því að hún yrði stofnun sem heyrði undir forsrn.; felld niður sú skipan að Fjárlaga- og hagsýslustofnun sé sjálfstæð stjórnardeild innan fjmrn. heldur yrði hún ein af skrifstofum ráðuneytisins; heiti félmrn. yrði breytt í félagsmála- og tryggingaráðuneyti og til þess flutt viðbótarverkefni; iðn.- og viðskrn. sameinuð í eitt ráðuneyti; landb.- og samgrn. sameinuð í eitt ráðuneyti og umhvrn.- og heilbrrn. sameinuð í eitt ráðuneyti.
    Mig langar til að fara nokkrum orðum um breytingar á verkefnum ráðuneyta á grundvelli þessarar tillögu. Eins og ég sagði áðan yrði Hagstofa Íslands lögð niður sem sjálfstætt ráðuneyti og flutt undir forsrn. sem sjálfstæð stofnun. Til forsrn. og fjmrn. yrði flutt embætti ríkislögmanns. Til forsrn. frá viðskrn. yrði fluttur Seðlabanki Íslands. Frá forsrn. til fjmrn. yrði flutt embætti húsameistara ríkisins og Framkvæmdasjóður Íslands og gert ráð fyrir að forsrn. færi með mál er varða stjórnsýslulöggjöf og upplýsingaskyldu stjórnvalda. Dóms- og kirkjumrn. fengi málefni frá félmrn. sem vörðuðu jafnrétti kynja og Jafnréttisráð. Til dómsmrn. frá félmrn. flyttust málefni er vörðuðu sveitarstjórnarkosningar. Til fjmrn. yrðu flutt málefni frá landbrn. er varða þjóðjarðir og kirkjujarðir, aðrar en prestsjarðir en þó ekki útleiga til landbúnaðar og ábúðar. Einnig yrðu flutt til fjmrn. málefni sem varða útflutningsbætur. Til ráðuneytisins yrðu flutt frá viðskrn. málefni er vörðuðu niðurgreiðslur og frá menntmrn. málefni er vörðuðu álagningu skemmtanaskatts. Til ráðuneytisins yrðu flutt frá forsrn. embætti húsameistara og Framkvæmdasjóður. Frá ráðuneytinu til forsrn. embætti ríkislögmanns og frá ráðuneytinu til umhverfis- og heilbrigðisráðuneytis yrði flutt Lyfjaverslun ríkisins.
    Uppistaðan í verkefnum félags- og tryggingaráðuneytis yrði fyrri verkefni félmrn. sem ekki hafa þegar verið flutt til umhvrn., svo sem sveitarstjórnarmál, málefni fatlaðra og húsnæðismál. Þá yrðu flutt til félags- og tryggingamálaráðuneytis frá heilbr.- og trmrn. mál er varða almannatryggingar og málefni Tryggingastofnunar ríkisins og frá menntmrn. mál er varða vernd barna og unglinga og barnaverndarráð. Frá félags- og tryggingaráðuneyti til dóms- og kirkjumálaráðuneytis flyttust málefni er varða jafnrétti kynja og Jafnréttisráð og frá ráðuneytinu til dóms- og kirkjumálaráðuneytis málefni er varða sveitarstjórnarkosningar.
    Uppistaðan í verkefnum iðnrn. og viðskrn. yrði fyrri verkefni iðnrn. og viðskrn. Þangað yrðu flutt frá heilbr.- og trmrn. mál er varða vátryggingastarfsemi, tryggingaeftirlit og Viðlagatrygging Íslands og frá ráðuneytinu til fjmrn. yrðu flutt mál er varða niðurgreiðslur. Og eins og ég sagði áðan heyrði Seðlabankinn til forsrn.
    Hvað landbrn. og samgrn. varðar þá yrði uppistaðan í verkefnum þess ráðuneytis flest af fyrri verkefnum þessara ráðuneyta. Frá landbrn. til fjmrn. yrðu flutt málefni þjóðjarða og kirkjujarða, eins og þegar hefur verið komið fram. Frá landbrn. yrðu flutt mál til fjmrn. er varða útflutningsbætur landbúnaðarfurða og frá samgrn. til sjútvrn. mál er varða eftirlit með skipum, skipamælingar og rannsókn sjóslysa, skráningu skipa, lögskráningu sjómanna og atvinnuréttindi þeirra svo og starfsemi Siglingamálastofnunar ríkisins, þó ekki mengunarvarnadeild stofnunarinnar og rannsóknardeild sjóslysa.
    Frá menntmrn. til fjmrn. yrðu flutt mál er varða álagningu skemmtanaskatts og frá menntmrn. til félmrn. og trmrn. yrðu flutt, eins og áður hefur komið fram, mál er varða verndun barna og unglinga og barnaverndarráð.
    Til sjútvrn. frá utanrrn. yrðu flutt mál er varða útflutning á óunnum fiski og til ráðuneytisins frá samgrn. mál er varða eftirlit með skipum, skipamælingar og rannsókn sjóslysa, skráningu skipa, lögskráningu sjómanna og atvinnuréttindi þeirra, svo og Siglingamálastofnun ríkisins, þó ekki mengunarvarnadeild stofnunarinnar eða rannsóknardeild sjóslysa. Þá höfðum við hugsað okkur að setja á stofn umhv.- og heilbrrn. Uppistaðan í verkefnum þess yrðu fyrri verkefni umhv.- og heilbrrn. Frá fjmrn. kæmu málefni Lyfjaverslunar ríkisins, frá heilbr.- og trn. færu til iðnrn. og viðskrn. vátryggingarstarfsemi, tryggingaeftirlit og Viðlagatrygging og frá heilbr.- og trmrn. færu til félmrn. málefni almannatrygginga og Tryggingastofnun.
    Hvað varðar utanrrn. yrði uppistaðan í verkefnum þess sú sama og verið hefur. Frá utanrrn. færu þó til sjútvrn. mál er varða útflutning á óunnum fiski.
    Þetta var sú hugmynd sem, eins og ég sagði áðan, naut mest fylgis og hægt hefði verið að ná um víðtækastri samstöðu. Hún náðist þó ekki eða það vannst ekki tími til að ná samstöðu. Það var reynt að fella saman innan ráðuneytanna sem líkasta málaflokka og sem skyldust verkefni. Jafnframt var reynt að haga samsetningu ráðuneyta þannig að starfsmannafjöldi yrði sem jafnastur en það er að sjálfsögðu aldrei hægt að ná fullkomnum jöfnuði á þeim vettvangi vegna ólíkra viðfangsefna. En þó væri þarna stigið talsvert skref til jöfnunar milli ráðuneyta hvað varðar starfsmannafjölda.
    Þetta var sú tillaga sem mestar líkur voru á að ná samstöðu um og það er mikill skaði að hún skyldi ekki nást til fullnustu því að það er mjög mikilvægt að breyta og bæta starfshætti Stjórnarráðsins. Mörg viðkvæm atriði ræddum við í sambandi við frv. og vorum tilbúin til að taka á svo sem æviráðning og fleira.
    Ég er ekki andvígur því sameina viðskrn. og iðnrn. Hins vegar finnst mér ákaflega skothent að láta Seðlabankann tilheyra iðnrn. og mér finnst sannarlega að hann hljóti að eiga heima undir forsrn. sem er yfirráðuneytið og aðalefnahagsráðuneytið. Þar af leiðir hef ég miklar efasemdir um að skynsamlegt sé að stíga þetta skref að óbreyttum verkefnum eins og lagt er til með fyrirliggjandi frv. Þetta horfði allt öðruvísi við og væri frekar vegur til að slíta það út úr ef Seðlabankanum væri ráðstafað með öðrum hætti en hér er gert ráð fyrir. Ég endurtek, herra forseti, að mér finnst að Seðlabankinn eigi ekki að vera í hinu nýja ráðuneyti og eigi alls ekki að heyra undir iðnrn.