Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 16:33:00 (4717)

     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum. Þetta er 168. mál á þskj. 182. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Steingrímur Hermannsson, Össur Skarphéðinsson, Kristín Einarsdóttir, Páll Pétursson, Gunnlaugur Stefánsson, Kristín Ástgeirsdóttir og Ólafur Ragnar Grímsson. Þannig eru meðflm. að frv. alþm. úr fjórum af fimm stjórnmálaflokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi. --- Ég hefði gjarnan, hæstv. forseti, kosið að hæstv. utanrrh. og jafnvel hæstv. forsrh. hefðu átt þess kost að vera viðstaddir umræðuna en með hliðsjón af því að svo langt er um liðið síðan mál þetta komst á dagskrá og ekki hefur enn unnist tími til að mæla fyrir því, þá vel ég þann kost að gera það engu að síður þótt þeir séu ekki viðstaddir en vænti þess að þeir kynni sér þá það efni sem hér er til umfjöllunar.
    Það er aðdragandi þessa frv., sem er reyndar orðinn nokkur, að á 109. löggjafarþingi, veturinn 1986--1987, var það í fyrsta sinn flutt á Alþingi og hefur reyndar tvívegis verið flutt áður en í hvorugt skipið orðið útrætt. Í sjálfu sér hefur ekkert breyst um efni þess. Það er að mínu mati og okkar flm. enn jafngilt og það var á sínum tíma. Reyndar má segja að þvert á móti hafi sú jákvæða þróun, sem orðið hefur í samskiptum hervelda samhliða breytingum í Austur-Evrópu og einnig margir víðtækir afvopnunarsamningar, auðveldað okkur Íslendingum að ganga á undan og slást í hóp þeirra þjóða og gefa þeim, sem hafa tekið ákvarðanir um sérstakar friðlýsingaraðgerðir í sinni lögsögu, gott fordæmi. Þess vegna er hægt að fagna því að nú er í raun og veru betra lag en nokkru sinni fyrr til að festa í sessi þá stefnu sem í orði kveðnu a.m.k. er yfirlýst íslensk stefna, að afvopnun og friðlýsingaraðgerðir eigi ekki síður að taka til hafsvæðanna en landsvæða og lofts. Ég held að það nýjasta og stærsta sem gerst hefur í þessum efnum, þar sem eru ákvarðanir stórveldanna frá sl. hausti um einhliða stórfelldan niðurskurð kjarnorkuvopna, ætti að sannfæra þá sem enn kynnu að hafa einhverjar efasemdir um að aðgerð af því tagi að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum er bæði raunhæf og einnig tímabært skref af okkar hálfu og í takt við þróun mála í okkar næsta nágrenni og reyndar í heiminum öllum. Sérstaklega mikilvægt í þessu sambandi er að í tilkynningum Bush Bandaríkjaforseta frá 27. sept. sl. felst m.a. að Bandaríkjamenn ákveða einhliða að taka úr umferð og eyða öllum kjarnorkuvígvallarvopnum og taka úr umferð meðaldræg kjarnorkuvopn um borð í skipum og kafbátum sem og sprengjur flugvéla í flugmóðurskipum og að lokum að sprengjuflugvélar, sem bera kjarnorkuvopn, verða teknar úr þeirri viðbragðsstöðu til árása

sem þær hafa verið í um áratugaskeið. Í þessum breytingum einum, sem tilkynning Bandaríkjaforseta frá 27. sept. sl. boðar, felast auðvitað gerbreyttar aðstæður og jákvæð þróun fyrir friðlýsingaraðgerðir af því tagi sem verið er að boða. Svar Gotbatsjovs, þáverandi leiðtoga Sovétríkjanna, frá 5. okt. sl. var á mjög líkum nótum og gefur fullt tilefni til þess að sínu leyti að túlka það með jafnjákvæðum hætti.
    Þá er rétt að hafa í huga START-samningana um fækkun langdrægra kjarnorkuvopna. Það er einnig rétt að hafa í huga í þessu sambandi samninga um takmörkun hefðbundinna vopna og herafla í Evrópu og yfirstandandi viðræður á mismunandi stigum, samningaumleitanir og viðræður, um framlengingu samningsins um bann við útbreiðslu frekari kjarnorkuvopna, um tilraunabann með kjarnorkuvopn og útrýmingu efnavopna og sýklavopna svo nokkuð sé nefnt af því sem í gangi er. Allt ber þetta að sama brunni, þróunin er jákvæð og í rétta átt með hliðsjón af markmiðum þessa frv. að koma á endanlegri og algerri friðlýsingu íslenskrar lögsögu fyrir þessari tegund vopna og vígbúnaðar. Það er skoðun flm. að með aðgerðum af því tagi, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, væri í senn með mjög afdráttarlausum hætti staðfestur í löggjöf landsins vilji okkar Íslendinga til að tryggja frið, öryggi og varðveislu auðlinda á okkar slóðum og það væri jafnframt sýnt af Íslands hálfu kjarkmikið fordæmi í anda þeirra stóru atburða í afvopnunarmálum og alþjóðasamskiptum sem varðað hafa veginn sl. mánuði og ár. Í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að nefna þær ítrekuðu áminningar, sem við Íslendingar höfum orðið fyrir og reyndar nágrannaþjóðir sem búa við norðanvert Atlantshaf, og tengjast einmitt umferð kjarnorkuknúinna skipa eða óhöppum sem tengjast kjarnorkuvopnum eða kjarnorkudrifnum farartækjum. Þar ber auðvitað hæst öll þau óhöpp sem orðið hafa í kjarnorkukafbátum, bæði á hafsvæðunum norðan við landið og eins sunnan við það. Í báðum tilvikum getur hætta verið fyrir hendi á því að geislamengun hljótist af slysum af því tagi og berist inn á okkar veiðislóð með hafstraumum.
    Frv. þessu fylgdi á sínum tíma, bæði þegar það var endurflutt síðast og eins í upphafi, allítarleg greinargerð þar sem rakin er aðdragandi frv. og m.a. vitnað í það að við samningu þess á sínum tíma var stuðst við frv. um kjarnorkuvopnalaust Nýja-Sjáland sem þá var til umfjöllunar á þingi Nýsjálendinga í Wellington á árunum 1986--1987. Þá lagði þáv. forsrh. Nýja-Sjálands, David Lange, fram stjórnarfrumvarp sem var til umfjöllunar á þingi Nýsjálendinga í tvö ár og síðan samþykkt á sama árinu og þetta frv. var endurflutt í annað sinn. Frv. þetta tekur jafnframt í öllum meginatriðum mið af þeim ákvæðunum um önnur kjarnorkuvopnalaus svæði sem þegar eru fyrir hendi eða friðlýst hafa verið. Þar má nefna Tlatelolco-samninginn um kjarnorkuvopnalaust svæði í Suður-Ameríku. Það má nefna Rarotonga-samninginn um kjarnorkuvopnalaust svæði í Suður-Kyrrahafi og það má nefna ályktanir Sameinuðu þjóðanna um friðunaraðgerðir af þessu tagi og vísa ég þá sérstaklega í lokakafla ályktunar afvopnunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1978 en hann er birtur sem fskj. með frv. þessu.
    Inn í frv. var bætt nýrri grein þegar það var endurflutt í fyrra sinnið sem er 11. gr. og fjallar sérstaklega um bann við flutningi eða losun geislavirkra efna innan hins friðlýsta svæðis. Það yrði eitt meginmarkmið laga um friðlýsingu Íslands að draga úr hættunni á kjarnorku- eða eiturefnaóhöppum á og í grennd við landið og því þótti eðlilegt að taka slíkt ákvæði inn í frv. þegar það hafði verið betur skoðað til að styrkja enn réttarstöðu íslenskra stjórnvalda í þessu sambandi. Ísland er að vísu aðili að svonefndum Lundúnasamningi, um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna, en sá samningur er því miður ekki afdráttarlaus, t.d. að því er lággeislavirkan úrgang varðar. Auk þess er að sjálfsögðu ekkert því til fyrirstöðu að við Íslendingar setjum okkur sjálf strangari reglur í okkar eigin lögsögu heldur en við höfum þegar undirgengist með alþjóðlegum samningum.
    Það er enginn vafi á því, hæstv. forseti, að lagasetning af þessu tagi um kjarnorku- og eiturefnavopnafriðlýsingu væri stórt framlag af Íslands hálfu og hvatning til afvopnunar- og friðarviðleitni í heiminum. Hugmyndir um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum, sem allmikið hafa verið til umræðu, mundu jafnframt falla vel að frumkvæði af

þessu tagi. Hér er einnig um mikilvægt umhverfismál að ræða og það er fyllilega tímabært að við Íslendingar tökum af meiri alvöru á þeirri ógn sem okkur og heiminum öllum stafar af kjarnorkuvopnum, af kjarnorkuknúnum farartækjum, kjarnorkuúrgangi, eiturefnum, eiturefnavopnum o.s.frv. Sjálfsagður liður í þessu er að banna með öllu siglingar eða umferð kjarnorkuknúinna farartækja upp að landinu.
    Því miður er það svo, hæstv. forseti, að enn á ný þessa dagana erum við minnt á þá vá sem af kjarnorkunni getur stafað og um austanverða Evrópu bíða menn nú með öndina í hálsinum eftir fréttum af nýlegu kjarnorkuóhappi sem þar hefur orðið. Dæmin eru því miður fyrir hendi óræk og að mati sérfræðinga eru ekki færri en sex til tíu kjarnorkuvopnuð eða kjarnorkuknúin farartæki sem nú liggja á hafsbotni og ryðga og mörg þeirra á hafsvæðum sem eru í beinum hafstraumatengslum við íslensku efnahagslögsöguna.
    Það er rétt að geta þess, hæstv. forseti, að hliðstæðum málum hefur áður verið hreyft á Alþingi. A.m.k. fjórum sinnum hefur verið flutt till. til þál. um bann við geymslu og notkun kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði en í öllum tilvikum hefur verið um ræða tillögur að ályktun um að fela ríkisstjórninni að undirbúa löggjöf eða aðrar sambærilegar ráðstafanir. Hér er í fyrsta sinn á ferðinni frv. sem er fullbúið af hendi flm. og gæti að mínu mati án tiltölulega mikillar vinnu eða endurskoðunar staðið sem boðleg löggjöf í þessum efnum og vísa ég þá m.a. til þess að það er í öllum aðalatriðum sniðið eftir ákvæðum löggjafar sem þegar hefur verið sett, t.d. í Nýja-Sjálandi, eða að ákvæðum samninga um kjarnorkuvopnalaus svæði annars staðar í heiminum, svo sem í Suður-Ameríku eða á Kyrrahafssvæðinu.
    Ég held að það sé rétt, hæstv. forseti, að ég geri þá lauslega grein fyrir efnisinnihaldi einstakra greina frv. og fer hratt yfir sögu þar sem í fyrsta lagi má vísa til þeirra framsöguræðna og umræðna sem orðið hafa um frv. á þingi áður og í öðru lagi hygg ég að hv. alþm. eigi að vera sæmilega aðgengilegt að átta sig á efni þess með yfirlestri.
    Í 1. gr. laganna er markmið þeirra skilgreint sem er að gera Ísland að friðlýstu svæði þar sem bannað er að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorku- eða eiturefnavopn.
    2. gr. fjallar jafnframt um markmið laganna sem er að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorku- og eiturefnavopnalaust, að afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar, draga úr hættunni á kjarnorku- og eiturefnaóhöppum á Íslandi og í grennd við landið og stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.
    Í 3. gr. eru svo skilgreind orð eftir því sem nauðsynlegt er talið. Það er til þess að auðvelda mönnum umræðu um þetta mál og til að taka af vafa um íslenskar þýðingar valin sú leið að skilgreina eða skýra merkingu nokkurra lykilhugtaka eða orða í þessu sambandi. Í fyrsta lagi er spurningin um hvað er átt við með orðinu ,,kjarnorkuvopn``. Það er hvers konar vopn eða sprengja þar sem kjarnorka er leyst úr læðingi við notkun, hvort sem það er samsett eða ósamsett að nokkru eða öllu leyti en það tekur hins vegar ekki til flutningstækjanna eða búnaðar sem koma á sprengjunni eða vopninu í skotmark ef tækið eða búnaðinn má skilja frá sprengjunni eða vopninu. Þetta er mikilvægt skilgreiningaratriði og er mönnum þá vonandi ljóst að það er eingöngu átt við sprengjuhleðsluna sjálfa. Eiturefnavopn eru notuð í nánast í sinni allra víðtækustu merkingu og látin ná yfir öll skaðleg efni eða efnasambönd sem nota má sem vopn til að skaða fólk, mannvirki eða náttúru. Innifalin í þessari skilgreiningu eru lífefnavopn en um þau gilda ákveðnir alþjóðlegir samningar, svo sem samningur um bann við þróun framleiðslu og uppsöfnun sýklavopna eða líffræðilegra vopna og vopna sem nýta lífefnaeitur og um eyðingu slíkra vopna. Þessi samningur er frá 10. apríl 1972. Að öðru leyti yrði að afla þessari víðtæku íslensku skilgreiningu á orðinu ,,eiturefnavopn`` viðurkenningar samhliða svæðinu.
    Þegar talað er um ,,íslenskt yfirráðasvæði`` og hið ,,friðlýsta svæði`` í frv. þá skýrir það sig í raun og veru sjálft. Þar er átt við að friðlýsingin nái til alls þess svæðis sem ýtrustu kröfur Íslands á grundvelli þjóðarréttar og fullvirðisréttar ná til. Þar ber einkum að hafa í huga lögin um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979, og til hliðsjónar hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna, einkum V. hluta hans, 55.--57. gr. og VI.

hluta, 76. gr.
    Í 4.--7. gr. frv. eru tíundaðar þær kvaðir sem fylgja hinu friðlýsta svæði. Þar er í öllum aðalatriðum á ferðinni atriði sem Íslendingar hafa þegar undirgengist með fullgildingu samningsins um að dreifa ekki kjarnorkuvopnum, sbr. fylgiskjal II, 1. og 2. gr., og samninga um tilraunabann og bann við staðsetningu kjarnorkuvopna á hafsbotni sem var undirritaður fyrir Íslands hönd 11. febr. 1971. Til viðbótar eru svo lagðar persónulegar kvaðir á alla íslenska ríkisborgara og erlenda menn í þjónustu ríkisins eða menn sem dvelja innan hins friðlýsta svæðis. Þannig er kjarnorku- og eiturefnavopnabannið í senn bundið ríkinu sem samanstendur af borgurunum, íslensku yfirráðasvæði og öllum íslenskum ríkisborgurum sem einstaklingum hvar og hvenær sem er. Að öðru leyti má vísa í áðurnefnd fylgiskjöl um frekari skýringar á þessu. Hér er sá háttur hafður á sem hefur verið niðurstaðan annars staðar, t.d. í lögum Nýsjálendinga og ég held að þurfi ekki frekari útskýringa við en ljóst er að með þessu eru mjög víðtækar kvaðir lagðar á alla íbúa ríkisins og svæðið sem slíkt.
    Í 8. og 9. gr. er í raun að finna hliðstæð ákvæði varðandi eiturefnavopn og í þeirri 4.--7. varðandi kjarnorkuvopnin og ég vísa aftur í skilgreiningu á hugtakinu ,,eiturefnavopn`` í athugasemdum við 3. gr.
    10. gr. fjallar svo um kjarnorkuknúin farartæki og er alveg ótvíræð hvað það snertir að sérhverju því farartæki sem að einhverju eða öllu leyti er knúið kjarnorku er bannað að koma inn á hið friðlýsta svæði, sbr. þó ákvæði 12. gr.
    11. gr. fjallar um umferð farartækja sem flytja kjarnorkukleyf efni eða kjarnorkuúrgang. Slík umferð er sömuleiðis bönnuð innan hins friðlýsta svæðis. Þetta getur skipt máli þegar í hlut eiga tilraunir til þess að koma í veg fyrir losun kjarnorkuúrgangs eða annarra geislavirkra efna og er sjálfsagt að Ísland beiti til hins ýtrasta þjóðréttarlegri stöðu sinni til þess að hindra slíkt ef það er í okkar þágu.
    12. gr. er síðan afleiðing af þeirri skipan mála að alþjóðleg lög eru tiltölulega afdráttarlaus hvað snertir rétt friðsamlegrar umferðar til þess að fara í gegnum lögsögu ríkja utan 12 mílna marka. Hér hefur verið valin sú leið að hafa hliðsjón af ákvæðum í frv. um kjarnorkuvopnalaust Nýja-Sjáland en þetta frv. gengur að einu leyti lengra og það er að það heimilar engar undanþágur gagnvart íslensku innsævi. Með innsvæði er átt við íslensku landhelgina innan 12 mílna marka og loftrýmisins þar yfir. Þetta er að mínu mati réttlætanlegt að gera í tilviki Íslands þar sem ekki háttar þannig til hjá okkur að neinar alþjóðlegar siglingaleiðir geri það að verkum að friðsamleg umferð þurfi að fara inn fyrir okkar 12 mílna lögsögu eða inn á íslenskt innsævi til þess að komast leiðar sinnar. Þannig yrði frv. úr garði gert að um enga slíka umferð og engar slíkar undanþágur yrði að ræða gagnvart þeim hluta íslensku lögsögunnar sem er innan 12 mílna marka. Óhjákvæmilegt er hins vegar að leyfa friðsamlega umferð eins og hún er skilgreind að alþjóðalögum. Þó er að mati lögfræðinga og þjóðréttarfræðinga talið mögulegt að setja slíkri umferð ákveðin takmörk, t.d. eins og þau að enga óþarfa viðdvöl skuli hafa innan íslenskrar lögsögu þó svo að friðsamleg umferð á alþjóðlegri siglingaleið eigi í hlut. Þannig væri til að mynda hugsanlegt að gera slíkum farartækjum skylt að fara viðstöðulaust í gegnum íslenska lögsögu hvort sem væri á lofti eða á sjó. Af þessum sökum er 12. gr. frv. þannig úr garði gerð að að undanþegin ákvæðum 6., 9., 10. og fyrri mgr. 11. gr. þessara laga skuli vera friðsamleg umferð eða gegnumferð farartækja án óþarfa viðdvalar í eða á sjó eða í lofti á alþjóðlegum leiðum, þó aldrei nær landi en upp að 12 sjómílna mörkum og lofthelginnar þar upp af. Með þessum undanþáguákvæðum, hæstv. forseti, tel ég að fullyrða megi að frv. sé þannig úr garði gert að í því felist ekki hætta á að við séum að brjóta í bága við alþjóðlegar skuldbindingar okkar á nokkurn hátt hvað friðsamlega umferð snertir.
    13. gr. varðar sérstaklega komu kafbáta, herskipa eða herloftfara inn fyrir 12 sjómílna landhelgi eða lofthelgi eða heimsóknir slíkra farartækja til íslenskra hafna eða flugvalla. Þar er kveðið á um að aldrei skuli leyfa slíkar heimsóknir nema óyggjandi teljist að í því felist ekki brot á friðlýsingu Íslands samkvæmt lögum þessum, þ.e. að íslensk stjórnvöld skuli jafnframt ganga úr skugga um það að engin minnsta hætta sé á að slíkar heimsóknir feli í sér brot á friðlýsingarákvæðum laganna og ekki skuli leyfa þær ella. Í vafatilfellum, segir í greininni, skulu íslensk stjórnvöld ætíð leita bestu fáanlegra upplýsinga óháðra aðila sem völ er á til að byggja á ákvarðanir sínar og að ríkisstjórn og Alþingi skuli hafa náið samráð sín í milli þegar taka þarf slíkar ákvarðanir.
    14. gr. fjallar um það að íslensk stjórnvöld skulu leita með bindandi samningum, grundvölluðum á alþjóðarétti við einstök ríki, samtök ríkja og alþjóðastofnanir, eins víðtækrar alþjóðaviðurkenningar á hinu friðlýsta svæði og kostur er. Skuli eftir því leitað að slíkar viðurkenningar feli í sér yfirlýsingar um að hið friðlýsta svæði sé virt og viðurkennt. Einnig skuli yfirvöld leita viðurkenningar á rétti Íslands til að fylgjast með eða láta fylgjast með hinu friðlýsta svæði og til að refsa fyrir eða mótmæla eftir atvikum brotum á friðlýsingu þessari. Hér er sjálfsögð skylda á ferð sem er sambærileg viðleitni stjórnvalda annarra ríkja sem gengist hafa fyrir slíkum friðlýsingaraðgerðum í lögsögu sinni að afla þeim eins víðtækrar viðurkenningar og kostur er. Það hefur í mörgum tilvikum tekist og nægir aftur að vísa á samninga um kjarnorkuvopnalaust svæði bæði í Suður-Ameríku og á Kyrrahafi í því sambandi.
    15. gr. er refsiákvæði sem er sambærilegt við slík ákvæði í lögum erlendis með hliðsjón af því hvernig slíkum ákvæðum er að jafnaði háttað í íslenskri löggjöf, en eðlilegt þykir að hafa slíkt í lögunum þar sem mögulegt er að einstaklingar starfa sinna vegna gætu verið persónulega ábyrgir fyrir brotum á lögunum.
    Í 16. gr. er kveðið á um það að framkvæmd laganna skuli heyra undir og vera á ábyrgð forsrh. en hann skuli hafa samráð við Alþingi og utanrmn. Alþingis um allar meiri háttar ákvarðanir sem tengjast framkvæmdinni. Forsrh. sé þó heimilt að fela utanrrh. eða samgrh. eða öðrum ráðherrum sem aðstæður kunna að mæla með að fara með einstaka hluta framkvæmdarinnar í samráði við sig.
    Það er vissulega ljóst, hæstv. forseti, að nokkuð er úr vöndu að ráða hvar skuli fara með framkvæmd þessara laga og kæmi þar vissulega fleira til greina en það eitt sem lagt er til í frv. Þannig væri vel hugsanlegt að hæstv. utanrrh. færi alfarið með þetta mál en jafnframt er ljóst að þættir þess eru á verksviði annarra ráðuneyta, svo sem samgrn. sem fer með siglingamál og flugmál og umhvrn. sem fer með umhverfismál og mengunarmál og þar á meðal hafsins. Með hliðsjón af því hversu mikið vægi slík friðlýsingarákvörðun hefði bæði inn á við og út á við er lögð til sú sérstaka tilhögun að lögin heyri undir og séu á ábyrgð forsrh. sem æðsta valdamanns framkvæmdarvaldsins á hverjum tíma, en hann hafi þá heimild sem í 16. gr. er að finna til þess að fela öðrum ráðherrum hluta framkvæmdarinnar ef svo þykir henta.
    Ég hef þá, hæstv. forseti, í stuttu máli gert grein fyrir efni frv., einstakra lagagreina þess. Ég vil lítillega vekja athygli hv. þm. á þeim fylgiskjölum sem frv. fylgja. Í fyrsta lagi er frv. það til laga um kjarnorkuvopnalaust Nýja-Sjáland, afvopnun og takmörkun vígbúnaðar sem þáv. forsrh. Nýsjálendinga, David Lange, lagði fram á þingi þeirra í Wellington, ef minni mitt svíkur ekki, á árinu 1986. Ég réðst í það á sínu tíma að láta þýða þetta frv. og jafnframt aflaði ég mér laganna þegar þau höfðu verið sett tveimur árum síðar á þingi þarlendra í Wellington og ég held að ég geti fullyrt að það hafi ekki orðið þær breytingar á upphaflega frumvarpstextnum þegar hann var orðinn að lögum að sérstök ástæða sé til að hafa áhyggjur af slíku. Að sjálfsögu er ekki nema rétt og skylt að við skoðun málsins verði þetta borið betur saman en með smávægilegum breytingum, hygg ég að segja megi, varð þetta frv. að lögum eins og það var lagt fram á sínum tíma.
    Í fylgiskjali II er að finna samninginn um að dreifa ekki kjarnorkuvopnum, þann sem staðfestur var af Íslendingum í október 1969.
    Í fylgiskjali III er samþykkt samráðsfundar friðarhreyfinga á Norðurlöndum á árinu 1983 um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Eins og ég gat um í ræðu minni hér áðan þá er þetta frv. m.a. sniðið að því að vera í samræmi við þær hugmyndir um kjarnorkufriðlýsingu Norðurlandanna allra.
    Fylgiskal IV er samningurinn um bann við kjarnorkuvopnum í rómönsku Ameríku, svonefndur Tlatelolco-samningur frá árinu 1967.

    Fylgiskal V er samanburður á skuldbindingum um takmörkun vopna í Rarotonga-samningnum á Kyrrahafssvæðinu og áðurnefndum Tlatelolco-samningi og á að skýra þann mismun sem á þeim tveimur samningum er.
    Fylgiskjal VI er kafli úr lokayfirlýsingu aukaþings Sameinuðu þjóðanna um afvopnunarmál frá árinu 1978 sem lengi hefur staðið sem nokkurs konar ,,manefesto`` Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði.
    Að sjálfsögðu væri ástæða til að taka fjölmargt fleira inn í umræður og skoðun um þetta mál og þá ekki síður þau miklu tíðindi sem orðið hafa í þessum efnum á undanförnum missirum og fullkomin ástæða er til að utanrmn. og Alþingi Íslendinga fari yfir í heild sinni til þess að henda nokkrar reiður í því hvar þar er á döfinni og þar er á dagskrá.
    Hæstv. forseti. Ég vil að lokum ítreka það að ég held að frumkvæði af þessu tagi af Íslands hálfu sé bæði tímabært og skylt. Það á að heita svo eins og ég sagði fyrr í minni ræðu að í orði kveðnu sé það yfirlýst íslensk stjórnarstefna að við viljum beita okkur fyrir afvopnun á höfunum og það sé sérstaklega hlutverk okkar í umræðum um þessi efni á alþjóðavettvangi að tryggja að höfin sitji ekki eftir í þeirri lotu afvopnunarviðræðna og samninga sem nú hefur staðið yfir og í öllu falli að vera vel á verði gagnvart þeirri hættu að afvopnun á landi geti þýtt hugsanlega að vopnin færist út í höfin. Slíkt væri að sjálfsögðu mikið slys og ákaflega óæskileg þróun frá sjónarhóli okkar og engum getur blandast hugur um það að aðgerða af þessu tagi væri af Íslands hálfu mjög róttækt og virkt skref til þess að festa þessa stefnu í sessi og tryggja að afstaða okkar yrði ekki aðeins í orði heldur og á borði.
    Mér er það ljóst, hæstv. forseti, að hér er allviðamikið mál á ferð og þess er tæplega að vænta að menn hristi það fram úr erminni að gera slíkar grundvallarbreytingar í málum okkar á þessu sviði. Ég sætti mig þess vegna fullkomlega við það að málið verði tekið til nokkuð rækilegrar skoðunar af hv. Alþingi. Nú er jafnvel upplýst að það eigi eftir að verða örlög þessa löggjafarþings að starfa meira og minna samfellt út þetta ár af vissum ástæðum sem ástæðulaust er að blanda inn í umræður um þetta en þá verður það væntanlega jafnframt svo að hinum einstöku þingnefndum gefst nokkur tími til að funda og vinna í málum á meðan. Ég vil því leyfa mér að vona að hv. utanrmn., sem ég að sjálfsögðu legg til að fái svo mál þetta til umfjöllunar að aflokinni þessari umræðu, taki það alvarlega og leggi í það vinnu að skoða það.
    Ég bendi á og ítreka að frv. er flutt af átta alþm. úr fjórum af fimm stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi og þess vegna er samkvæmt venju leyfilegt að mínu mati að álykta sem svo að það eigi að geta notið hér allverulegs stuðnings. Í því samhengi má líta á að yfir standa viðræður um endurskoðun samningsins um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna og hann þarf að endurnýja fyrir árslok 1995 eins og hann er tímasettur. Höfum einnig í huga að sömuleiðis standa yfir viðræður um víðtæka samninga um bann við eiturefnavopnum og sýklavopnum um fyrstu alvarlegu tilraunirnar til að koma á alþjóðasamningum um eftirlit með vopnaviðskiptum eru í gangi og svo mætti áfram telja. Því leyfi ég mér að vona að því verði ekki á móti mælt að efni þessa frv. falli eðlilega inn í það samhengi viðleitni til víðtækra afvopnunarsamninga og friðunaraðgerða sem eru í gangi í umheiminum.
    Ég hef svo ekki orð mín fleiri, hæstv. forseti, en endurtek að ég legg til að frv. verði vísað til hv. utanrmn. að lokinni þessari umræðu.