Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 17:07:00 (4718)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu í þriðja sinn að mér skilst frv. til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum. Ég skal játa það í upphafi máls míns að ég hef ekki haft tök á því að kynna mér umræður um þetta mál sem hafa farið fram á Alþingi áður og ástæður þess hvers vegna það hefur ekki náð fram að ganga. Sá fjöldi þingmanna, sem stendur að því að flytja málið, bendir til þess að um það ætti að geta ríkt sæmileg samstaða hér í þinginu og þess vegna forvitnilegt að vita hvers vegna málið hefur ekki áður náð fram að ganga.
    Ég held að líta verði á þetta mál og flutning þessa frv. í ljósi þeirra umræðna sem hafa orðið á löngu árabili um stefnu Íslands varðandi kjarnorkuvopn og afstöðu íslenskra stjórnvalda til slíkra vopna. Til að rifja það aðeins upp má minna á að það var fyrst í tíð vinstri stjórnar Hermanns Jónassonar, sem sat á árunum 1956--1958, sem íslensk stjórnvöld voru spurð um afstöðu sína til kjarnorkuvopna. Þá var það að gerast í Evrópu að Bandaríkjamenn voru að koma upp í Atlantshafsbandalagslöndunum eldflaugum með kjarnasprengjum og Sovétstjórnin hóf þá mikla herför gegn þeim ráðagerðum og beindi til aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins spurningum um það hvort þau mundu leyfa að slík vopn yrðu sett niður í löndum þeirra. Ríkisstjórn Íslands á þeim tíma, sem var undir forsæti Hermanns Jónassonar, svaraði þessu bréfi frá Búlganín, þáv. forseta Sovétríkjanna, með afdráttarlausum hætti og sagði að það væri á valdi íslenskra stjórnvalda að taka ákvarðanir um þau mál og hingað yrðu ekki flutt nein kjarnorkuvopn nema með samþykki íslenskra stjórnvalda. Þar með var lagður grunnurinn að þeirri stefnu sem verið hefur í gildi varðandi afstöðu íslenskra stjórnvalda til kjarnorkuvopna alla tíð síðan eða allt frá árinu 1958. Ég tel að þessi stefna hafi reynst ákaflega vel og að það hafi komið í ljós í margendurteknum umræðum um gildi hennar og framkvæmd að gegn henni hafi ekki verið brotið og íslensk stjórnvöld hafi staðið þannig að málum, eins og við öll hljótum að samþykkja, að hér á landi hafi ekki verið kjarnorkuvopn.
    Síðasta alvarlega umræða um þetta mál fór fram á árinu 1980. Þá var Ólafur Jóhannesson utanrrh. og stóð í að svara aðdróttunum um að á Íslandi væru kjarnorkuvopn. Og ef ég man rétt þá var lokahrinan í því máli í ágúst 1980 og fram komu ótvíræð svör um stöðu íslenskra stjórnvalda, valdsvið þeirra og afstöðu í málinu sem þóttu fullnægjandi og tæmandi og umræðan féll niður að þeirri hrinu lokinni. Þau svör voru í raun og veru í samræmi við það sem fram kom í stefnumótun Hermanns Jónassonar á sínum tíma að hér væri mál sem væri á valdi íslenskra stjórnvalda að ákveða og að þau mundu taka sínar ákvarðanir með hliðsjón af hagsmunum þjóðarinnar og ríkisins hverju sinni.
    Þessi stefna var viðurkennd þá og kom fram í bréfaskriftum sem fóru fram á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda á þessum tímum. En vandinn hefur verið sá í þessum málum að Bandaríkjamenn hafa aldrei horfið frá þeirri stefnu sinni að játa hvorki né neita spurningum um tilvist kjarnorkuvopna. Og þessi stefna hefur náð til Íslands eins og annarra landa. Hafi Bandaríkjamenn verið spurðir um það beint hvort kjarnorkuvopn séu á Keflavíkurflugvelli hafa þeir svarað á þann veg að þeir játi því hvorki né neiti enda geri þeir það yfirleitt ekki þegar kjarnorkuvopn eru til umræðu.
    Ég tel að í deilunni sem varð síðast um þetta mál 1980 hafi komið fullnægjandi svör og verið tekið þannig á málinu að það hafi verið úr sögunni og að ekki hafi verið deilt um það síðan hér á landi hvort kjarnorkuvopn væru í varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli eða ekki. Upp úr því fór að bera á málflutningi sem hneig að því að ekki ætti aðeins að líta á bækistöðvar á landi heldur væri ákaflega mikilvægt að meta stöðuna á höfunum. Spurningar vöknuðu um það hvort hingað til lands hefðu komið skip með kjarnorkuvopn og ef ég man rétt var það Geir heitinn Hallgrímsson sem gaf yfirlýsingu um það hér á Alþingi --- hann var utanríkisráðherra 1983, ég ég man ekki nákvæmlega hvað ár þetta var. Ég held að það hafi verið á árunum 1983, 1984 eða 1985 --- að hann liti þannig á að stefna íslenskra stjórnvalda varðandi kjarnorkuvopnin næði einnig til skipa sem kæmu hingað til lands. Þar með var þeirri spurningu svarað.
    Næsta atriði sem kom upp í umræðunum var hvort íslensk stjórnvöld ætluðu að setja lög eins og Nýsjálendingar ákváðu að gera á sínum tíma --- ég held að það hafi verið árið 1987 en hv. 4. þm. Norðurl. e. taldi að það hefði verið árið 1986. Ég held að frv. hafi hugsanlega komið fram árið 1986 en orðið að lögum árið 1987. Á þeim tíma urðu umræður um það hér á landi hvort taka ætti upp sömu stefnu og var mótuð í þessum lögum Nýsjálendinga að lýsa því ekki aðeins yfir að kjarnorkuvopn væru bönnuð í skipum sem kæmu til landsins heldur ætti að sannreyna með því að fara um borð í skipin, ef nauðsyn krefðist, og fá um það afdráttarlausar yfirlýsingar frá eigendum skipanna að ekki væru

um borð í þeim kjarnorkuvopn. Meginkjarninn í stefnu Nýsjálendinga var að þeir tóku það ekki gilt, eins og við höfum gert til þessa, að treysta því að menn virði yfirlýsingar íslenskra stjónvalda um að hér verði ekki kjarnorkuvopn nema með samþykki þeirra. Nýsjálendingar treystu því ekki að menn virtu þetta heldur vildu þeir sannreyna það með því að láta rannsaka skipin og kanna hvort kjarnorkuvopn væru um borð í þeim.
    Þetta leiddi, eins og við vitum, til vinslita, ef ég má orða það svo, í samskiptum Nýsjálendinga og Bandaríkjamanna og olli miklu uppnámi í samskiptum þeirra og samstarfi um varnarmál.
    Ég held að þessar hugmyndir verði að leggja til grundvallar þegar rætt er um frv. sem hér er til meðferðar. Eins og fram kom í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. kemur fram í greinargerðinni að frv. var lagt í fyrsta sinn fram á 109. löggjafarþingi veturinn 1986--1987 og þar stendur að það hafi í engu tapað mikilvægi sínu. Ég dreg þá fullyrðingu í efa eins og ég mun víkja að síðar í máli mínu.
    Áður en ég fer út í þá sálma langar mig aðeins að ræða um frv. og hvernig það er upp sett. Ég tel í fyrsta lagi að heiti frv., Friðlýsing Íslands, að orðið friðlýsing sé ranglega notað í þessu samhengi. Friðlýsing hefur ákveðna merkingu í íslensku lagamáli og er notað í náttúruverndarlöggjöf og það eru náttúruverndaryfirvöld sem geta friðlýst landsvæði. Orðið hefur alveg fasta merkingu í íslensku lagamáli og ég tel mjög óheppilegt að nota það í þessu samhengi. Auk þess gefur heitið á lögunum eða frv. það til kynna að gera þurfi þær ráðstafanir sem í því eru raktar til að friður ríki í landinu. Það er náttúrlega eins og við öll vitum algjört öfugmæli og alls ekki þörf á því að lýsa yfir með frv. af þessu tagi að friður ríki á Íslandi. Ég tel þess vegna að nafngiftin sé mjög óheppileg, hún eigi ekki við rök að styðjast og það eigi að velja annað nafn á þessu tiltæki sem um er að ræða í frv. en kenna það við friðlýsingu.
    Síðan er mjög almennt fjallað í 2. gr. um markmið laganna sem er að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorku- og eiturefnavopnalaust, afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar, draga úr hættunni á kjarnorku- og eiturefnaóhöppum á Íslandi og í grennd við Ísland og stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu. Þetta er ákaflega víðtækt markmið í lagafrv. af þessu tagi og ég teldi eðlilegra, ef menn ætluðu að gera það sem er raunverulega verið að tala um að gera hér, sem sé að banna komu herskipa til Íslands, væntanlega með ákveðin vopn og það er megintilgangur frv., að þá ætti að orða það með þeim hætti og skerpa tilgang laganna í samræmi við það en ekki að hafa hann með jafnalmennum hætti og þarna er gert. Mér finnst að slíkar almennar yfirlýsingar eigi betur heima í þingsályktunum eða stefnuyfirlýsingum ríkisstjórna en í lagafrv. sem þessu.
    Ef við lítum á það sem frv. er ætlað að gera, þ.e. að koma í veg fyrir að hingað komi herskip með kjarnorkuvopn, ég tel að það sé megintilgangurinn, þótt að sjálfsögðu sé einnig minnst á önnur hættuleg vopn, eiturvopn, þá hafa þær breytingar orðið á undanförnum mánuðum að þessi tilgangur eða markmið er í raun og veru óþarft orðið. Ég held að ef flm., hv. 4. þm. Norðurl. e., kynnti sér málin eins og þau eru núna á Nýja-Sjálandi, þangað sem fyrirmyndin er sótt, mundi hann komast að raun um að á Nýja-Sjálandi virðist ríkisstjórnin líta þannig á að ákvörðun Bush Bandaríkjaforseta í lok september 1991 um einhliða afvopnun geri bannið við að herskip komi í nýsjálenskar hafnir, nema lýst sé yfir að kjarnorkuvopn séu ekki í þeim, óþarft. Það er hin mikla breyting sem hefur orðið að Bandaríkjaforseti gaf fyrirmæli um að öll skammdræg kjarnavopn yrðu tekin úr skipum og kafbátum Bandaríkjaflota. Það var augljóst þegar þessi yfirlýsing var gefin 27. sept. að það tæki tíma að hrinda þessum áformum í framkvæmd. Álitið var að frá og með mars 1992, þ.e. í þessum mánuði, yrðu engin bandarísk herskip á hafi úti með kjarnavopn um borð. Sú staðreynd kemur í stað stefnunnar um að játa hvorki né neita tilvist kjarnavopna um borð í bandarískum herskipum. Bandaríkjaforseti hefur sagt að engin kjarnorkuvopn verði í bandarískum herskipum á friðartímum. Ég tel að nú sé sá vafi sem menn gátu verið í varðandi stefnu Bandaríkjastjórnar um hvort kjarnorkuvopn væru um borð í herskipum úr sögunni. Frá og með þessum mánuði jafnvel sé málum þannig komið að engin bandarísk herskip séu á hafi úti með kjarnavopn um borð. Þegar síðast var rætt um það hvort hér

væru kjarnorkuvopn á Íslandi stöldruðu menn við það að svokallaðar Orion-kafbátaleitarvélar, sem höfðu bækistöðvar á flugvellinum hjá bandaríska varnarliðinu, kynnu að flytja djúpsprengjur sem væru með kjarnahleðslu. En nú hefur verið ákveðið að þessar djúpsprengjur, B-57 kjarnorkudjúpsprengjurnar, verði eyðilagðar og ekki smíðaðar nýjar í staðinn.
    Annað eða þriðja nýja vopnið sem menn hafa talað um og talið að kynni að vera um borð í skipum sem hingað kæmu eru svokallaðar Tomahawk stýriflaugar og síðan nýrri gerðir af kjarnasprengjum á flugvélamóðurskipum. Þessi vopn verða geymd í Bandaríkjunum á friðartímum. Samkvæmt þeirri stefnu sem mótuð var með yfirlýsingu Bush í september sl. þá á að ganga þannig frá þessum vopnum að þau verði tiltæk í Bandaríkjunum, ef á þarf að halda, á hættutímum.
    Sú yfirlýsing að vopnin verði geymd í Bandaríkjunum er talin geta valdið því að friðarhreyfingar og umhverfissinnar á Nýja-Sjálandi krefjist þess að lýst sé yfir í hvert sinn að kjarnavopn séu ekki um borð í herskipum sem komi í nýsjálenskar hafnir. Þarna kann sem sagt að vera eftir angi af mati umhverfissinna og friðarhreyfinga á Nýja-Sjálandi en það breytir ekki hinu að ríkisstjórn Nýja-Sjálands, þangað var sótt fyrirmyndin að þessu máli, lítur þannig á að þessi þáttur í þessari sögulegu löggjöf sé orðinn óvirkur að því er varðar kjarnorkuvopn.
    Gorbatsjov lýsti því svo yfir í október árið 1991 að öll skammdræg kjarnavopn yrðu tekin úr skipum og kafbátum sovéska flotans og einhver þessara vopna yrðu eyðilögð. Og Gorbatsjov skoraði á Bandaríkjastjórn að fallast á að öll skammdræg kjarnavopn í sjóherjum yrðu eyðilögð. Bretar hafa ákveðið að taka djúpsprengjur af herskipum sínum og geyma á landi. Þessar sprengjur eru gamlar og afar ólíklegt talið að þær verði settar aftur um borð í herskip. Frakkar hafa hins vegar ekki tilkynnt hvað þeir ætli að gera, hvort þeir ætli að fjarlægja kjarnadjúpsprengjur úr skipum og flugvélum.
    Mér finnst nauðsynlegt að þetta komi fram hér með hliðsjón af þróun umræðna um stefnu okkar Íslendinga í þessum málum. Ég lít þannig á, eins og ég sagði fyrr í máli mínu, að skoða verði frv. í ljósi þróunarinnar og nú sé forsenda fyrir frv. brostin. Nú kunna menn að segja að samþykkt frv. ætti að vera öllum að meinalausu úr því að málum sé þannig komið. En það má segja á móti: Hvers vegna að flytja frv. til laga um atriði sem engu máli skiptir? Það er náttúrlega spurning fyrir flm. hvort þeir vilja halda til streitu hugmyndum sem eiga ekki lengur stoð í raunveruleikanum. En þeir verða að gera það upp við sig. Ég tel að hafi þetta frv. einhvern tíma þjónað tilgangi varðandi kjarnorkuvopn og komu þeirra í íslenskar hafnir sé sú ástæða úr sögunni.
    Atriði, sem kemur fram í frv., lýtur að, ef ég man rétt, kjarnorkuknúnum skipum. Það eigi að sporna gegn því að hingað til lands komi kjarnorkuknúin skip. Þetta vandamál er líka fyrir hendi hjá Nýsjálendingum og er tekið á því í þeirra löggjöf. Ríkisstjórn Nýja-Sjálands hefur ákveðið að koma á fót sérstakri nefnd sem á að fjalla um heimsóknir kjarnorkuknúinna skipa til nýsjálenskra hafna og ætlar ríkisstjórn Nýja-Sjálands í því efni að beita sömu aðferðum og beitt hefur verið af ríkisstjórn Ástralíu. Ég tel víst að hv. 4. þm. Norðurl. e. þekki það mál miðað við þá miklu vinnu sem hann hefur lagt í að undirbúa þetta frv. og hafi kynnt sér aðstæður á Kyrrahafi og hvernig ríki þar hafa tekið á þessum málum. En auðvitað eru aðstæður þar að mörgu leyti mjög ólíkar því sem við stöndum frammi fyrir hér á Atlantshafinu. En ríkisstjórn Nýja-Sjálands vonast til að aflétt verði banni við komu kjarnorkuknúinna skipa í nýsjálenskar hafnir. Þetta er markmið ríkisstjórnar Nýja-Sjálands núna. En nefndastofnunin er hins vegar millistig þannig að ætlunin er að almenningur, þ.e. hver sem vill, geti komið á framfæri kvörtunum ef hann telur hættu á ferðum vegna komu kjarnorkuknúinna skipa í hafnir á Nýja-Sjálandi. Það er samkvæmt upplýsingum sem ég hef haft tök á að afla mér. Þessi nefnd er tekin til starfa og menn eru að ræða þetta og athuga hvernig að þessu skuli staðið. Ég tek það fram líka til að koma í veg fyrir misskilning að David Lange er ekki lengur við völd á Nýja-Sjálandi heldur er komin þar ný ríkisstjórn sem hefur mótað aðra stefnu. Engu að síður lítur hún þannig á að aðstæður hafi breyst það mikið að ekki sé þörf á þessum ströngu lögum. Við

skulum ekki gleyma því að ástæðan fyrir því að þessi lög voru sett á Nýja-Sjálandi er eins og segir í grein um þetta mál sem birtist í breska blaðinu Financial Times 9. okt. 1991: Það var vegna þess hve almenningur á Nýja-Sjálandi var yfirgnæfandi þeirrar skoðunar að gera þyrfti ráðstafanir til að sporna við komu skipa með kjarnorkuvopn eða kjarnorkuknúinna skipa. Almenningur er enn sá sami á Nýja-Sjálandi þótt aldur fólks sem stóð að þessu 1987 hafi kannski breyst og enn tekur ríkisstjórnin náttúrlega mið af viðhorfum almennings. Hún gerir það með þeim hætti sem fram hefur komið núna, að kanna, með því að setja á laggirnar þessa nefnd sem á að fjalla um komu kjarnorkuknúinna skipa, hvort ekki náist góð samstaða um að breyta þessari stefnu einnig. Ég ætla ekki að spá enda þekki ég ekki nægilega mikið til í stjórnmálum Nýja-Sjálands til að spá um hver niðurstaðan verður þar að þessu leyti.
    Mér finnst rétt að það komi hér fram líka að kjarnorkuknúin herskip Bandaríkjaflota eru sex flugvélamóðurskip og níu beitiskip en Rússar eiga núna þrjú kjarnorkuknúin beitiskip, þá er ég að tala um herskip og beitiskip eða flugvélamóðurskip. Ég tala ekki hér um kjarnorkuknúna kafbáta enda er það miklu flóknara mál. Það er eitt af þeim atriðum sem ég ætla að víkja hér sérstaklega að en lýst er yfir í 13. gr. frv., með leyfi forseta:
    ,,Aldrei skal leyfa komu kafbáta, herskipa eða herloftfara inn fyrir 12 sjómílna landhelgi eða lofthelgi eða heimsóknir slíkra farartækja til íslenskra hafna eða flugvalla nema óyggjandi teljist að í því felist ekki brot á friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum samkvæmt lögum þessum.`` Og síðan segir áfram, með leyfi hæstv. forseta: ,,Íslensk yfirvöld skulu í vafatilfellum ætíð leita bestu fáanlegra upplýsinga óháðra aðila sem völ er á til að byggja á ákvörðun sína og ríkisstjórn og Alþingi skulu hafa náið samráð sín í milli þegar taka þarf slíkar ákvarðanir.``
    Að mínu mati er 13. gr. lykilgrein í þessu frv. og er spurning hvernig flm. ætla sér að framfylgja henni. Hvernig er ætlunin að framfylgja þessu ef svo ólíklega vildi til að þetta yrði að lögum? Hvernig sjá menn fyrir sér að unnt verði að framfylgja þessu ákvæði? Hvað á að gera? Kafbátar tilkynna yfirleitt ekki um ferðir sínar og hvernig ætla flm. að standa að því að hrinda þeim áformum sínum í framkvæmd að koma í veg fyrir að kafbátar, kjarnorkuknúnir eða með kjarnorkuvopn, komi að landinu. Ég vek athygli á því að það er ekki verið að tala um að leggja niður langdræg kjarnorkuvopn um borð í kjarnorkuknúnum kafbátum svo að þeir verða enn á sveimi í kringum Ísland eins og annars staðar í heimshöfunum. Hvernig er ætlunin að framfylgja þessu ákvæði ef svo ólíklega vill til að það verði að lögum? Á að koma hér upp einhverjum sveitum sem geta fylgst með ferðum kafbáta eða er það hugmynd hv. 4. þm. Norðurl. e. að bandaríska varnarliðið á Keflavíkurflugvelli annist þetta eftirlit og miðli upplýsingum til íslenskra stjórnvalda? Eða hvaða aðila á að treysta á til að fá þessar upplýsingar og ég tala nú ekki um til að framfylgja banninu ef menn ætla að koma í veg fyrir að skip fari um þessi svæði?
    Í frv. stendur síðan að í vafatilfellum eigi að bera málið undir ríkisstjórn og Alþingi. Hvaða vafatilfelli eru þetta? Hvað getur komið upp? Er þá tími til, ef einhver vafatilfelli koma upp, t.d. ef kafbátur knúinn kjarnorku með kjarnorkuvopn um borð ætlar að fara inn fyrir 12 mílna lögsögu Íslands, að kalla saman þing? Eða á utanrmn. Alþingis að koma saman og álykta um málið og reyna að koma boðum til skipherra kafbátsins? Eða hvað er verið að tala hér um? Vafi hlýtur að vakna ef menn telja að ekki eigi að verða við þeim fyrirmælum sem á að gefa út. Að mínu mati er þessi grein vanhugsuð og ef menn vilja láta hug fylgja máli þarf að útfæra það miklu betur en gert er hvernig á að standa að slíku banni, sérstaklega að því er kafbátana varðar, og hvernig á að fylgjast með því.
    Mér finnst ákaflega sérkennilegt í 16. gr. að láta þessi mál heyra undir forsrh. Eins og fram kom í upphafi máls míns kom það að vísu í hlut þáv. forsrh. Hermanns Jónassonar, að svara bréfinu frá Búlganín og leggja grunninn að þeirri stefnu sem Íslendingar hafa fylgt varðandi kjarnorkuvopn og landsvæði sitt til þessa. Það er kannski með vísan til þess sem menn telja að þessi mál eigi heima undir forsrh. En í þeim deilum sem orðið hafa síðan út af kjarnorkuvopnum á Íslandi hefur það hins vegar verið utanrrh. sem hefur borið hitann og þungann af þessum málum.
    Virðulegi forseti. Þetta er kannski orðið allt of langt mál um frv. sem hér er til umræðu í þriðja sinn. En eins og ég sagði í upphafi þá hef ég hvorki haft tök á því að kynna mér fyrri umræður né haft tök á því að taka þátt í umræðum um þetta mál áður og mér finnst sjálfsagt að ræða málið ítarlega hér í þingsalnum. Hér er um mikilvægt mál að ræða eins og kemur fram þegar maður les nöfn flm. en það eru virðulegir forustumenn í stjórnmálaflokkum. Sjálfsagt er að ræða þetta mál af fullri einurð og velta fyrir sér kostum þess og göllum. Í mínum huga eru gallarnir fleiri en kostirnir. Ég tel að í stað þess að grípa til einhliða aðgerða eins og mælt er fyrir um í þessu frv. eigum við Íslendingar að tryggja öryggi okkar með alþjóðlegum samningum og innan ramma alþjóðasamstarfs. Það er sú leið sem við eigum að fara og stuðla að því að alþjóðlegir samningar takist um afvopnun á höfunum eins og annars staðar. Standa á þannig að málum að ekki sé skertur réttur þjóða til að ferðast um höfin og nota þau í þeim tilgangi sem nauðsynlegur er til þess að tryggja öryggið. Ég held að einhliða stefnumótun af því tagi sem kemur fram í lagafrv. verði ekki til að stuðla að því að við getum verið virkir þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi. Þess vegna tel ég að frv. kunni raunverulega að þjóna öðrum tilgangi en þeim sem lýst er í hinni hátíðlegu 2. gr. þess.