Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 17:54:00 (4720)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Aðeins örfá orð. Mér fannst kenna óþarfa tortryggni, ég vil ekki segja hræðslu, í máli hv. 3. þm. Reykv. Hér er alls ekki um neina krossferð gegn Bandaríkjunum að ræða eða verið að ráðast á hagsmuni Bandaríkjanna eða NATO sérstaklega með þessum frumvarpsflutningi. Heimurinn hefur breyst og tímar kalda stríðsins eru liðnir a.m.k. í bili, sem betur fer. Ég lít þannig á að kostir frv., ef að lögum yrði, séu miklu stærri en gallarnir. Hér er fyrst og fremst um viljayfirlýsingu að ræða, sem áréttar stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum. Ég vitna til ályktunar Alþingis frá 23. maí 1989 þar sem skýrt er kveðið á um að Alþingi árétti þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn. Þetta er skýrt markmið Alþingis og frá því hefur ekki verið horfið. Það er líka rauði þráðurinn í þessum frumvarpsflutningi. Þar sem tekið er á eiturefnavopnum er að vísu nokkuð útvíkkað og ég tel það eðlilegt og sjálfsagt að taka þau með í þetta bann.
    Langmesti umhverfisháski sem við getum hugsað okkur hjá þjóðinni væri ef kjarnorkuslys yrði við strendur landsins. Ástæða er til að ala ugg í brjósti um að svo geti orðið þó við höfum blessunarlega sloppið óhappalaust fram að þessu. Þar af leiðandi er ástæða fyrir stjórnvöld á Íslandi og Alþingi að gera það sem í þess valdi stendur til þess að reyna a.m.k. að hafa afstöðuna skýra um að við viljum ekki slíka umferð á hafsvæði okkar. Mér finnst ekki óeðlilegt að þetta mál sé, eins og lagt er til í frv., á forræði forsrn. og jafnvel enn frekari ástæða nú en áður þegar þetta frv. hefur verið flutt þar sem núv. forsrh hefur ráðið sér sérstakan hermálaráðgjafa. Þá á það auðvitað hvergi betur heima heldur en í

forsrn.
    Það er friðvænlegt í okkar heimshluta í bili. Því miður er upplausn í Sovétríkjunum gömlu og við vitum ekkert hvernig hún endar eða til hvers hún kann að leiða. Víða um heim stendur hernaðarhyggja enn þá föstum fótum. Mér finnst eðlilegt að Alþingi láti þetta mál til sín taka. Ég biðst ekki undan því sem nefndarmaður í utanrmn. að fjalla um málið í þeirri nefnd og þar fær hv. 3. þm. Reykv. líka tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og sannfærast um að um skynsamlegt mál er að ræða. Ég vonast til þess að utanrmn. afgreiði málið á þessu þingi. Sem einn af flutningsmönnunum er ég alls ekki lokaður fyrir hugsanlegum breytingum á frv. og ég tel sjálfsagt að skoða þær. En ég legg til að utanrmn. leggi á sig þá vinnu sem því fylgir að athuga málið gaumgæfilega og vonast til þess að það nái afgreiðslu.