Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 17:59:00 (4721)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirra ummæla sem fram komu í ræðu hv. síðasta ræðumanns vek ég athygli á því að það er svolítið vandasamt að fjalla um þetta mál sem frv. til laga og heyra síðan flutningsmennina tala um það sem viljayfirlýsingu. Viljayfirlýsingu setja menn ekki fram í frv. til laga. Ef menn vilja lýsa vilja sínum með einhverjum hætti hafa þeir mörg önnur úrræði til þess á hinu háa Alþingi en flytja frv. til laga. Og það er einmitt það sem er aðalbrotalömin svo að ég víki nú og haldi mér eins og ég taldi mig gera í ræðu minni um þetta frv. að brotalöm málsins er sú að í 2. gr. frv. er verið með hátíðlegar yfirlýsingar en þegar kemur í 13. gr. frv. er farið að tala um aðgerðir sem sérhvert sjálfstætt land mundi í raun og veru telja að hefðu í för með sér að hér yrði stofnaður herafli til þess að framfylgja þeim. Og ég get ekki tekið það þannig að það sé viljayfirlýsing um að koma á fót íslenskum herafla til þess að framfylgja 13. gr. Á að skilja það svo ef þetta er viljayfirlýsing? Frv. til laga snýst um ákveðið atriði og verið er að lýsa því yfir hvað eigi að gera og síðan hvernig eigi að framfylgja því. Ef það á að gera með þeim hætti sem þarna kemur fram og ef það á að skilja það svo að þetta sé aðeins viljayfirlýsing, um hvað þá, þegar litið er á 13. gr.?