Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 18:01:00 (4722)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það kann að vera nokkuð til í því hjá hv. 3. þm. Reykv. að viljayfirlýsing sé ekki heppilegt orð um það sem fyrir okkur vakir. Það er kannski nokkuð teygjanlegt. Við setjum lög um bann við einu eða öðru. Við getum sett lög um bann við glæpum en getum þó ekki að fullu tryggt að glæpir verði ekki framdir. Líta má á það sem vilja löggjafans að stuðla að því eða setja bann við illvirkjum af þessu tagi. Ég tel að þó að við getum ekki tryggt að gæsla laganna verði með þeim hætti að brot verði aldrei framin komi það ekki í veg fyrir að rétt sé að setja lög.