Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 18:02:00 (4723)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að með því að setja lög gegn glæpum eru glæpir ekki útilokaðir. En við höfum lögreglu til þess að framfylgja þeim lögum. Ef við ætlum að framfylgja þeim lögum sem hér um ræðir og snerta hernaðarleg málefni koma ríki á fót herafla til þess að framfylgja slíkum lögum. Það er alveg ljóst að úrræðin eru til. Þess vegna segi ég: Ef þetta er viljayfirlýsing um að ná þessum markmiðum og ef hv. síðasti ræðumaður ætlar að vera sjálfum sér samkvæmur með því að vísa annars vegar til afbrota sem eru túlkuð sem glæpir í lögum og lögregluliðsins sem við setjum á laggirnar til þess að koma í veg fyrir glæpina, á hann líka að viðurkenna að til þess að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í frv., sérstaklega í 13. gr., hlýtur hann að vilja að komið verði á fót herafla til þess að framfylgja þessum ákvæðum.