Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 18:43:00 (4729)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða nema eitt atriði úr ræðu hv. síðasta ræðumanns. Það er þessi margfræga 13. gr. í frv. og spurningin um eftirlitið. Hann vék að því að Íslendingar hefðu fært út landhelgina og gert það í þeirri trú og þeirri vissu að okkur mundi takast að ná þeim árangri sem að var stefnt. En hann sleppti því sem er mjög mikilvægt þegar við ræðum 13. gr. að í öllum tilvikum voru gerðar ráðstafanir til að efla Landhelgisgæsluna. Í nýlegu blaði sem Gæslan hefur dreift til þingmanna kemur fram að 32 ár eru frá því að varðskipið Óðinn kom til sögunnar. Það var í 12 mílna deilunni. Áður en útfærslan í 200 mílur var 1975 voru gefin út bráðabirgðalög um kaup á flugvél og skipum til þess að framfylgja þessari ákvörðun þannig að það er með öllu rangt hjá hv. ræðumanni að gefa til kynna að Íslendingar hafi fært út landhelgina og ætlað síðan að láta tilviljanir einar ráða hvort það markmið næðist. Þvert á móti, þeir efldu Landhelgisgæsluna, gerðu ráðstafanir sem sýna að í verki mundu þeir framfylgja þessum ákvörðunum. Ég held að það sé meginbrotalömin í frv. að það vantar hvernig á að framkvæma það og í umræðunum finnst mér hafa komið fram að hv. flutningsmenn fari undan í flæmingi þegar kemur að þessu atriði og hefja alls konar útúrsnúninga og rangfærslur og nú síðast þá að Landhelgisgæslan hafi ekki verið efld um leið og landhelgin var færð út.