Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

109. fundur
Miðvikudaginn 25. mars 1992, kl. 14:43:00 (4741)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það var nú ekki trúlegt að niðurstaða Alþingis Íslendinga yrði sú að menn teldu að þeir hefðu komið illa fram við Grænlendinga. Það er yfirleitt ekki algengt að slík naflaskoðun verði ofan á. Ég hygg að það yrði samþykkt hér í heyranda hljóði með öllum greiddum atkvæðum að Íslendingar væru góðir menn ef við mundum bera fram tillögu um það á Alþingi og samstaða yrði á milli sjútvn. og utanrmn. um þá túlkun að það væri mjög góð og friðelskandi þjóð sem býr á þessari eyju.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. talaði mest um tæknilegar útfærslur þegar rætt var um það hvernig menn ættu að koma markmiðum sínum fram og það er út af fyrir sig umhugsunarefni. Það er nefnilega ein höfuðdeila mannkynsins, þessar tæknilegar útfærslur á því hvernig menn koma markmiðum sínum fram. Eftir þeim leikreglum höfum við skipst í stjórnmálaflokka gjarnan. Eftir þeim leikreglum hafa menn réttlætt það hvort þeir færu í stríð eða ekki. Það eru þessar tæknilegu útfærslur á því hvernig menn koma markmiðum sínum fram. Hnefarétturinn er ein af þessum tæknilegum útfærslum á að koma markmiðunum fram.
    Ég tel að þegar við lesum 3. gr. þessa frv. þá fari náttúrlega ekki á milli mála hvert við stefnum og hvað við erum að gera. Með leyfi forseta vil ég lesa 3. gr. frv. eins og hún er nú:
    ,,Erlendum veiðiskipum er heimilt að landa eigin afla og selja í íslenskum höfnum og sækja þangað alla þá þjónustu er varðar útgerð skipsins.
    Þetta er þó ekki heimilt þegar um er að ræða veiðar úr sameiginlegum nytjastofnum sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar efnahagslögsögu hafi íslensk stjórnvöld ekki gert samning um nýtingu viðkomandi stofns við stjórnvöld hlutaðeigandi ríkis.`` --- Þetta er meginreglan. Og áfram les ég: ,,Sjútvrh. er þó heimilt að víkja frá ákvæði þessarar málsgreinar þegar sérstaklega stendur á.
    Erlendum veiðiskipum er ávallt heimilt að koma til hafnar þurfi þau á neyðarþjónustu að halda.``
    Auðvitað fer það ekkert á milli mála að þetta eru viðskiptaþvinganir sem þarna er verið að beita. Það fer ekkert á milli mála. Og gagnvart hverjum? Gagnvart Grænlendingum fyrst og fremst. Það er það sem menn hafa orðið ásáttir um. Og þegar hv. 3. þm. Vesturl. ræðir það í þessu samhengi að það hafi ekki verið samræmi í minni ræðu þegar ég vakti athygli annars vegar á því að Færeyingar hefðu staðið með okkur í þorskastríðinu og hinu að löndunarbann Breta hefði ekki verið skynsamlegt til að beygja okkur Íslendinga, þá átta ég mig hreinlega ekki á því hvert hann er að fara. (Gripið fram í.) Færeyingar neituðu að þjónusta bresku skipin til þess að styðja okkur Íslendinga meðan við áttum í þorskastríði. Telur þingmaðurinn að ekki beri að meta það? Er það niðurstaðan? Ef þingmaðurinn telur að það beri að meta þann stuðning, þá hlýtur hann náttúrlega að gera sér grein fyrir því að ástæðan fyrir því að ég sagði þetta var sú að ég taldi ekki eðlilegt að nú, við þær aðstæður sem við byggjum í dag, værum við að svipta þá veiðiréttindum í íslenskri landhelgi eins og gert var þó að vissulega virði ég það við sjútvrh. að hann tók ekki af þeim öll veiðiréttindin.
    Ég var norður á Akureyri seinni part vetrar fyrir nokkrum árum og gekk þar um iðnaðarfyrirtæki sem framleiddu og seldu búnað um borð í veiðiskip. Ég spurði hvort þeir hefðu verið að selja þetta til útlanda. Og það kom m.a. í ljós að þeir höfðu verið að selja þetta til Grænlands og gengið nokkuð vel. Að vísu gátu þeir ekkert selt í bili. Og hvers vegna? Vegna þess að Íslendingar, þáv. sjútvrh., hafði neitað að heimila Grænlendingum að skipa upp rækju á Íslandi til þess að flytja hana til annarra landa. Þessi neitun var í gildi og það seldist ekkert í verksmiðjunni fyrir norðan á meðan. Menn vilja þegja yfir svona löguðu og minnast ekki á það.
    Ég vil líka koma því á framfæri að ég taldi það ekki góðan hlut fyrir Ísafjarðarkaupstað þegar sá atburður gerðist þar að bæjarfógeti og sýslumaður Ísafjarðarsýslna neitaði áhöfn á grænlenskum togara um landvistarleyfi. Þeir máttu sko bara dúsa um borð. Og hvers vegna neitaði hann þeim um landvistarleyfi? Vegna þess að áhöfnin sem var á togaranum í veiðiferðinni á undan hafði drukkið of mikið vín, haldið á fund landa sinna inn í Súðavík sem voru af veikara kyninu og haldið þar uppi gleðskap meiri en mönnum þótti hóf að. Það er nú svo. Hvað skyldi mega banna mörgum íslenskum skipum að láta áhafnir sínar fara í land ef Bretar og Þjóðverjar hefðu notað þessa reglu gagnvart okkur þegar íslenskir sjómenn drukku of mikið vín í erlendum höfnum? Svona hóprefsingar eins og þarna var beitt eru að mínu viti ekki sæmandi.
    Ég er sannfærður um það að Grænlendingar gleyma ekkert svona móttökum. Ég er sannfærður um það. Og ég var ekkert stoltur af því að vera Íslendingur og bera ábyrgð á því að þannig væri staðið að málum. Auðvitað vilja menn ekki ræða þetta hér, Íslendingar, hin friðelskandi þjóð sem vill ekki að á sig sé kastað kjarnorkusprengjum. Hún vill ekki ræða svona lagað. Þetta eru bara nágrannar okkar sem við erum að eiga samskipti við.
    Ég er sannfærður um það að ef við hefðum haft vit á því að koma fram við Grænlendinga ávallt á þann hátt að við værum ekki með hótanir, þá værum við búnir að ná samningum um nýtingu úr þessum fiskstofnum. Ég er sannfærður um það að hofmóðurinn í okkur Íslendingum, sem vissulega hefur verið til staðar eins og þessi tvö dæmi sanna sem ég hef hér rakið, hefur spillt fyrir því að við næðum samningum um þessi mál.

    Ég get vel tekið undir að það sé æskilegt að Alþingi Íslendinga sé samstiga og menn nái breiðri samstöðu um mörg málefni. Hins vegar tel ég það aðalatriðið að þau lög sem þingið samþykkir séu skynsamleg. Það tel ég aðalatriðið. Og ég tel það ekki skynsamleg lög sem eru á þann veg að þau dragi úr viðskiptum á milli Íslendinga og Grænlendinga og e.t.v. á milli Færeyinga og Íslendinga einnig. Ég tel þau lög ekki skynsamleg. Þau eru langt á eftir tímanum.
    Auðvitað getum við sagt með hofmóði við Grænlendinga: Þið eigið að koma til okkar og láta okkur vita ef þið ætlið að semja við Evrópubandalagið. Þá eigið þið að tala við okkur fyrst. --- Fórum við og töluðum við Grænlendinga þegar við ofveiddum karfann við Grænland og hjuggum hann og hentum stórum hluta í hafið til að hægt væri að pakkfylla togarana? Fórum við og ræddum við þá áður? Ég man ekki eftir því að við hefðum gert það. Það er nefnilega viss hroki í okkur í þessum samskiptum. Það þýðir ekkert að blekkja sig í þeim efnum. Því er nú verr og miður.