Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

109. fundur
Miðvikudaginn 25. mars 1992, kl. 14:57:00 (4743)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. 3. þm. Vesturl. að þó það sé búið að gefa herdeild heimild til að skjóta, þá er ekki víst að hún skjóti. Það er hárrétt athugað. En heimildin er gefin. Utanrrh. eða utanrmn. ráðlagði sjútvn. að ganga þannig frá þessu máli að það væri alveg á hreinu að sjútvrh. mætti fara í viðskiptastríð við Grænlendinga. Hvort það verður gert eigum við undir utanrrh. Þetta er hárrétt athugað. En væri hv. 3. þm. Vesturl. hreykinn af því að hafa gefið heimildina ef niðurstaðan yrði nú sú að þessu yrði beitt? Það er hans samviskuspurning sem hann verður að gera upp við sig. Hann gaf ekki fyrirmælin um að skjóta, hann gaf aðeins heimildina til þess.