Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

109. fundur
Miðvikudaginn 25. mars 1992, kl. 14:58:00 (4744)

     Hjálmar Jónsson :
    Virðulegi forseti. Efnisleg rök þessa máls eru nú komin fram í ræðum hv. þm. og hæstv. sjútvrh. og ekki þörf á ræðum um drykkjuskap og kvennafar sjómanna frá nágrannaþjóð vestur á fjörðum. Hins vegar er um merkilega umræðu að tala. Mér skilst að hægt sé að komast á spjöld sögunnar fyrir hana og það er ekki amalegt að fá að taka þátt í að setja og gera slík lög og þó ekki væri í öðru heldur en að svara hv. 2. þm. Vestf. nokkrum orðum. Hann vitnar gjarnan í söguna og söguleg rök og undir umræðunum áðan minntist ég orða, sem ég er nú ekki að herma beint upp á þann hv. þm., það sem Mörður Valgarðsson sagði forðum þegar hann var beðinn að fara út og stöðva bardaga. Þá sagði hann: ,,Klifar þú nokkuð jafnan, mannfýlan þín.`` En þau orð hef ég ekki um hv. þm. enda þótt rétt sé að láta af skylmingum.
    Það eru sættir um málið í sjútvn. og ég er ánægður með að hafa átt þátt í þeirri breytingu sem gerð var. Meginmarkmið þessa frv. nást fyllilega fram og eru skýr. Með þeim er ekki verið að sýna nágrannaþjóðum óvinskap. Í frv. er hins vegar innbyggð hvatning til þess að samið sé um veiðar úr sameiginlegum nytjastofnum, eins og fram hefur reyndar komið, ekki viðskiptaþvinganir, heldur má kannski frekar segja þvingun í þá átt að ná samningum um nytjastofna sem veiðast utan efnahagslögsögunnar. Við þurfum ábyggilega í ríkari mæli á næstu árum á slíkum samningum að halda ásamt sameiginlegum rannsóknum, veiðieftirliti og öllu því sem til þarf að þessir búskaparhættir þjóðanna séu í sæmilega góðu lagi. Um það viljum við líka frið við alla okkar nágranna þótt við viljum ekki afhenda þeim réttindi Íslendinga. Í því felst engin andúð á vina- og nágrannaþjóðum. Það er hins vegar alveg sjálfsagt að inni sé ákveðið að meðan ósamið sé um veiðar úr sameiginlegum stofnum utan efnahagslögsögunnar þurfi leyfi sjútvrh. til fyrirgreiðslu við skipin sem stunda veiðarnar. Það getur aldrei þjónað íslenskum hagsmunum að illa sé farið með fiskstofna sem veiðast við landið. Iðnaðar-, verslunar- og þjónustugreinar hagnast ekki á því heldur þegar til lengri tíma er litið.