Stjórnarráð Íslands

109. fundur
Miðvikudaginn 25. mars 1992, kl. 15:40:00 (4754)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Áður en ég kem að afar sérkennilegri ræðu sem hæstv. viðskrh. flutti hér í gær vil ég fara nokkrum orðum um ræðu hæstv. forsrh.
    Ég fagna því sem hæstv. forsrh. sagði að þetta frv. sé ekki liður í neinu samkomulagi milli Alþfl. og Sjálfstfl. við stjórnarmyndnun. Ég tel mjög gott að slík yfirlýsing sé komin fram. Það gerir okkur kleift að taka á þessu máli á málefnalegum grundvelli þar sem allir flokkar geta komið að því og metið það hvort æskilegt er að afgreiða málið í þeim búningi sem það er lagt fyrir þingið, eða hvort það á að gera á því einhverjar breytingar. Ég tel mjög gott að það hafi komið hér fram alveg skýrt af hálfu hæstv. forsrh. að Alþfl. og Sjálfstfl. hafa ekki bundið sig saman í þessu máli við stjórnarmyndun, heldur sé þetta lagt fram eins og hvert annað frv. til þess að þingið geti fjallað um það og þá breytt því eftir þörfum.
    Ég vil svo einnig skjóta því hér inn í framhaldi af því sem hv. 7. þm. Reykn. sagði að af hálfu Alþb. hafði það í u.þ.b. 20 ár verið baráttumál flokksins að stofna umhvrn. Það var ekkert sem kom til í tengslum við setu flokksins í síðustu ríkisstjórn, heldur hafði það um langt árabil verið stefnuatriði Alþb., samþykkt á landsfundum og í öðrum stofnunum flokksins, að koma hér á fót umhvrn.
    Ég vil einnig lýsa ánægju minni með þá yfirlýsingu hæstv. forsrh. að í þessu frv. sé ekki tekin afstaða til þess hvernig eigi að skipa Seðlabanka Íslands innan Stjórnarráðsins og það mál hafi ekki verið rætt í ríkisstjórninni. Ég fagna þessari yfirlýsingu alveg sérstaklega. Það hefur komið fram nú þegar í þessum umræðum af hálfu talsmanna a.m.k. tveggja flokka ef ekki þriggja að það er mikil gagnrýni á það að ef þetta frv. verður samþykkt óbreytt þá er til frambúðar verið að skipa Seðlabanka Íslands á bás í einu af atvinnuvegaráðuneytunum. Það er að vísu rétt að hvenær sem er geta menn flutt frv. um að breyta því, en reynslan sýnir okkur það hins vegar að það er mjög sjaldan sem þingið hefur gert breytingar á lögunum um Stjórnarráð Íslands. Ég held ég fari rétt með að einu tvær breytingarnar, sem hafa verið gerðar síðan Bjarni Benediktsson, þáv. forsrh., beitti sér fyrir því að lögin voru sett um Stjórnarráð Íslands, hafi verið 1987 þegar utanríkisviðskiptamálin voru flutt frá viðskrn. til utanrrn. og svo þegar umhvrn. var stofnað. Að vissu leyti má kannski segja að þriðja breytingin með sameiningu Fjárlaga- og hagsýslustofnunar við fjmrn. eigi að teljast þarna með, en ef frá er talin stofnun umhvrn. sem sjálfstæðs nýs ráðuneytis, þá hefur það ekki verið nema tvisvar --- ég held ég fari með það rétt, er þó reiðubúinn að taka leiðréttingum í þeim efnum vegna þess að ég hef ekki flett því upp og geri það hér eftir minni --- að það hafi bara verið tvisvar á þessum tæpa aldarfjórðungi sem lögunum um Stjórnarráðið hefur verið breytt. Þess vegna óttast ég það, hæstv. forsrh., að ef menn taka ekki Seðlabankann út úr þessu frv. hér og nú við afgreiðslu þess, og vista hann annars staðar, þá sé hér a.m.k. um nokkuð langa framtíð verið að skipa Seðlabankanum inn í iðnrn. og það verði mjög erfitt að gera breytingar á því síðar meir.
    Ég vil þess vegna við 1. umr. biðja hæstv. forsrh. sem flm. þessa frv., sérstaklega í ljósi þess að hann hefur lýst því yfir að þetta eigi ekki að vera til frambúðar og Alþfl. og Sjálfstfl. hafi ekki bundið sig neitt sérstaklega saman um þetta frv., að hugleiða það að þegar málið kemur hér til afgreiðslu þá verði vistaskipan Seðlabankans og tilheyrandi málum breytt. Það má gera t.d. á tvennan veg. Það má gera á þann veg að bæta við frv. ákvæði um það að Seðlabankinn skuli heyra undir forsrn. eða fjmrn. Ég er alveg tilbúinn að ræða hvora hugmyndina sem er. En það má líka gera það þannig, ef þetta er eitthvað persónulega viðkvæmt mál fyrir núv. hæstv. viðskrh., en ég hef nokkrum sinnum sagt hér í ræðustólnum að ég tel málið vera nokkuð persónulegt kappsmál hjá honum, þá má auðvitað fara þá leið að leyfa þessu að vera svona í eitt, tvö, þrjú ár, svo lengi sem hann situr þarna í ráðuneytinu, en setja ákvæði í frv. á þann veg að, ég nefni t.d. að 1. júlí 1995 taki önnur skipan gildi. Að frá og með 1. júlí 1995 skuli Seðlabankinn tilheyra annaðhvort forsrn. eða fjmrn. Þar með er málið tekið út úr núverandi kjörtímabili og enginn veit hver fer þá með þessi ráðuneyti að því loknu og sæmileg samstaða þá sköpuð um það hvar málið eigi að vera. Ég bið hæstv. forsrh. að hugleiða í rólegheitum einhverjar af þessum leiðum.
    Ég vil einnig benda á það hér að þegar búið er að sameina þessi tvö ráðuneyti og iðn.- og viðskrn. komið til sögunnar, þá er líka óeðlilegt að hinar alþjóðlegu fjármálastofnanir, eins og OECD, Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, séu í iðn.- og viðskrn. Ég held að það sé varla nokkurt ríki finnanlegt í veröldinni þar sem slík skipan er á. Mér þætti mjög fróðlegt að vita hvar væri hægt að finna dæmi um það að samskipti lands við OECD, Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé í iðnaðarráðuneytinu. Ég held að enginn hafi haft hugmyndaflug til þess að koma því þannig fyrir, en það væri fróðlegt ef menn gætu nefnt það.
    Ég varð t.d. var við það þegar ég var fjmrh. að ýmsum fulltrúum og embættismönnum þessara stofnana fannst dálítið sérkennilegt að þurfa að fara vissa krókaleið að fjmrn. í samskiptum við íslenska Stjórnarráðið og það væri miklu eðlilegra að fjmrn. annaðist samskiptin við OECD, Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn heldur en iðn.- og viðskrn. Ég nefni þetta einnig í þessari umræðu vegna þess að það er ekki bara Seðlabankinn sem skiptir máli í þessum efnum heldur líka hvernig íslenska stjórnkerfið hagar samskiptum sínum við þessar mikilvægu alþjóðastofnanir. Aðrar alþjóðastofnanir hafa verið fluttar til

utanrrn. en mér þætti mjög fróðlegt að fá að heyra rökin fyrir því að OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn eigi að skipta við íslenska lýðveldið í gegnum iðnrn.
    Ég vil aftur lýsa ánægju minni með það að hæstv. forsrh. kom að þessu máli með nokkuð opnum huga og verður væntanlega til þess að menn geti hér í þinginu milli flokkanna og í þingnefndinni rætt um málið og gert á frv. þær breytingar sem allir flokkar geta vel við unað.
    Þá vil ég koma að ræðu hæstv. viðskrh. Hún var, eins og ég sagði áðan, nokkuð furðuleg. Bæði var nú í henni sérkennilegur tónn sem mér fannst gefa til kynna að hæstv. viðskrh. hefði frekar vondan málstað að verja og ætti erfitt með að tína rök inn í umræðuna og svo voru beinar rangfærslur og ósannindi sem ráðherrann notaði svo til þess að setja ofan í við þann sem hér stendur í sérstökum vandlætingartón. Hæstv. viðskrh. fullyrti það t.d. hér í ræðunni að ég hefði sagt --- svo að ég vitni nú orðrétt í þingmanninn, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hv. 8. þm. Reykn. hélt því fram í fyrri helmingi ræðu sinnar að sú regla væri alls staðar viðhöfð eða því nær alls staðar að seðlabankar heyrðu undir fjármálaráðuneyti.``
    Ég sagði ekki orð um þetta í ræðu minni, ekki orð. Það er alveg sama hvað ræðan er lesin oft. Slíka fullyrðingu er hvergi að finna í ræðunni og mér þætti mjög fróðlegt ef hæstv. viðskrh. er reiðubúinn til að koma hér upp og finna þessum orðum sínum stað vegna þess að hann fer síðan í framhaldinu að telja upp í ávítunartón að þetta sé nú ekki svona í Finnlandi og þetta sé nú ekki svona í Sviss og þetta sé nú ekki svona í Þýskalandi og í Bandaríkjunum o.s.frv. Og þar með á allur málflutningurinn að hrynja. Er það virkilega þannig að hæstv. viðskrh. eigi svo erfitt með að finna rök fyrir þessu máli að hann þurfi að fara með ósannindi af þessu tagi til þess að styrkja mál sitt? Það eina sem finna má í ræðu minni sem nálgast það að vera eitthvað í átt við þetta er að ég spurði hæstv. forsrh. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eru nokkur dæmi þess að seðlabanki og gengisskráning heyri í nágrannalöndum okkar undir atvinnuvegaráðuneyti? Ég hef ekki farið yfir það mjög nákvæmlega en það væri mjög fróðlegt að fá það upplýst með hvaða hætti það er.``
    Þetta er það eina sem ég sagði í ræðunni um þetta efni. Ég spurði hæstv. forsrh. hvort þess væru nokkur dæmi að seðlabanki heyrði undir atvinnuvegaráðuneyti. Ég fullyrti ekkert um það, ég spurði. Ég sagði ekkert um fjmrn. og ekkert af því sem hæstv. viðskrh. segir að ég hafi sagt. Ég spyr aftur vegna þess að ég reikna með að jafnvandaður og lærður maður í þessum fræðum og hæstv. viðskrh., jafnmikill kunnáttumaður um meðferð peningamála og stöðu seðlabanka í okkar heimshluta, ég bið hann um að nefna þá dæmi þess hér á Alþingi Íslendinga að seðlabanki heyri stjórnsýslulega undir atvinnuvegaráðuneyti. Ég hef spurt hæstv. forsrh. en hann hefur ekki svarað því enn. Ég ætla svo sem ekkert að vera að þrýsta meira á það. Hæstv. forsrh. hefur greinilega ekki treyst sér til þess að nefna nein dæmi um það og ég ætla ekkert að fjalla nánar um það. Það er alla vega ljóst að hingað til hefur ekki komið fram í umræðunni eitt einasta dæmi um það að seðlabanki heyri undir atvinnuvegaráðuneyti. Ef þau eru til þá þætti mér fróðlegt að fá það hér fram. En ég bið nú hæstv. viðskrh. að vera ekki að fara rangt með þegar hann er að reyna að hrekja það sem menn áttu að hafa sagt í ræðu um þetta mál.
    Hæstv. viðskrh. fullyrti líka að það hefði náðst þverpólitísk samstaða í nefndinni um þetta mál og þess vegna væri skrýtið að þetta væri rætt hér. Þetta er heldur ekki rétt, hæstv. viðskrh. Eins og fram hefur komið hér í umræðunum var frv. um Stjórnarráð Íslands flutt og lagt fram til kynningar eins og allir þekkja til þess að menn gætu skoðað það, en það lá fyrir, bæði af hálfu fjmrn. sem stofnunar, af hálfu Alþb. sem flokks og af hálfu mín sem fjmrh. að það var gerð athugasemd við það að Seðlabankanum og peningamálunum og samskiptum við hinar alþjóðlegu fjármálastofnanir væri komið fyrir í hinu nýja iðnrn. og það átti alveg eftir að ná niðurstöðu í því máli.
    Síðan var í þriðja lagi í ræðu hæstv. viðskrh. mjög sérkennilegur ,,parsus`` um hvort ég hefði kynnt mér húsaskipan í Arnarhvoli. Þetta er greinilega óskaplega viðkvæmt mál. Ég held að 15--20% af ræðunni hafi svo verið varið til þess að sýna fram á að það hafi verið komnar þarna einhverjar dyr milli iðnrn. og viðskrn. á fyrra kjörtímabili og það sé rangt hjá mér að það hafi verið rifinn niður veggur. Nákvæmt skal það vera. Það má vel vera og ég skal alveg taka leiðréttingum í þeim efnum ef það er eitthvað rangt hjá mér að þarna hafi verið rifnir niður veggir. Það er kannski líka rangt hjá mér, hæstv. viðskrh., að það hafi verið rifinn niður veggur sl. haust eða sumar, eða alla vega frá kosningum, í skrifstofu ráðherrans fyrst ráðherrann er á annað borð byrjaður að ræða niðurrif veggja á hans yfirráðasvæði í Arnarhvoli. Mér hefur verið tjáð það að ráðherrann hafi látið rífa niður vegg í skrifstofunni hjá sér og stækkað hana dálítið og svo hefur í blöðum verið sagt að ráðherrann hafi keypt sér nýtt skrifborð fyrir nokkuð myndarlega upphæð. Og ég hef líka heyrt að hann hafi keypt sér ráðherrastól sem kostaði 400 þús. en það er nú kannski eins og ýmislegt annað sem maður heyrir og ég ætla í sjálfu sér ekki að fara að ræða þetta mikið hér en það hlýtur að vera myndarlegur stóll sem kostar 400 þús., ef satt er. Við skulum láta alveg liggja á milli hluta, virðulegi viðskrh., en hins vegar hefur greinilega ýmislegt verið að gerast þarna í herbergjaskipan og húsakosti í viðsk.- og iðnrn.
    Síðan kemur í fjórða lagi nokkuð sérkennilegur ,,parsus`` í ræðunni um söguna, í þeim ávítunartón sem ráðherrann talaði í þessum umræðum í minn garð, og sagt að ég sé ekki sérlega minnugur á nýliðna stjórnmálasögu og byrjar svo á árinu 1903 og 1917. Það var nú að vísu nokkuð löngu áður en ég fór

að fylgjast sjálfur náið með því sem var að gerast á vettvangi stjórnmálanna en hins vegar er ég sæmilega lesinn í þessum fræðum og það er alveg velkomið, fyrst hæstv. viðskrh. kýs að fara með umræðuna inn á þann vettvang, að rifja hérna aðeins upp þessa sögu vegna þess að það er nefnilega rangt hjá hæstv. viðskrh. að iðnaðarráðuneytið hafi á sínum tíma verið sérstaklega tekið út úr atvinnumálaráðuneytinu. Iðnaðarráðuneytið kom, ef hægt er að staðsetja með einhverri nákvæmni, út úr samgrn. Þannig að ef röksemd hæstv. viðskrh. er sú að það eigi að fylgja einhverju sögulegu fordæmi í þessum sameiningarmálum, þá blasir alveg beinast við að fara með verkefnin aftur yfir í samgrn. Það vill nú svo til að í hinu merka riti eftir Agnar Klemenz Jónsson, Stjórnarráð Íslands, er að finna ágætar lýsingar á því hvernig þetta gerðist. Og það vill nú svo líka til árið 1959 var hér á Alþingi mjög fróðleg umræða um þetta mál þar sem þáv. prófessor í stjórnlagafræðum og þingmaður, Ólafur heitinn Jóhannesson, flutti sérstaka fyrirspurn til þáv. dómsmrh., sem einnig var fyrrv. prófessor í stjórnlagafræðum, um sköpun iðnrn. Og í þessum umræðum kom fram að iðnaðarráðuneytið varð til á þann hátt að búa til bara nýjan bréfhaus. Það var bara farið í Gutenberg, löngu áður en menn höfðu hugmyndaflug til að einkavæða það, og beðið um nýjan bréfhaus. Þannig varð ráðuneytið til. En prófessorinn í stjórnlagafræðum, Ólafur Jóhannesson, taldi að þetta væri kannski ekki alveg löglegt. Um þetta spunnust síðan mjög fróðlegar umræður á Alþingi og frá því er greint í sögu Agnars Klemenz Jónssonar af Stjórnarráði Íslands. Mig langar, iðnrh. og viðskrh. til fróðleiks, fyrst hann á annað borð fór að setja sig á háan hest í sagnfræði hér í umræðunni, að rifja þetta aðeins upp fyrir hann svo að hann hafi heldur það sem sannara reynist.
    Ólafur Jóhannesson segir í framsöguræðu sinni með þessari fyrirspurn á Alþingi Íslendinga 3. des. 1959, með leyfi virðulegs forseta: ,,Það mun nú vera . . .  `` ( Forseti: Vegna þess að það er liðið að þingflokksfundatíma vildi ég spyrja ræðumann hvort hann á mikið eftir af ræðu sinni því að þá vil ég biðja hann um að fresta henni.) Það er nú afstætt, virðulegi forseti, hvað er mikið og hvað er lítið í þessum fræðum. Ég hafði í sjálfu sér ekki ætlað mér að flytja neitt mjög langt mál hér, en það er hins vegar orðin hefð í þessu máli að ég geri hlé á ræðum mínum og svo sé það tekið fyrir síðar þannig að ég er alveg reiðubúinn að gera það hér og nú.