Flutningur stofnana á vegum ríkisins út á landsbyggðina

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 10:31:00 (4755)

     Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. forsrh. um flutning stofnana á vegum ríkisins út á landsbyggðina. Hún hljóðar svo:
    ,,Hvenær má búast við því að ríkisstjórnin hefjist handa við framkvæmd starfsáætlunar sinnar um að stofnunum og þjónustu á vegum ríkisins verði komið fyrir utan höfuðborgarsvæðisins eftir því sem hagkvæmt þykir?
    Hvaða þjónusta og stofnanir verða í upphafi fluttar af höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina?``
    Það hefur verið sístætt umræðuefni að nauðsynlegt er að flytja ríkisstofnanir og opinbera þjónustu í ríkari mæli út á landsbyggðina en raun ber vitni. Umræðurnar hafa að vísu ekki skilað þeim árangri sem flestir hafa vænst. Ég geri mér grein fyrir því að um viðkvæmt og e.t.v. erfitt viðfangsefni er að ræða. Þetta mál snertir búsetuþróunina í landinu. Eigi að síður er það staðreynd að á meðan vilji hefur verið fyrir því að flytja opinbera þjónustu og ríkisstofnanir í auknum mæli út á landsbyggðina þá hefur ríkisvaldið stóraukið rekstur, fjárfestingar og þjónustu sína á höfuðborgarsvæðinu. Til marks um þetta má ætla að rekstur ríkisvaldsins á höfuðborgarsvæðinu á sl. 10 árum hafi aukist nánast um helming ef talið er í störfum, en sjö af hverjum tíu störfum sem felast í aukningunnni eru öll í Reykjavík. Þannig að það hallar mjög á landsbyggðina.
    Fjárfesting og rekstrarstefna ríkisvaldsins hefur náttúrlega mjög mikil áhrif á alla búsetuþróun og það mundi skipta sköpum fyrir búsetu á landsbyggðinni ef ríkisvaldið mundi taka upp virkari stefnu í því að flytja þessa þjónustu út á land eins og aðstæður frekast leyfa og það mun styrkja lífskjör og búsetuna

í landinu. Þá er einnig þess að geta að það kostar landsbyggðarfólk mjög mikið að þurfa að sækja þjónustuna langt og skapar óeðlilegan aðstöðumun í landinu. Þess vegna hef ég flutt þessa fsp. sem ég hef lesið og óska svara hæstv. forsrh.