Flutningur stofnana á vegum ríkisins út á landsbyggðina

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 10:46:00 (4762)

     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Ég er sammála þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls. Þetta er mikilvægt mál og skiptir miklu að við fjöllum um það af hreinskilni og séum tilbúin til þeirra verka sem þau krefjast. Ég vek athygli á svari hæstv. forsrh. Það er engan veginn hægt að draga þær ályktar af svarinu að hann tali sem málsvari Reykjavíkur gegn landsbyggðinni, síður en svo. Hann hefur þegar hreyft máli um flutning stórrar stofnunar frá Reykjavík út á land og benti á rökstuðning sem kom fram hjá þeirri stofnun sjálfri eða hennar stjórn sem var andstæðrar áttar. Ég tek undir það, sem hann lét í skína, að þessu máli verði hreyft með formlegu þingmáli, væntanlega með frv. eða þáltill., um að þetta verði skoðað ofan í kjölinn og að við tökum efnislega á slíku varðandi staðsetningu hverrar einnar stofnunar þegar hún kemur til umfjöllunar. En við verðum að hafa heildarstefnu og það þýðir ekki fyrir okkur hv. þm. að þvælast fram og til baka á forsendum hagsmuna kannski fáeinna byggðarlaga af fjölmörgum í landinu.